Bolvíkingurinn Birgir Olgeirsson tók sig til og sendi okkur skemmtilegan pistil um fyrirliða liðsins og Herra Bolungarvík sjálfan, Gunnar Má Elíasson:
UndraMár
Mig langar að segja ykkur frá einum manni. Þessi maður telst til betri vina minna. Hann er Bolvíkingur í húð og hár og þekktur fyrir sín þrumuskot. Hann hefur verið kjörinn íþróttamaður ársins í Bolungarvík, bara þó einu sinni og var það fyrir golf. Hann leikur með BÍ/Bolungarvík og heitir Gunnar Már Elíasson, betur þekktur sem „Wonderboy".
Mig langar að gerast svo djarfur og eigna mér nafnið „Wonderboy", það er að ég hafi byrjað að kalla Gunnar Má Wonderboy. Af hverju fékk Gunnar Már nafnið „Wonderboy"? Það er nokkuð einfalt, drengurinn er undraverður í öllum þeim íþróttum sem hann tekur sér fyrir hendur.
Ég hef fylgst með þessum dreng vaxa úr grasi og verða að manni, það hefur verið fallegt áhorf. Ég var nú aldrei bestur í fótbolta þegar ég var yngri, ég var kannski meira svona verstur. Þó tókst mér einu sinni að vinna mér inn framfarabikar fyrir einn mánuð sumarið 1994. Ég bætti mig kannski ekkert sérstaklega mikið inn á vellinum og spilaði þar inn í að ég tók þátt í Lýðveldishlaupi Íslendinga á fimmtíu ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar og tók þjálfarinn eftir því, sem og að ég grobbaði mig af því að hafa haldið boltanum sex sinnum á lofti(einn heima og engin vitni).
En með framfarabikarinn að vopni taldi ég mér allar leiðir færar. Þangað til að Gunnar Már, litli pjakkurinn, mætti á æfingu. Hann sólaði framfaradrenginn sundur og saman á æfingunni og hugsaði ég með mér hversu mikið efni þessi drengur væri fyrst að hann gat sólað mig, framfarapiltinn, svona oft.
Árin líða og ávallt heyrir maður hetjusögur af byssureyknum Gunnari Má. Það má þó segja að árið 2005 marki tímamót í sambandi mínu við Gunnar Má. Þá hafði hann tíma til að leika golf og spila með fótbolta. Það var ekki að sökum að spyrja. Drengurinn var bestur, bæði í fótbolta og golfi. Það má segja að hann leiki golf eins og hann leikur fótbolta, með skilningarvitunum. Gunnar Már er kannski ekki „tekníkasti" leikmaðurinn á knattspyrnuvellinum, en það bætir hann upp með einstakri útsjónarsemi og þessu ómennska „tötsi" sem hann hefur.
Sama er hægt að segja um golfið hjá drengnum. Gunnar þarf til dæmis ekki fjarlægðarmæla á golfvellinum. Margir notast við hundrað og hundrað og fimmtíu metra hæla til þess að vita hvað þeir eru langt frá. Ekki Gunnar Már, hann veit hversu langt hann er frá holunni bara með því að skynja það. Hann stóð eitt sinn 160 metra frá holu með sandjárn. Hann var spurður hvort hann væri viss með þetta kylfuval. Gunnar svaraði með höggi tveimur metrum frá holu. Svo ekki sé minnst á að hann fór holu í höggi á par fjögur braut.
Á þessum tímapunkti voru menn farnir að klóra sér í höfðinu. Hvernig getur einn maður skarað fram úr á svo mörgum sviðum? Gunnar vann allt. Hann fór í billiard, vann! Hann fór í keilu um daginn, skildi ekki eftir eina keilu og bara upp á gamanið kastaði hann einu sinni með vinstri og einu sinni í gegnum klofið, því hann gat ekki klikkað.
Hvað er hann? Svarið er einfalt. Hann er „Wonderboy".
Birgir Olgeirsson