Fréttir

Urðu undir Keflavíkurhraðlestinni

Körfubolti | 08.04.2013
KFÍ-b í ham. Mynd: Ingvi Stígsson / Úr safni
KFÍ-b í ham. Mynd: Ingvi Stígsson / Úr safni

KFÍ og Keflavík mættust á laugardaginn í B-liða deild karla í gryfjunni í Bolungarvík. Leikurinn skipti hvorugt lið miklu máli, nema upp á stoltið, því Keflavík var þegar búið að tryggja sér 2. sætið í deildinni og sæti í úrslitakeppninni á meðan KFÍ var í 5. sæti og átti ekki möguleika á að komast ofar.

Ísfirðingar byrjuðu leikinn með ágætum og leiddu með 6 stigum, 15-9, um miðbik fyrsta leikhluta. En þá voru Keflvíkingar búnir að kynda upp í hraðlestinni með Atla Ragnarsson fremstan í flokki og áður en Shiran gat kallað "Hver er að dekka þennan mann!?" þá hafði hann sett 4 þrista í röð og félagar hans tvo í viðbót. Staðan eftir fyrsta leikhluta 20-31 fyrir gestina og var í kjölfarið snarlega ákveðið að hætta að nota !"#$%@ svæðisvörnina.

Í öðrum og þriðja leikhluta hélst munurinn svipaður, minnstur varð hann 6 stig en Keflvíkingar héldu þó með 14 stiga forustu inn í fjórða leikhluta. Í lokaleikhlutanum var svo ákveðið að skipta aftur í svæðisvörn með það a markmiði að reyna að ná einu góðu áhlaupi á gestina því það gæti ekki verið að þeir myndu hitta svona aftur. Einhver gleymdi víst að segja Keflvíkingum það því þeir röðuðu niður 6 þristum á síðustu fjórum mínútunum og enduðu með að sigra 59-89.

Bestu menn KFÍ í leiknum voru þeir Magnús Þór Heimisson og Andri Már Einarsson. Magnús braut ítrekað upp vörn Keflvíkinga þegar hann keyrði að körfunni og endaði með 21 stig og 8 fráköst. Andri Már átti sinn besta leik í vetur, skoraði 15 stig og reif niður 7 fráköst en hann þótti minna mikið á ungan Friðrik Stefánsson í leiknum, þá sérstaklega frá vítalínunni. Frákastamaskínan Stefán Þór Hafsteinsson hélt áfram uppteknum hætti við að sótthreinsa spjaldið, en hann reif niður 14 fráköst, og ekki má svo gleyma leikstjórnandanum unga og upprennandi, Pétri Geir Svavarssyni, sem átti klárlega tilþrif leiksins sem sjá má í lok þessa myndbands.

 

 

Hjá Keflavík voru Sigurður Vignir Guðmundsson og Atli Ragnarsson bestir með 27 stig hvor og þótt nýtingin þeirra hafi ekki verið upp á marga fiska (38%) þá bættu þeir sér það upp með því að skjóta oft og mikið.

Dómarar leiksins stóðu sig báðir með ágætum þótt flestum sönnunargögnum þess eðlis hafi þegar verið eytt, en þess má geta að báðir voru þeir Bolvíkingar og því var ekki að ræða um mikla heimadómgæslu á þeim bænum.

KFÍ-b
Magnús Heimisson - 21 stig, 8 frk, 4 stoð, 3 stl.
Andri M. Einarsson - 15 stig, 7 frk, 2 stl
Shiran Þórisson - 10 stig, 6 frk, 4 stoð
Stefán Hafsteinsson - 4 stig, 14 fráköst
Sigmundur Helgason - 4 stig, 5 frk, 3 stoð
Sturla Stigsson - 3 stig, 2 stoð, 1 blk
Vésteinn Rúnarsson - 2 stig, 3 frk
Viðar P. Júlíusson - 0 stig, 4 frk, 1 blk
Pétur Geir Svavarsson - 0 stig, 1 stoð
Hákon D. Guðjónsson - 0 stig, 1 frk

 

Keflavík-b

Sigurður V. Guðmundsson - 27 stig, 4 þristar, 11 stoð, 6 frk
Atli Ragnarsson - 27 stig, 6 þristar, 15 frk
Elentínus Margeirsson - 14 stig, 18 frk, 4 stoð, 2 blk
Garðar Ö. Margeirsson - 6 stig, 6 stoð
Guðleifur Magnússon - 5 stig, 8 frk
Brynjar Guðlaugsson - 5 stig, 9 frk
Bjarni Ragnarsson - 5 stig, 2 frk

Deila