Margmenni var þegar yngri flokkar Körfuknattleiksdeildar Vestra hnýttu endahnútinn á vetrarstarfið með sinni árlegu Uppskeruhátíð, en hún var haldin á Torfnesi fyrir hálfum mánuði eða mánudaginn 20. maí. Að venju tóku allir iðkendur við viðurkenningum frá þjálfurum sínum og slegið var upp hinni hefðbundnu pylsuveislu körfunnar. Allir fengu síðan íspinna í boði Kjörís að hátíð lokinni.
Þetta er í síðasta sinn (í það minnsta í bili) sem Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari Kkd. Vestra, lýkur vetrarstarfinu með félaginu en hann heldur nú á ný mið með fjölskyldu sinni eftir þrjú farsæl ár hjá Kkd. Vestra. Var honum færður blómvöndur frá barna- og unglingaráði sem lítill þakklætisvottur fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
Vetrarstarfi körfunnar er nú formlega lokið en á morgun hefjast hinar árlegu Körfuboltabúðir Vestra, ellefta árið í röð, og í framhaldi af þeim verður boðið upp á bæði sumaræfingar, fyrir eldri iðkendur, og stutt sumarnámskeið fyrir yngstu iðkendurnar. Nánari upplýsingar um sumardagskrá körfunnar má finna á vefsíðu Vestra og facebook-síðu yngri flokka Kkd. Vestra þegar líður nær helginni.
Deila