Ríflega þrjátíu iðkendur í yngstu aldurshópum Vestra eru á leið á hið árlega Nettómót á Suðurnesjunum, sem er langstærsti körfuboltaviðburður landsins. Í ár fagnar mótið 30 ára afmæli og verður enn meira um dýrðir af því tilefni. Áratugalöng hefð er fyrir þátttöku Vestra á mótinu.
Körfuknattleiksdeild Vestra teflir fram sjö liðum í ár, bæði stúlkna- og drengjaliðum, og sjá fjórir þjálfarar um að stýra þeim í keppni helgarinnar. Einnig er með í för fjöldi foreldra og systkina og má ætla að sendinefnd Vestra á Nettómótinu telji í það minnsta 80 manns.
Nettómótið er samstarfsverkefni barna- og unglingaráða körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur og er þeirra stærsta fjáröflun. Hátt í 1.500 keppendur hafa sótt mótið þegar mest hefur verið og í ár eru 701 lið skráð frá 25 félögum vítt og breytt um landið.
Mótshaldarar hafa fylgst náið með gangi mála tengdum COVID-19 veirunni og eiga í góðu samráði við heilbrigðisyfirvöld. Lögð verður áhersla á almennt hreinlæti með sérstaka áherslu á handhreinsun samkvæmt ráðleggingum. Eins er biðlað til fólks sem verið hefur að finna fyrir lasleika, verið á skilgreindum hættusvæðum s.l. 14 daga, eða sent í sóttkví, að halda sig frá mótsstöðum sem og öðrum almenningsstöðum. Á mótsstað mun jafnframt verða aðgengilegt handspritt með sýnilegum hætti og leiðbeiningar verða settar upp sem víðast með hvatningu um almennt hreinlæti og handþvott.
Við óskum Vestrakeppendum góðrar ferðar á Nettómót og velgengni í keppninni framundan. Það verður enginn svikinn af því að taka þátt í þessu skemmtilegasta körfuboltamóti landsins. Áfram Vestri!
Deila