Knattspyrna | 06.05.2011
Bolvíkingurinn Bjarni Pétur Jónsson er í fjölmiðlafræðinámi á Akureyri. Bjarni er bæði góður penni og fótboltamaður og mun í pistli sínum fræða oss almúgann um undirstöðuatriði í knattspyrnu og jafnframt eitt elsta bragðið í boltanum, hvar Sir Stanley Matthews, Ronaldinho og Andri Rúnar Bjarnason koma við sögu: Að rekja knöttinn. Við gefum Bjarna orðið.
"Við upphaf hvers tímabils er nauðsynlegt að fara vel yfir vopnabúrið.
Flestir sóknarmenn hafa yfir að ráða fjölbreyttum hreyfingum til að
blekkja varnarmenn. Yfirleitt eru þessar hreyfingar einfaldar. Það er
framkvæmd þeirra sem skilur hafrana frá sauðunum. Leikmenn sem búa yfir
mjög miklum hraða komast gjarnan upp með slaka framkvæmd. Hraðinn
minnkar hins vegar með árunum. Þá sést best hverjir hafa mestu
hæfileikana og hverjir framkvæma sínar hreyfingar best. Þetta á við um
Ryan Giggs. Þetta átti líka við Stanley Matthews. Hann lék meðal þeirra
bestu þar til hann varð fimmtugur. Giggs á því nokkur góð ár eftir.
Matthews
var nefndur mörgum nöfnum á sínum tíma, m.a. töframaðurinn og
galdragengillinn (the wizard of the dribble). Matthews er auk þess eini
knattspyrnumaðurinn sem hefur verið aðlaður á meðan hann var ennþá að
spila. Sir Stanley kynnti til sögunnar nýtt vopn. Þetta vopn þykir enn í
dag það áhrifamesta til að komast framhjá varnarmönnum. Þeir sem þekkja
ekki til þessa bragðs þurfa ekki að örvænta. Ég ætla að útskýra þetta
fyrirbæri sem gerði Matthews ódauðlegan.
Þessi hreyfing lætur
ekki mikið yfir sér í fyrstu. Lykillinn felst í þungaflutningi. Boltanum
er haldið við innanverðan fótinn þegar þungaflutningur hefst. Honum er
leikið til vinstri og þunginn fluttur djúpt niður í vinstri fótinn.
Þegar andstæðingurinn er kominn úr jafnvægi er honum leikið með snöggri
hreyfingu til baka. Lykillinn er að koma andstæðingnum úr jafnvægi með
færslu efri hluta líkamans til þeirrar hliðar sem boltanum er leikið
fyrst. Í nútímaknattspyrnu er hún yfirleitt notuð til að komast í
skotstöðu. Arjen Robben er öflugur sendiherra Matthews bragðsins.
Varnarmenn vita sem er að Robben ætlar að skjóta á markið með vinstri
fæti. Það er bara ekki nóg að vita af því.
Brasilíski
knattspyrnumaðurinn Ronaldinho kom með margar nýjungar enda nýjungagjarn
maður. Hvort sem það tengdist útliti eða knattspyrnu. Hann nýtti sér þá
tækni sem Matthews hafði kynnt til sögunnar og fullkomnaði nýtt bragð á
gömlum grunni. Hann fékk mikið að láni frá Matthews. Sir Stanley hefði
þó líklega verið í vandræðum með að fylgja eftir hreyfingum Ronaldinho.
Boltanum er leikið með utanverðum fæti til hliðar, þunginn færður í sömu
átt en einungis efri hluti líkamans. Nokkra leikni þarf til að ljúka
bragðinu. Boltinn fer í raun aldrei af ristinni. Honum er leikið örlítið
til hliðar með utanverðri ristinni og tilbaka aftur í sömu hreyfingu.
Áhugasömum er bent á antílópu BÍ/Bolungarvíkur, Andra Rúnar Bjarnason
til frekari glöggvunar á framkvæmdinni. Að lokum legg ég til að þeir leikmenn BÍ/Bolungarvíkur sem skori eftir að hafa framkvæmd Matthews finntuna frægu verði aðlaðir."