Fréttir

Atli Guðjónsson með sigurmark gegn Þrótti

Knattspyrna | 28.08.2011

BÍ/Bolungarvík 1-2 Þróttur
0-1 Sveinbjörn Jónasson (´9)
1-1 Kevin Brown (´45)
2-1 Atli Guðjónsson (´58)

BÍ/Bolungarvík og Þróttur höfðu mæst tvisvar áður í sumar fyrir leikinn í dag, einu sinni í deild og einu sinni í bikar.

Þróttarar voru slegnir út í 8-liða úrslitum af BÍ/Bolungarvík en liðin skyldu jöfn þegar Vestfirðingarnir komu í heimsókn í Laugardalinn. Bæði lið eygðu von um að vinna sér sæti í efstu deild en ekki mátti þó mikið út af bregða og því ljóst að bæði lið myndu selja sig dýrt. Það voru þó gestirnir sem mættu miklu ákveðnari til leiks og tóku stjórnina frá byrjun.

Á 9.mínútu slapp Sveinbjörn Jónasson innfyrir vörn heimamann eftir hræðileg mistök Loic Ondo og renndi boltanum örugglega í netið, Þróttarar því komnir með verðskuldaða forystu. Á 24.mínútu skoruðu Þróttarar aftur, þá kom löng sending af vinstri kanti yfir varnarmenn BÍ/Bolungarvíkur og beint á Sveinbjörn sem kom boltanum framhjá Þórði í markinu en línuvörðurinn flaggaði hann rangstæðan og markið því ekki gilt.

Eftir um hálftíma fengu Þróttarar hornspyrnu sem þeir spiluðu stutt úr eins og svo oft í leiknum. Létu þeir boltann ganga á Halldór Arnar Hilmisson sem beið fyrir utan vítateiginn en skot hans fór rétt yfir.

Á lokamínútu hálfleiksins fengu heimamenn hornspyrnu. Eftir hana barst boltinn á fjærstöngina beint á kollinn á Tomi Ameobi sem skallaði boltann aftur fyrir markið þar sem Kevin Brown afgreiddi hann í netið af stuttu færi. Skömmu eftir markið flautaði Gunnar Jarl til leikhlés og Þróttarar örugglega svekktir enda búnir að vera miklu sterkari og hættulegri í fyrri hálfleik.

Heimamenn fengu greinilega harorðan fyrirlestur í hálfleik því að allt annað lið mætti til leiks í seinni hálfleik. Bæði hafði Guðjón Þórðarsaon gert breytingu á sínu liði og sett Andra Rúnar Bjarnason inn á í stað Sigþórs Snorrasonar og einnig virtust leikmenn hans hafa tekið sig saman í andlitinu því þeir voru miklu ákveðnari en þeir höfðu verið. Við skiptinguna breytti Guðjón um leikskipulag og spilaði með þrjá miðverði eins og hann gerir svo gjarnan.

Á 51.mínútu barst boltinn fyrir mark heimamanna og Hjörvar Hermannson afgreiddi hann í netið af stuttu færi en aftur flaggaði línuvörðurinn rangstæðu.

Á 58.mínútu fékk BÍ/Bolungarvík hornspyrnu. Nicky Deverdics spyrnti þá boltanum inn í teig þar sem Atli Guðjónsson stökk manna hæst og skallaði boltanum glæsilega í fjærhornið. 10 mínútum seinna voru heimamenn nálægt því að auka forystu sína. Sölvi Gylfi Gylfason átti þá glæsilegan sprett upp hægri vænginn og var kominn inn í teig þegar hann lét vaða á markið en skot hans hafnaði í stönginni. Þaðan barst boltinn til Andra Rúnars sem virtist ekki eiga von á honum og náði ekki að stýra honum í netið.

Þegar 20 mínútur voru eftir fengu Þróttarar sitt besta færi. Þá skeiðaði Oddur Björnsson framhjá varnarmanni heimamanna og sendi fyrir á Halldór Arnar en Sölvi Gylfi kastaði sér fyrir skot hans. Eftir það féll boltinn fyrir fætur Hjörvars Hermannssonar sem hitti boltann illa og boltinn lak framhjá markstönginni.

Þróttarar settu allt afl í sóknarleikinn undir lokin en því miður fyrir þá höfðu þeir bláklæddu skellt í lás. Það eru því BÍ/Bolungarvík sem eru ennþá í séns á 2.sætinu en vonir Þróttara fóru úr litlum í engar. Hjá Þrótturum voru þeir Halldór Arnar og Sveinbjörn skeinuhættastir en hjá BÍ/Bolungarvík var Sölvi Gylfi Gylfason sprækur. Maður leiksins var þó Þórður Ingason sem greip oft frábærlega inn í og hélt liðinu á floti löngum stundum í fyrri hálfleik.

- Gunnlagur Jónasson -

Deila