Fréttir

Þrír Íslandsmeistaratitlar til Vestra

Hjólreiðar | 13.08.2024
Keppnislið Vestra í ungdúró. Frá vinstri: Ísar Logi Ágústsson, Esja Rut Atladóttir, Sara Matthildur Ívarsdóttir, Dagur Ingason, Þorgils Óttar Erlingsson, þjálfari, Aron Ýmir Ívarsson, Daníel Logi Ævarsson, Julian Númi Bechtloff Heiðarsson og Adrían Uni Þorgilsson.
Keppnislið Vestra í ungdúró. Frá vinstri: Ísar Logi Ágústsson, Esja Rut Atladóttir, Sara Matthildur Ívarsdóttir, Dagur Ingason, Þorgils Óttar Erlingsson, þjálfari, Aron Ýmir Ívarsson, Daníel Logi Ævarsson, Julian Númi Bechtloff Heiðarsson og Adrían Uni Þorgilsson.

Helgina 10.-11. ágúst, hélt Hjólreiðadeild Vestra árlegt enduro og ungdúró mót sitt á Ísafirði. Að þessu sinni var mótið bæði stigamót í bikarkeppni Hjólreiðasambands Íslands sem og Íslandsmót. Á mótinu voru því krýndir Íslandsmeistarar í öllum aldursflokkum.

Keppendur Vestra stóðu sig með mikilli prýði á mótinu en alls voru 8 Vestra krakkar skráðir til leiks í ungdúró keppninni og 2 fullorðnir í enduro. Krakkarnir stóðu sig frábærlega og skiluðu sér í hús á hvorki meira né minna en þrír Íslandsmeistaratitlar! Greinilegt er að hjólaæfingar sumarsins undir stjórn Þorgils Óttars Erlingssonar þjálfara Vestra hafa skilað góðum árangri.

Adrían Uni Þorgilsson varð Íslandsmeistari í U-11 flokki drengja, Dagur Ingason í U-13 flokki drengja og Sara Matthildur Ívarsdóttir í U-13 flokki stúlkna. Fleiri Vestra krakkar komust á verðlaunapall því Julian Númi Bechtloff Heiðarsson vann til bronsverðlauna í U-11 drengja.

Í flokki U-15 drengja og stúlkna hömpuðu þau Ísak Hrafn Freysson, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur og Birta Mjöll Adolfsdóttir, Hjólreiðafélagi Vesturlands, Íslandsmeistaratitlum.

Enduro keppni fullorðinna

Fullorðnu keppendurnir hófu leik á laugardagsmorguninn og hjóluðu alls sex sérleiðir. Mesta athygli vakti fjórða sérleiðin sem var svokölluð „ofur-sérleið“ frá Buná niður í sjávarmál, alls 3,8 kílómetrar að lengd og með 484 metra lækkun.

Í A-flokki karla varð Jónas Stefánsson, Hjólreiðafélagi Akureyrar, Íslandsmeistari en á hæla hans komu Helgi Berg Friðþjófsson, Krummum BMX í öðru sæti, og Börkur Smári Kristinsson, Tindi í þriðja sæti. Í A-flokki kvenna varð Íslandsmeistari Dagbjört Ásta Jónsdóttir, í öðru sæti varð Rakel Logadóttir og í þriðja Þórdís Björk Georgsdóttir en allar eru þær í hjólreiðafélaginu Tindi.

Í mastersflokki karla (35 ára og eldri) sigraði Guðmundur Óli Gunnarsson, í öðru sæti var Jökull Guðmundsson og því þriðja Hróbjartur Sigurðsson, en allir eru þeir í Tindi. Í masters flokki kvenna sigraði Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir og í öðru sæti varð Sólveig Hauksdóttir en báðar eru þær í Tindi.

Í junior flokki karla varð Anton Sigurðsson, Brettafélagi Hafnarfjarðar Íslandsmeistari og í öðru sæti var Brynjar Logi Friðriksson, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.

Í rafhjólaflokki karla sigraði Magnús Kjartansson, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, í öðru sæti varð Eyjólfur Melsteð, Tindi og í þriðja sæti Helgi Hafsteinsson Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.

Deila