Síðast þegar 1.deildar leikur í knattspyrnu átti sér stað á Torfnesvelli var Justin Bieber ekki fæddur og Ómar Ragnarsson var ennþá með hár. Þann 18.september 1993 öttu BÍ88 kappi við ÍR þar sem markamaskínan Jóhann Ævarsson tryggði heimamönnum 1-0 sigur. Það var því við hæfi að BÍ/Bolungarvík skyldi mæta ÍR í fyrsta heimaleik sínum í 1.deildinni í ár. Nóg hefur verið fjallað um mannabreytingar innan og utan vallar í fjölmiðlum í vetur og óhætt að segja að mikill spenningur hafi verið hjá leikmönnum og aðdáendum liðsins þegar flautað var til leiks.
Heimamenn tóku völdin í leiknum alveg frá fyrstu mínútu og stjórnuðu hraðanum frá byrjun. Þrátt fyrir að halda boltanum og spila honum vel gekk erfiðlega að skapa sér afgerandi færi. Leikskipulag gestanna var augljóst, liggja til baka og treysta á fljóta sóknarmenn sína. Framan af gekk herbragð ÍR-inga mun betur og sköpuðu þeir sér talsvert hættulegri færi en gestgjafarnir. Eftir um 15 mínútna leik fékk Tomi Ameobi sendingu innfyrir vörn gestanna og skorar en rangstaða réttilega dæmd og markið stóð því ekki. Í kjölfarið á því spila ÍR-ingar boltanum upp í hægra hornið á hinn skruggufljóta Brynjar Benediktsson. Loic Mbang Ondo, þótt fljótur sé, átti ekkert í Brynjar á sprettinum og hann nær góðu skoti á markið sem lekur klaufalega undir hendurnar á Þórði Ingasyni í markinu og rúllar í hornið fjær. Gestirnir komnir yfir þrátt fyrir að hafa lítið séð af boltanum það sem af er. Undir lok fyrri hálfleiks sleppur Ameobi einn innfyrir og er kominn alveg upp að vítateigslínu þegar hann er klipptur niður aftanfrá af einum varnarmanni ÍR-inga. Aukaspyrna er dæmd og eftir að ráðfæra sig við aðstoðardómarann ákveður dómari leiksins aðeins að lyfta gula spjaldinu og mega gestirnir prísa sig sæla að liturinn hafi ekki verið annar. Úr aukaspyrnunni nær Nicky Deverdics góðu skoti sem markvörður gestanna ver vel alveg uppi í samskeytunum.
Seinni hálfleikurinn var sami grautur í sömu skál. Heimamenn með boltann nánast allan tímann en Breiðhyltingar þjöppuðu í vörn og treystu á skyndisóknir. Í einni slíkri sleppa þrír sóknarmenn þeirra innfyrir á móti einum varnarmanni eftir að Ondo missti boltann klaufalega á miðjum vellinum. Ekki var þeim þó kápan úr því klæðinu því Þórður varði frábærlega með góðu úthlaupi. Eftir um klukkutíma leik fær BÍ/Bolungarvík hornspyrnu. Colin Marshall sendir boltann beint á kollinn á Hr.Bolungarvík, Gunnari Má Elíassyni, á nærstönginni sem fleytir honum áfram á Tomi Ameobi sem er algjörlega óvaldaður á fjærstönginni og á ekki í nokkrum vandræðum með að afgreiða knöttinn í netið. Staðan því orðin jöfn. Heimamenn létu ekki þar við sitja og héldu áfram að sækja af krafti. Þegar rétt um fimm mínútur eru eftir stingur Gunnar Már knettinum innfyrir á Andra Rúnar Bjarnason sem rennir honum svo fyrir markið á Jónmund Grétarsson sem stendur aleinn fyrir opnu marki en sópar knettinum yfir eins og honum einum er lagið. Jónmundi til varnar verður þó að taka fram að boltinn skoppaði vægast sagt óheppilega rétt fyrir framan hann. Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma fær leikmaður ÍR boltann úti á hægri kanti og reynir fyrirgjöf en þrumar boltanum beint í andlitið á Nicky Deverdics af stuttu færi. Á einhvern óskiljanlegan hátt ákveður dómari leiksins að dæma vítaspyrnu og gefur hann lítið fyrir mótmæli leikmanna og áhorfenda og sér enga þörf á því að ráðfæra sig við aðstoðardómarann í þetta skiptið. Axel Kári Vignisson skoraði örugglega úr vítinu og heimamenn ná varla að hefja næstu sókn áður en leikurinn er flautaður af.
Þrátt fyrir að bera nafn erkifjenda ÍR-inga úr Breiðholtinu var engin fjandsemi í þeirra garð hjá Leikni Ágústssyni dómara leiksins og gjafmildi hans á lokaandartökum leiksins var það sem réði úrslitum í þessum leik. Það er þó margt jákvætt hægt að taka úr þessum leik. Liðið spilaði boltanum vel og átti miklu meira skilið úr leiknum en gestirnir. Nýju mennirnir spiluðu flestir vel og eiga bara eftir að verða betri þegar þeir verða komnir betur inní skipulag liðsins. Vinstri bakvörðurinn Kevin Brown hafði hægt um sig í fyrri hálfleik en kom sterkur inn í þann seinni og var mjög ógnandi. Colin Marshall stýrði spilinu vel á miðjunni ásamt Nicky og Gunnari Má. Maður leiksins var þó án efa Tomi Ameobi sem er ekkert minna en naut í takkaskóm. Hann tapaði ekki skallabolta og er undirritaður tilbúinn að éta hattinn sinn ef hann tapar einum slíkum í sumar. Þegar leið á leikinn voru skallaeinvíginn farin að verða of auðveld og tók hann boltann þá bara niður á kassann með þrjá menn í bakinu. Öll athygli ÍR varnarinnar beindist að honum og er það eitthvað sem við hefðum kannski mátt nýta okkur betur. Það þýðir þó ekki að gráta Björn bónda því sumarið er langt og margir leikir eftir. Ef liðið heldur áfram að spila eins og það gerði í þessum leik eru bara bjartir tímar framundan.
Leikskýrsla: BÍ/Bolungarvík - ÍR
Frétt RÚV um leikinn og atvikið í lok leiksins.
Gunnlaugur Jónasson