Knattspyrna | 24.07.2010
Þá er komið að því: Maron og Valtýr eru búnir að vera í allan dag að vökva drulluvellina og nú loks er þetta að verða fýsilegt. Það þurfti reyndar 100 tonn af vatni auk stanslausrar vökvunar í alla nótt, til að vellirnir yrðu sæmilega blautir. Ekki hjálpar þurrkurinn heldur til. Húrra fyrir Maron og Valtý! Þetta byrjar allt saman kl. 11:00 en búist er við að leikskipulag riðlist eitthvað þar sem annar völlurinn (völlur 2) er frekar þurr og gæti því ekki verið leikhæfur. Samt gæti farið svo að 7. flokkur spili sína leiki þar enda ekki fyrir alla að plampa í drullunni á velli 1. Þið getið því búist við því að við þurfum að spila þetta svolítið af fingrum fram á morgun en samt er búist við að þetta verði búið um kl. 14:00. Munið að hafa rétta fatnaðinn með, þetta er ekki staður fyrir smóking eða jóladress og skórnir þurfa að vera þannig að þeirra væri lítt saknað ef þeir hyrfu í drulluna. Gott er að teipa eða binda skó fasta við púkann svo að hann haldi skóbúnaðinum óskertum meðan á leik stendur. Volgt vatn verður til staðar í körum og mjólkurbíl svo að hægt er að skola af sér en munið að önnur búningsaðstaða er engin svo að koma verður mannskapnum heim eða á næsta bað-/sundstað með einhverjum snjöllum úrræðum (plastpokar á sætin, utanyfirgalli yfir drullugallann eða eitthvað annað verulegt snjallt sem ykkur dettur í hug).
Góða skemmtun (veðurspáin er frábær svo að þetta gæti orðið gott).
Deila