Tæplega tuttugu börn úr Körfuknattleiksdeild Vestra tóku þátt í hinu árlega Sambíómóti Fjölnismanna í Grafarvogi sem fram fór um síðustu helgi. Margra ára hefð var fyrir því hjá fyrirrennaranum KFÍ að fara á þetta skemmtilega mót enda tilvalinn vettvangur til að spreyta sig fyrir yngstu iðkendur félagsins. Mótið er ætlað börnum frá 6-11 ára en að þessu sinni voru Vestrakrakkarnir á mótinu aðeins 6-9 ára þar sem 10 og 11 ára iðkendur félagsins taka nú í fyrsta sinn þátt í Íslandsmótum og eiga nóg með þau mót í annasamri dagskrá.
Vel skipulagt mót
Það var greinilegt frá fyrsta leik á laugardagsmorgni að mikil fagmennska og reynsla liggur hjá Fjölnismönnum í skipulagi á stóru minniboltamóti. Mótið var það nítjánda í röðinni og er löngu orðinn fastur liður fyrstu helgina í nóvember hjá framtíðarkörfuboltasnillingum landsins. Að þessu sinni voru keppendur 670 talsins auk aðstandenda, þjálfara og liðsstjóra frá 18 félögum víðsvegar af landinu. Aðaláhersla er lögð á að hafa gaman, vera með vinum sínum, kynnast nýjum vinum og spila fullt af körfubolta. Vestri sendi fjögur lið af upprennandi körfuknattleiksfólk, tvö strákalið og tvö stelpulið.
Þjálfarinn í sjöunda himni
Gunnlaugur Gunnlaugsson þjálfar alla æfingahópa Vestra í 1.-4. bekk og hann var í sjöunda himni yfir árangri síns fólks og segir ferðina hafa heppnast fullkomnlega: „Eins og venjan er í minnibolta þá er ekki haldið utan um stigaskor á Sambíómótinu enda er markmiðið einfaldlega að spila körfubolta með bros á vör og sýna fram á ánægjuna sem hægt er að hafa af því að keppa í körfubolta. Þar má segja að við höfum unnið mótið ásamt öllum öðrum liðum sem tóku þátt, því gleðin og spennan fyrir því að spila var gífurleg og einstaklega gaman að sjá börnin upplifa sanna ánægju með þessum hætti. Liðin sem tóku þátt hjá okkur í ár voru annarsvegar úr krakkakörfunni hjá okkur og hinsvegar úr minnibolta yngri og var það mjög ánægjulegt að geta sent bæði stráka og stelpulið úr báðum æfingahópum. Framfarirnar voru meiriháttar á milli leikja og í síðasta leikjunum mátti sjá frábær tilþrif og heldur betur bjarta framtíð í körfuboltastarfinu hjá okkur“, segir Gunnlaugur greinilega stoltur yfir þessum yngstu iðkendum félagsins.
Reynsluboltar með í för
Öll lið spiluðu fimm leiki á mótinu og er það augljóst hvað þátttaka á mótum líkt og Sambíómótinu hefur mikil áhrif á áhuga barnanna á leiknum og framfarir þeirra á vellinum. Þar sem spilað var í fjórum liðum þurfti að kalla til aðstoðarþjálfara þegar leikir stönguðust á. Engir aukvisar voru fengnir til verksins því reynsluboltarnir Stefanía Ásmundsdóttir og Yngvi Gunnlaugsson tóku að sér þjálfarahlutverk þegar liðin voru að spila á sama tíma og gerðu þau það af sinni einstöku snilld. Fá þau bestu þakkir fyrir. Einnig hefði ferðin aldrei verið jafn vel heppnuð ef ekki hefði verið fyrir frábæran hóp af foreldrum sem var ávallt hvetjandi fyrir alla iðkendur, hvort sem þeir voru í liði Vestra eða í liði andstæðinganna. Síðast en ekki síst þá þakkar félagið fararstjórum ferðarinnar sem héldu frábærlega utan um skipulag sinna hópa og gerðu ferðina eins ánægjulega og raun varð á.
Næsta mót þessa aldurshóps er sjálft Nettómótið í Reykjanesbæ í byrjun mars, sem er stærsta körfuboltamót landsins og margra ára hefð fyrir þátttöku ungra, vestfirskra körfuboltakappa á því móti.
Hér má sjá myndbrot sem karfan.is tók saman af mótinu og augljóst að þarna var gleðin við völd.
Deila