Fréttir

Karlahreysti hlaut Hvatningarverðlaun UMFÍ 2024

Vestri | 16.10.2024
1 af 3

Karlahreysti á Ísafirði (HSV), Ungmennafélag Grindavíkur og Skíðafélag Strandamanna hlutu Hvatningarverðlaun UMFÍ 2024. Verðlaunin voru afhent 12. október sl. á sambandsráðsfundi UMFÍ í Borgarfirði. Hvatningarverðlaun UMFÍ eru veitt fyrir eftirtektarverð og framsækin verkefni sem skara fram úr eða fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. 

Karlahreysti hefur vakið verðskuldaða athygli og þykir gott dæmi um verkefni sem stuðlar að bættri lýðheilsu í samfélaginu. Um er að ræða hóp karla á Ísafirði sem hefur frá árinu 2018 stundað reglulega útvist og hreyfingu undir heitinu Karlahreysti. Snemma fengu þeir til liðs við sig Árna Heiðar Ívarsson íþróttafræðing sem skipuleggur æfingar hópsins sem hittist þrisvar í viku yfir veturinn. Þeir láta veðrið aldrei stoppa sig og einkunnarorð hópsins eru „Út í öll veður“. Áherslan er á líkamlega hreyfingu en félagslegi þátturinn er ekki síður mikilvægur. Í dag telur Karlahreysti nálægt 40 karla en að jafnaði mæta um 15 karlar á æfingar. Fjölgað hefur jafnt og þétt í hópnum með árunum og greinilegt að þörf hefur verið fyrir félagsskap sem þennan þar sem æfingar þjóna bæði líkama og sál. 

Íþróttafélagið Vestri óskar Karlahreysti til hamingju með Hvatningarverðlaun UMFÍ!

 

Deila