Fréttir

Afrekssjóður HSV styrkir unga afreksmenn

Vestri | 13.03.2019

Íþróttamennirnir fjórir úr Vestra sem gerðir voru ársamningar við eru þau Auður Líf Benediktsdóttir hjá blakdeild Vestra, bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir hjá körfuknattleiksdeild Vestra og Þórður Gunnar Hafþórsson hjá knattspyrnudeild Vestra.

Auður Líf er 19 ára og ein efnilegasta blakkona landsins og hefur verið fastamaður í yngri landsliðum í blaki. Hún spilar með meistarflokki kvenna hjá Vestra í 1. deild. Árið 2018 keppti hún fyrir Íslands hönd á EM U19 sem haldið var í Úkraínu. Hún spilaði með B-landsliðinu í blaki á Ítalíu og aftur með U19 liðinu í Englandi. Markmið Auðar á árinu er að komast í A-landsliðið í blaki.

Hilmir hefur náð langt í íþrótt sinni og var tilnefndur af félaginu sínu sem efnilegasti leikmaður Kkd Vestra við útnefningu á íþróttamanni Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2017. 

Hugi er einn efnilegasti körfuknattleiksmaður landsins í sínum aldurshópi og var um áramótin síðustu útnefndur efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2018 eftir tilnefningu frá félaginu sínu.

Bræðurnir sem eru nýorðnir 17 ára urðu bikarmeistari í 9. flokki drengja með félögum sínum í Vestra 2017 og vorið 2018 vann liðið til silfurverðlauna í Íslandsmóti 10. flokks KKÍ. Það vor var liðinu einnig boðið á firnasterkt félagsmót í Södertalje í Svíþjóð, Scania Cup, en þangað er einungis sterkustu liðum á Norðurlöndum boðið.  Í vetur hefur þeir leikið með meistaraflokki Kkd. Vestra, auk þess að vera lykilmenn í liði drengjaflokks Kkd. Vestra.

Þórður Gunnar er mjög efnilegum knattspyrnumaður sem þrátt fyrir að vera einungis 17 ára hefur spilað með meistarflokki Vestra síðustu tvö keppnistímabil. Siðustu tvö ár hefur hann verið valinn efnilegasti leikmaður Vestra og var útnenfdur efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2017. Þórður á að baki 8 landsleiki með yngri landsliðum og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með U18 síðasta sumar. Á síðasta ári fór hann til reynslu hjá enska knattspyrnuliðinu Barnsley í vikutíma.

Deila