Bibol.is tók tal á fyrirliðanum og sameiningartákninu honum Gunnari Má Elíassyni. Herra Bolungarvík eða Wonderboy eins og hann er oft kallaður tók sér tíma frá því að slá albatrossa á golfvellinum og svaraði nokkrum spurningum um það sem af er tímabilinu.
Hvernig er formið á wonderboy í dag?
Formið á mér er allt í lagi, en greinilega ekki nógu gott þar sem ég er að meiðast eins og fífl.
Nú hefur þín verið sárt saknað í síðustu tveimur leikjum. Eru meiðslin alvarleg?
Þetta er smávæginleg nárameiðsli, veit ekki alveg hvað er langt í mig, held að ég fari að detta inn bráðlega.
Hvernig finnst þér leikmannahópurinn og hverjir eru hans helstu styrkleikar?
Mér finnst leikmannahópurinn vera flottur og mér finnst hann vera að slípast betur saman svona eftir nokkra leiki. Það er meiri breidd í liðinu en hefur verið síðustu ár og þar af leiðandi meiri samkeppni sem er gott. Ef við vinnum sem lið þá getum við klárað hvaða lið sem er á góðum degi, því við höfum sýnt að við getum verið ansi beittir fram á við og svo getum við líka varist mjög vel eins og við sýndum í síðasta leik. Svo er auðvita mjög gott fyrir okkur að hafa fengið leikmenn sem hafa spilað á hærra leveli en við þar sem fáir hjá okkur hafa spilaði í 1.deildinni áður. Reynslan telur alltaf.
Hvað finnst þér um gengi liðsins hingað til? (6 leikir, 9 stig, 7. Sæti)
Það er svosem allt í lagi, fínt að vinna annanhvern leik en ég er nú ekki ánægður að við töpum öðrum hverjum leik svo ég hefði viljað vera kominn með fleiri stig. Maður vill allraf meira.
Nú sást þú leikinn á móti ÍA, hvað fór úrskeiðis í þeim leik?
Í fyrri hálfleik fannst mér við nú alls ekki lakari aðilinn og að fara 2-0 undir inn í hálfleik var ansi súrt. Í seinni hálfleik byrjuðum við bara ekki nægilega vel og skoruðu þeir tvö mörk strax í upphafi, þar með fannst mér okkar menn kannski missa aðeins trúna og sjálfstaust á að halda boltanum og Skaginn nýtti sér það. Annars var þetta svolítið að detta með Skaganum í þessum leik og þetta mun ekki koma fyrir aftur
Hvaða möguleika telur þú að liðið eigi gegn Breiðablik í 16-liða úrslitum í bikarkeppninni?
Ég tel okkur eiga ágætis séns. Þeir þurfa jú að kíkja Vestur og það eigum við að nýta okkur. Ef við hittum á góðan leik þá held ég að við getum gert eitthvað, gengi þeirra er líka búið að vera upp og niður í sumar og pressan er á þeim. Svo er þetta bikarinn og einhver sagði mér að allt gæti gerst þar. Það væri gaman að geta komist í gegnum 16-liða úrstlitin í ár. En þeir eru reyndar Íslandsmeistarar svo við þurfum að vera tilbúnir og rúmlega það ef við ætlum að komast áfram.
Eitthvað að lokum?
Vona að fólk verði áfram duglegt að kíkja á völlinn, því fleiri sem mæta því sterkari heimavöllur.
Áfram BÍ/Bolungarvík