Fyrsta umferð Íslandsmóts drengja í 10. flokki fór fram síðastliðna helgi og spiluðu Vestra strákar í D riðli sem fram fór í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi. Andstæðingar Vestra að þessu sinni voru heimamenn í FSu, ÍR og Snæfell. Nebojsa Knezevic stýrði strákunum í fjarveru Yngva Gunnlaugssonar og Hallgrímur Kjartansson var fararstjóri. Lið Vestra skipa Alexander Leon Kristjánsson, Blessed Parilla, Daníel Wale Adeleye, Egill Fjölnisson, Friðrik Vignisson, Hilmir Hallgrímsson, Hugi Hallgrímsson, Stefán Snær Ragnarsson og Þorleifur Ingólfsson.
Fyrsti leikur drengjanna var gegn FSu. Snemma varð ljóst hvað í stefndi, en Vestrastrákar tóku öll völd á vellinum strax í upphafi leiks og komust í 23-2. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 26-10, en Vestri leiddi 53-14 í hálfleik! Ekki tók betra við hjá heimamönnum í seinni hálfleik og var niðurstaðan afgerandi sigur Vestra, 81-24.
Næsti leikur strákanna var gegn ÍR. Sá leikur var spilaður strax í kjölfar fyrsta leiksins og því óneitanlega þreyta komin í okkar stráka. Þrátt fyrir það létu þeir lítinn bilbug á sér finna og kláruðu Breiðhyltinga með öðrum stórum sigri, 71-43.
Aðeins einn leikur var leikinn á sunnudeginum. Það var viðureign Vestra og Snæfells en líkt og Vestri hafði Snæfell lagt bæði FSu og ÍR að velli og því um uppgjör toppliðanna að ræða. Jafnt var á öllum tölum framan af leik en um miðbik 3. leikhluta náði Vestri smávægilegu forskoti sem andstæðingar þeirra náðu ekki að vinna upp. Svo fór að Vestri vann að lokum þægilegan 64-48 sigur og munu strákarnir þar af leiðandi leika í C-riðli í næstu umferð.
Nebo þjálfari var hæstánægður með framlag strákanna og var á því að sterk liðsheild og samkennd hafi staðið upp úr að þessu sinni. Allir komust vel frá sínu og skiluðu hlutverkum sínum með sóma.
Deila