Helgina 10.-11. ágúst, hélt Hjólreiðadeild Vestra árlegt enduro og ungdúró mót sitt á Ísafirði. Að þessu sinni var mótið bæði stigamót í bikarkeppni Hjólreiðasambands Íslands sem og Íslandsmót. Á mótinu voru því krýndir Íslandsmeistarar í öllum aldursflokkum.
Keppendur Vestra stóðu sig með mikilli prýði á mótinu en alls voru 8 Vestra krakkar skráðir til leiks í ungdúró keppninni og 2 fullorðnir í enduro. Krakkarnir stóðu sig frábærlega og skiluðu sér í hús á hvorki meira né minna en þrír Íslandsmeistaratitlar! Greinilegt er að hjólaæfingar sumarsins undir stjórn Þorgils Óttars Erlingssonar þjálfara Vestra hafa skilað góðum árangri.
Adrían Uni Þorgilsson varð Íslandsmeistari í U-11 flokki drengja, Dagur Ingason í U-13 flokki drengja og Sara Matthildur Ívarsdóttir í U-13 flokki stúlkna. Fleiri Vestra krakkar komust á verðlaunapall því Julian Númi Bechtloff Heiðarsson vann til bronsverðlauna í U-11 drengja.
Í flokki U-15 drengja og stúlkna hömpuðu þau Ísak Hrafn Freysson, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur og Birta Mjöll Adolfsdóttir, Hjólreiðafélagi Vesturlands, Íslandsmeistaratitlum.
Enduro keppni fullorðinna
Fullorðnu keppendurnir hófu leik á laugardagsmorguninn og hjóluðu alls sex sérleiðir. Mesta athygli vakti fjórða sérleiðin sem var svokölluð „ofur-sérleið“ frá Buná niður í sjávarmál, alls 3,8 kílómetrar að lengd og með 484 metra lækkun.
Í A-flokki karla varð Jónas Stefánsson, Hjólreiðafélagi Akureyrar, Íslandsmeistari en á hæla hans komu Helgi Berg Friðþjófsson, Krummum BMX í öðru sæti, og Börkur Smári Kristinsson, Tindi í þriðja sæti. Í A-flokki kvenna varð Íslandsmeistari Dagbjört Ásta Jónsdóttir, í öðru sæti varð Rakel Logadóttir og í þriðja Þórdís Björk Georgsdóttir en allar eru þær í hjólreiðafélaginu Tindi.
Í mastersflokki karla (35 ára og eldri) sigraði Guðmundur Óli Gunnarsson, í öðru sæti var Jökull Guðmundsson og því þriðja Hróbjartur Sigurðsson, en allir eru þeir í Tindi. Í masters flokki kvenna sigraði Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir og í öðru sæti varð Sólveig Hauksdóttir en báðar eru þær í Tindi.
Í junior flokki karla varð Anton Sigurðsson, Brettafélagi Hafnarfjarðar Íslandsmeistari og í öðru sæti var Brynjar Logi Friðriksson, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.
Í rafhjólaflokki karla sigraði Magnús Kjartansson, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, í öðru sæti varð Eyjólfur Melsteð, Tindi og í þriðja sæti Helgi Hafsteinsson Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.
Deila