Fréttir

Yfirlýsing frá aðalstjórn Vestra

Vestri | 09.03.2018

Í kjölfarið á vakningu sem hefur orðið undir merkjum #metoo um ofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar tekur íþróttafélagið Vestri heilshugar undir yfirlýsingu ÍSÍ sem fordæmir allt ofbeldi í starfi íþróttahreyfingarinnar enda er slík hegðun óásættanleg og ólíðandi. Það er mikilvægt að íþróttahreyfingin í heild sinni hlusti á raddir þolenda og aðstandenda þeirra, læri af þeim og bregðist við af fullum þunga. Stjórn Vestra telur mikilvægt að iðkendur félagsins, foreldrar og aðstandendur þeirra geti treyst því að þau séu örugg á vettvangi félagsins og ber stjórn Vestra skylda til að tryggja það.

Félagið er núna að ljúka sínu öðru starfsári og hefur þegar hafið undirbúning að vinnu við jafnréttisstefnu og siðareglur sem öllum er tengjast félaginu ber að fylgja. Mun félagið óska eftir samstarfi við HSV í þessari stefnumótunarvinnu sem og vinnu við fræðslu- og forvarnarstefnu og innleiðingu aðgerðaráætlunar vegna ofbeldisbrota, eineltis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni með það að leiðarljósi að tryggja öryggi, jafnrétti og jafnræði þeirra sem iðka og starfa innan félagsins.

Ef iðkandi, þjálfari eða aðrir sem félaginu tengjast upplifa/hafa vitneskju um eða verða vitni að áreiti eða ofbeldi þá skal viðkomandi að láta trúnaðarmann félagsins strax vita svo hægt sé að bregðast við með réttum hætti og koma slíkum málum í viðeigandi ferli.

 

Trúnaðarmaður félagsins er Birna Lárusdóttir, sími 896 3367, netfang bil@snerpa.is

Hér má nálgast bækling ÍSÍ um Forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi í íþróttum.

Deila