Fótboltinn er heldur betur farinn að rúlla af stað og hefur verið mikið að gera síðustu vikur hjá krökkunum í boltanum. Eldri flokkar frá 5.fl og upp í 2.fl hafa verið á fullu á Íslandsmótinum. Íslandsmótið heldur áfram út allt sumarið.
Í fyrsta skiptið í langan tíma er 2.fl stúlkna á Íslandsmóti og eru það frábærar fréttir. Þær hafa spilað 4 leiki í sumar og hefur verið mikill stígandi í leik stelpnanna. Er það von okkar að þetta ár sé góð æfing og fyrirboði fyrir stofnun meistaraflokks á næsta ári.
Einnig hefur verið mikið að gera í yngstu flokkunum og mikil aukning orðið á æfingum hjá félaginu og þá sérstaklega í yngsta flokknum 8.fl og einnig mikil aukning hjá stelpunum í 7.fl og 6.fl.
7.fl drengja fór með stóran hóp á Norðurálsmótið á Akranesi helgina 23.-24.júní. Fyrsta daginn fengu þau leiðinda veður í rigningu og roki en það batnaði mikið næstu daga. Norðurálsmótið er stærsta mót fyrir þennan aldursflokk á landinu og fara krakkarnir héðan með foreldrum sínum sem núna voru að mestu á tjaldsvæðinu í góðri stemningu. Strákarnir stóðu sig svo sannarlega frábærlega og spiluðu oft á tíðum mjög góðan bolta. Leikgleðin skein af þeim og skemmtu þeir sér alveg konunglega.
6.fl drengja fór svo um nýliðna helgi á Orkumótið í Vestmannaeyjum með flottan hóp iðkenda, foreldra og fararstjóra. Tvö lið kepptu á mótinu sem spilað er í 3 daga. Orkumótið er eitt allra stærst mót sem haldið er á landinu og er það ávallt fullskipað. Fjölmennustu liðin senda einungis eldra árið í 6.flokk á mótið. Lið Vestra voru skipuð bæði eldra og yngra ári. Það virtist ekki koma að sök og börðust strákarnir eins og ljón og voru sér og sýnum til mikils sóma. Liðin stóðu sig vonum framar og voru fræknir sigrar unnir á mótinu. Annað liðið keppt úrslitaleik um einn af bikurum mótsins en tapaði naumlega á síðustu sekúndum leiksins. Orkumótið í Vestmannaeyjum er mikil upplifun fyrir þessa ungu drengi og lifa þeir á þessum minningum lengi.
Í júlí heldur svo gleðin áfram með leikjum í Íslandsmótum, N1 mót á Akureyri fyrir 5.fl kk og Símamótið í Kópavogi sem er stóra stelpumótið á landinu og fer Vestri með lið í 7.fl, 6.fl og 5.fl.
Deila