Fréttir

Fótboltamótin í vetur

Knattspyrna | 26.04.2017

Fótboltakrakkarnir hafa í vetur farið á hin ýmsu mót. 7.fl fór í janúar á mót í Keflavík og 6.fl fór um síðustu helgi á TM mót Stjörnunar. Stærstu mótin sem farið er á eru á Akureyri, en þar fara krakkarnir á Goðamót Þórs og Stefnumót KA. Löng hefð er fyrir því að flokkar frá Vestra fari á þessi mót. Mótin eru vel skipulögð og alltaf gaman að fara norður. Undanfarin ár hafa 5.flokkur og upp í 3.flokk farið á mótin en nú fór einnig 6.flokkur drengja. Óvenju góð tíð hefur verið í vetur og var færð og veður í flestum tilfellum mjög gott til ferðalaga og er óneitanlega þægilegra að ferðast um með krakkana vitandi af því.  Krakkarnir stóðu sig frábærlega, allir gerðu sitt allra besta og var framkoma okkar keppenda í alla staði til fyrirmyndar. Krakkarnir komu glaðir heim eftir að hafa verið í frábærum höndum þjálfara og fararstjóra.
Eins og áður taka þjálfarar eftir því hversu óvanir krakkarnir eru að spila á gervigrasi á stórum völlum eftir að hafa æft á parketi allan veturinn. Mótin eru því mjög mikilvæg æfing, bæði til að komast af parketinu og einnig til að sjá hvernig við stöndum gagnvart öðrum. Það er engin launung að mikill munur er á aðstöðu liða yfir veturinn og sést
að klárlega á þessum vetrarmótum. Það er einnig áberandi í vorleikjum okkar að aðrir hafa æft við toppaðstæður og einnig búnir að spila mun fleiri leiki yfir veturinn. Þróun knattspyrnunnar er hröð og mörg knattspyrnulið og eitarfélög eru nú að skoða að reisa fjölnota íþróttahús með gervigrasi. Til að vera samkeppnishæf telja þjálfarar og stjórn Vestra í knattspyrnu það mjög mikilvægt fyrir knattspyrnuiðkendur hér á svæðinu að hér rísi hús sem býður uppá að hægt sé að æfa á gervirgrasi allan ársins hring í öllum veðrum sem er. Enn eru einhveræfingamót eftir áður en sumarvertíðin hefst og er t.d. 7.fl drengja að fara á mót í byrjun maí. Sumarvertíðin fer svo að byrja með trukki í lok maí þegar fyrstu leikir í Íslandsmóti byrja.  Í byrjun maí gefum við út lokaplan fyrir sumarvertíðina og mót sem allir flokkar stefna á að fara á.

Deila