Um síðustu helgi lauk keppnistímabilinu hjá meistaraflokki Vestra. Þótt ákveðin vonbrigði hafi verið að falla úr leik í undanúrslitum getur liðið og allir sem að því standa verið sátt við árangurinn. Aðalmarkmiðin sem stefnt var að fyrir tímabilið náðust og liðið spilaði lengst um frábærlega. Það er því full ástæða til að líta björtum augum til framtíðar og halda uppbyggingarstarfinu áfram.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra er þegar farin að vinna af krafti í því að undirbúa næsta tímabil. Stórum áfanga í því skyni var náð í gær þegar stjórn komst að samkomulagi við leikmennina Nebojsa Knezevic og Nemanja Knezevic um að leika áfram með liðinu næsta vetur. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þeirra beggja í liði Vestra enda voru þeir meðal bestu leikmanna 1. deildarinnar á yfirstandandi tímabil. Þeir röðuð sér ofarlega á lista yfir framlagshæstu leikmenn deildarinnar og leiddu hana í sitthvorum tölfræðiþættinum, Nemanja í fráköstum (17,84) og Nebojsa í stoðsendingum (7,33). Nebojsa verður áfram í þjálfarateymi Vestra en á yfirstandandi tímabili hefur hann verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks auk þess að þjálfa unglingaflokk pilta og 10. flokk drengja. Nemanja mun einnig koma að þjálfun á næsta tímabili en hann er menntaður íþróttafræðingur frá heimalandi sínu með áherslu á körfubolta.
Þá verður Yngvi Gunnlaugsson áfram þjálfari liðsins en hann hefur undanfarin tvö ár gegnt starfi yfirþjálfara og er með ótímabundinn ráðningasamning við deildina. Yngvi hefur skilað frábæru starfi hér fyrir vestan og því ríkir mikil ánægja með það í herbúðum Vestra að hann haldi því góða starfi ótrauður áfram.
Við stefnum að því að segja frekari fréttir af leikmannamálum fljótlega eftir páska en næst á dagskrá er að njóta Skíðavikunnar, skemmta sér á Páskaeggjamótinu og standa vaktina í sjoppunni á Aldrei fór ég suður sem Körfuknattleiksdeildinn hefur haft umsjón með undanfarin ár.
Deila