Fréttir

Uppskeruhátíð yngri flokka í dag

Körfubolti | 21.05.2015
Fjölmennum á Torfnes í dag.
Fjölmennum á Torfnes í dag.

Uppskeruhátíð yngri flokka KFÍ verður haldin með pomp og prakt í íþróttahúsinu á Torfnesi í dag. Hátíðin hefst kl. 17 og verður lokið vel áður en Júróvisjóndagskrá kvöldsins hefst. Hátíðin er ætluð iðkendum félagsins á aldrinum 6-16 ára, fjölskyldum þeirra, þjálfurum og velunnurum félagsins.

 

Veittar verða viðurkenningar, allir gestir fá að spreyta sig í körfuboltaleikjum og hátíðinni lýkur síðan með pylsupartíi og ís í boði félagsins og styrktaraðila. Við hvetjum alla sem komið hafa að starfinu með okkur í vetur til að mæta á Torfnes í dag og gleðjast með krökkunum og þjálfurum þeirra eftir vel heppnaðan vetur.

 

Mikil gróska hefur verið í starfsemi yngri flokka KFÍ í vetur, einkum í yngstu hópunum. Stúlkur hafa fjölmennt í körfuna og nú er svo komið að þær eru jafnvel fleiri en strákarnir ef allt er talið saman. Vetraræfingum félagsins er nú lokið en fyrirhugað er að bjóða upp á sumaræfingar sem hefjast í byrjun júlí og verða þær ætlaðar 10 ára iðkendum og eldri. Svo eru Körfuboltabúðirnar að sjálfsögðu rétt handan við hornið en þær fara fram dagana 2.-7. júní. Eins og flestir vita eru búðirnar stærsta einstaka verkefnið sem félagið ræðst í á ári hverju en þær eru nú haldnar í sjöunda sinn.

Deila