Þann 9. júlí héldu Vestra strákar fæddir 2003, 2004 og 2005 til Finnland á Helsinki cup. Þá höfðu strákarnir lagt mikið á sig til að safna fyrir ferðinni í rúmt ár. Það var mikil eftirvænting þegar haldið var út á Keflavíkurflugvöll kl. 4:30 þann 9. júlí. Þegar komið var til Helsinki var haldið á hótelið sem strákarnir gistu á. Farið í mat og síðan var farið að hvíla sig fyrir fyrsta mótsdaginn sem var mánudagur 10. júlí.
Það voru 20 strákar sem fóru frá Vestra en strákarnir koma frá Ísafirði, Bolungarvík, Hólmavík og Súðavík. Vestri var með 2 lið á mótinu B14 sem var 11 manna lið og B13 sem tók þátt í 8 manna bolta.
Fyrsta dag átti B14 tvo leiki og B13 einn leik. B14 byrjaði daginn snemma eða um 5:50 á íslenskum tíma en það hafið ekki áhrif á strákana sem hófu leik á góðum 3-1 sigri á liði frá Helsinki og vann síðan seinni leik dagsins 6-0. B13 tapaði sínum fyrsta leik 5-1.
Á degi 2 spiluðu bæði lið 2 leiki B13 var áfram í vandræðum enda voru þeir að spila við mjðg sterka andstæðinga. Báðir leikir dagsins töpuðust. B14 byrjaði á 2-0 tapi fyrir liði frá Eistlandi en vann seinni leik dagsins 1-0 í miklum baráttuleik í ausandi rigningu með tilheyrandi pollum um allan völl. Miðvikudagurinn var síðasti dagur í riðlakeppni og þá spilaði B13 tvo leiki en B14 einn leik. B13 tapaði fyrri leik dagsins en vann síðan góðan 3-1 sigur í síðasta leik í riðlinum.
B14 vann sinn leik sannfærandi 4-0. B14 endaði í 2. sæti í sínum riðli og fór því í A-úrslit á mótinu en þangað komust 32 efstu liðin af um 80 liðum. Þar mætti liðið gríðarsterku liði frá Eistlandi FC Nömme United og tapaði 2-0 þrátt fyrir að hafa átt mjög góðan leik en Nömme endaði í 3. sæti í mótinu.
B13 var í 5. sæti í sínum riðli og fór því í C-úrslit þar unnu þeir sinn leik nokkuð auðveldlega 4-1. Bæði lið luku því formlega keppni á fimmtudeginum og föstudagurinn þvi notaður í að heimsækja skemmtigarðinn Linnanmaki. Þar áttu strákarnir skemmtilegan dag í alls konar tækjum. Við enduðum svo daginn á æfingaleik við Stjörnuna-II sem var með 3 lið á mótinu í B14. Sá leikur vannst 2-1.
Á laugardeginum var farið á ströndina og í bæjarferð.
Síðan var sunnudagur notaður til að pakka niður og halda heim til Íslands. Strákarnir stóðu sig frábærlega í þessari ferð og voru til fyrirmyndar hvar sem þeir komu. Árangurinn var góður sem gerði skemmtilega ferð enn betri. Strákarnir eru þakklátir öllum þeim sem styrktu þá og munu eiga góðar minningar frá ferðinni alla ævi.
Deila