Fréttir

3. flokkur drengja gerir það gott!

Knattspyrna | 23.02.2009 Helgina 20.-22. febrúar tóku strákarnir í 3. flokki þátt í Greifamóti KA í knattspyrnuhöllinni Boganum á Akureyri. Sex lið voru skráð til leiks og voru því leiknir 5 leikir, 2x30 mínútur hver.
Lagt var í hann um kl. 8:30 á föstudagsmorgun og komið til Akureyrar átta tímum síðar eftir snjó- og krapabarning allt frá Ísafjarðardjúpi til Akureyrar. Það voru því þreyttir og stirðir strákar sem hófu leik aðeins klukkutíma eftir komu. Mótherjarnir voru strákarnir í Fjarðabyggð og fóru leikar svo að liðin sættust á jafntefli, 3-3, eftir allnokkrar smátognanir, krampa og stirðleikabyltur. Þá var strax ljóst að botninum var náð og ekki hægt að spila verr en í þessum leik.
Eftir nokkra hvíld mættu strákarnir b-liði Þórs frá Akureyri en Þórsarar hafa lengi verið þekktir fyrir öflugt starf í yngri flokkum. Kramparnir vildu ekki hverfa svo að erfiðið varð meira en nauðsynlegt var og varð niðurstaðan sú að annað jafntefli leit dagsins, nú 2-2. Var nú tekið til við nudd og misþyrmingar, náraæfingar og almennan dónaskap til að koma drengjunum í gírinn og voru menn orðnir afar brattir um kvöldið vissir um mikinn heiður handan nætur.
Rann þá laugardagurinn upp bjartur og fagur og voru því vonir um að sama ástand ríkti í huga drengjanna sem voru nú ákveðnir að láta fætur standa niður úr skálmum. Fyrri leikurinn þann daginn var við lið heimamanna í KA sem er nú stjórnað af fyrrum þjálfara okkar, Slobodan Milisic. Milo lét í sér heyra strax frá fyrstu mínútu en allt kom fyrir ekki, okkar menn voru miklu betri, réðu leiknum algerlega og óðu færin upp í klof. En það var sama hvaða tá snerti boltann, aldrei vildi hann inn í mark heimamanna. Þeir gerðust hins vegar svo djarfir og ógestrisnir að ná að pota boltanum inn úr hálf- eða jafnvel fjórðungsfærum, algerlega upp úr þurru og lokaniðurstaða varð því tap, 3-0. Gífurleg vonbrigði og blikuðu tár á hvarmi, aðallega þó nudd-, liðleika- og dansþjálfarans.
Nú voru menn brýndir í botn, tveir leikir eftir, þ.á.m. við líklegt sigurlið mótsins, Þór-1, tröllvaxna, fagurlimaða Glerárgaura sem gáfu ekkert eftir. En hugsum um einn leik í einu, fyrst þurfti að kljást við lið Hattar frá Egilstöðum. Voru menn þá farnir að venjast undirlaginu og öðrum aðstæðum svo að krampar voru hverfandi og ástand almennt nokkuð gott. Fundu þó flestir fyrir eymslum og sárindum hér og þar enda gífurleg átök í leikjum sem þessum, sífelldar hraða- og stefnubreytingar,endalaus hlaup á stórum vellinum og harðir árekstrar við andstæðingana. Leikurinn við Hött varð þó aldrei spennandi, okkar menn spiluðu eins og þeir sem valdið hafa og innbyrtu öruggan 6-0 sigur. Var nú farið að bera á samstöðunni og liðsheildinni sem einkenna gott knattspyrnulið.
Þegar sunnudagurinn rann upp, alltof snemma, var orðið ljóst að Boltafélagsdrengir höfðu úrslit mótsins í sínum höndum. Einn leikur var eftir, Þórsdrengirnir ógurlegu. Þeir höfðu gert jafntefli við KA, 1-1 og því urðu þeir að vinna okkur til að hampa sigurlaunum í mótslok. Þeim hefði örugglega ekki þótt ónýtt að klekkja þannig á nágrönnum sínum handan Glerár. Nú voru strákarnir okkar komnir á bragðið þeir hófu leikinn við Þór af krafti og gáfu aldrei eftir, héldu stöðunum vammlaust, klipptu á allar sóknaraðgerðir norðanmanna sem fóru brátt að ergja sig yfir ástandinu og "panikka". Strákarnir komust svo yfir með glæsilegu gegnumbroti hjá fyrirliðanum, Emil Pálssyni sem átti feiknafínan leik og lék Þórsara oft grátt. Þórsarar jöfnuðu metin úr vítaspyrnu sem þeir fiskuðu fagmannlega en þá tók BÍ öll völd á vellinum. Matthías Króknes Jóhannsson skoraði síðan glæsilegt mark eftir aukaspyrnu þar sem hann lyfti knettinum yfir markmann Þórs og í fjærhornið uppi. Tómas Helgi Svavarsson gulltryggði síðan sigurinn þegar hann fékk boltann inn í teiginn og hann negldi honum í netið eftir örlítinn umhugsunarfrest.
Niðurstaðan í mótinu varð því sú að KA-menn sigruðu, Þór-1 varð í örðu sæti og BÍ/UMFB í því þriðja. Var mál manna að við hefðu átt að vinna mótið með þeirri spilamennsku sem strákarnir sýndu í síðustu leikjunum en það er nú svo að ekki er á allt kosið í þessum málum frekar en öðru.

Við óskum strákunum kærlega til hamingju með árangurinn! Deila