BÍ/Bolungarvík - Völsungur
Lau. 1.maí kl.12:30
Gervigrasinu í Laugardal
Undanúrslit Lengjubikar B-deild
BÍ/Bolungarvík tók á móti Völsungi í undanúrslitum B-deildar Lengjubikarsins á Gervigrasvellinum í Laugardal í dag kl.12:30. Veðuraðstæður voru nokkuð góðar, glampandi sól með smá norðanátt. Okkar menn voru fullir sjálfstraust eftir að hafa farið ósigraðir í gegnum sinn riðil í Lengjubikarnum en Völsungur töpuðu á móti Dalvík/Reynir í sínum riðli. Milan Krivokapic hóf leik á miðjunni eftir að hafa komið til landsins á fimmtudaginn. Sást hann spóka sig um í Smáralind á föstudaginn með Goran Vujic og unnustu hans.
Byrjunarliðið var þannig
Á varamannabekknum sátu Addi, Ásgeir, Sigþór, Pétur Run, Hjörvar og Þorgeir. Óttar Kristinn var ekki með vegna meiðsla sem hafa verið að hrjá hann upp á síðkastið. Dalibor Nedic er einnig væntanlegur til landsins fyrir mót en hann spilar í stöðu miðvarðar.
Völsungur hófu leikinn af miklum krafti en BÍ/Bol biðu rólegir og það var strax á 2.mínútu þar sem Matti átti háa stungusendingu inn á Andra sem komst í skotfæri en á lélegt skot framhjá markinu. Stuttu seinna fellur Gulli innan teigs og eftir leikinn fullyrti sóknarbakvörðurinn að hann hafi verið rændur víti af dómara leiksins. En okkar menn komu sér hægt og rólega inn í leikinn þegar leið á, Emil Páls stjórnaði leiknum af miðjunni eins og honum einum er lagið.
Á 20.mínútu fær Pétur skotfæri inn í teig þar sem Gulli og Emil spiluðu vel saman upp kantin en varnarmaður Völsungs komst fyrir skot Péturs. Stuttu seinna hreinsar Gulli úr vörninni(þetta var ekki sending) og inn fyrir vörn Völsungs þar sem Pétur Geir stingur alla varnamenn Völsungs af en skýtur beint á markmannin sem var kominn út á móti honum.
Það sem eftir lifði hálfleiksins vorum við mikið mun betri og beittari fram á við. Völsungur reyndu að byggja upp sóknir en það verður að segjast eins og er að þeir eru ekki nægilega sterkir fram á við því það reyndi ekkert á Robba í fyrri hálfleik. Við áttum mörg hálffæri og oft var það þannig að aðeins vantaði upp seinustu sendingu til að skapa dauðafæri. Milan Krivokapic átti erfitt með að koma sér inn í leikinn en bætti það upp með baráttu, 0-0 í hálfleik.
BÍ/Bolungarvík héldur uppteknum hætti í seinni hálfleik og héldu áfram að skapa sér fullt af sénsum á meðan Völsungur sótti lítið og átti erfitt með að halda boltanum innan liðsins. Pétur Geir átti fínt færi á 47.mínútu og Andri langskot sem fór yfir. Á 57.mínútu kemur Pétur Geir útaf fyrir Haffa. Haffi fer í bakvörð, Alli fremstur og Sigurgeir í miðvörð. Eftir þessa skiptingu fórum við að liggja í færum enda öðruvísi ógnun kominn í framlínuna með Alla þar sem hann tapar ekki einvígi í loftinu. Um miðjan seinni hálfleikinn datt þetta aðeins niður þangað til við gerðum breytingar. Pétur Run og Sigþór komu inn fyrir Gunnar Má og Guðna. Pétur, Emil og Milan áttu miðjuna það sem eftir lifði leiks og við klaufar að vera ekki búnir að skora 3-4 mörk. Á 80.mínútu fær Alli sendingu og gefur hann um leið með hælnum til hliðar og opnar skotfæri fyrir Milan á vítateigslínunni. Boltinn hafnar í stönginni og markvörður Völsungs langt frá því að verja skotið. Alli, Milan og Andir fá síðan allir ákjósanleg færi. Á 87.mínútu skallar Alli í slá eftir hornspyrnu frá Emil(Mynd 2). 0-0 eftir venjulegan leiktíma.
Í framlengingunni áttum við fín færi til að komast yfir þar sem Alli, Andri og Pétur Run áttu allir fínar tilraunir. Alli fer útaf fyrir Adda rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Andri er settur fram og Addi á kantin. Eftir þetta áttu Völsungur auðveldara með að eiga við sóknir okkar og biðu þeir átekta eftir sínu fyrsta færi í leiknum. Það kom síðan í seinni hálfleik framlengingar þegar boltinn kemur fyrir markið, þeir ná að pota honum tvisvar áfram þar sem einn þeirra er óvaldaður og kemur boltanum í markið. Gífurlega svekkjandi og ósanngjarnt en marktilraunir vinna ekki leikina, heldur mörkin. 0-1 tap staðreynd.
Þegar á heildina er litið var þetta mjög góður leikur af okkar hálfu. Liðið skapaði sér fullt af færum og fengum varla á okkur færi fyrstu 90.mínúturnar. Markaleysið skrifast alfarið á klaufaskap og einbeitningu í framlínunni. Það var ekki Völsungur sem var fyrirstaða í dag, heldur menn sjálfir. Þetta tap á eftir að koma okkur mönnum niður á jörðina eftir mjög gott gengi í riðlinum og verður vonandi til þess að menn koma dýrvitlausir í fyrsta leik á Íslandsmótinu.
Vegna tæknilegra örðugleika er ekki hægt að birta video viðtal sem tekið var upp eftir leik dagsins. Búið er að setja inn myndir úr leiknum í myndaalbúm.
Deila