Knattspyrna | 20.07.2010
BÍ/Bolungarvík hefur styrkt sig um þrjá leikmenn frá því að félagsaskiptaglugginn opnaði þann 15. júlí síðastliðinn. Fyrst kom Andri Sigurjónsson á láni frá Stjörnunni. Andri sem er varnar og miðjumaður lék tíu leiki með Stjörnunni í fyrra í deild og bikar og skoraði eitt mark. Í janúar fór Andri til þýska félagsins SV Straelen á láni og hann lék þar fram á vor. Hann er 20 ára gamall og á að baki sex leiki með U17 ára landsliðinu. Andri var í leikmannahóp liðsins á móti Víking Ólafsvík en kom ekki við sögu í þeim leik. Hann byrjaði hinsvegar leikinn á móti ÍH og spilaði fyrsta klukkutímann og þótti standi standa sig vel.
Framherjinn Jónmundur Grétarsson kom síðan til liðsins á föstudaginn á láni frá Haukum. Jónmundur, sem er 24 ára, hefur leikið fjóra leiki með Haukum í Pepsi-deildinni í sumar. Jónmundur lék áður með Stjörnunni en hann hefur síðastliðinn tvö ár verið í Haukum. Jónmundur kom inn á síðasta hálftímann á móti ÍH en á þeim kafla skoraði liðið einmitt þrjú mörk og unnu leikinn þrátt fyrir að hafa lent undir.
Þá fékk Bí/Bolungarvík einnig Tómas Emil Guðmundsson frá Gróttu en hann lék með liðinu á árum áður.
Von er á fréttum um síðustu tvo leiki liðsins seinna í dag. Beðist er velvirðingar á töfum vegna vinnslu fréttanna. Ástæðan er gífurlegt tölvuvesen síðuhaldara sem ætti að vera komið í lag seinna í dag.
Deila