ÍH - BÍ/Bolungarvík
Lau. 15.maí kl.14:00
Ásvöllum, Hafnarfirði
Íslandsmót 2. Deild
BÍ/Bolungarvík tók á móti ÍH í fyrstu umferð 2. Deildar á Ásvöllum. Veðuraðstæður voru nokkuð góðar, glampandi sól með smá vindi. Okkar menn voru staðráðnir í gera betur en í seinsta leik, þegar þeir töpuðu í framlengingu fyrir Völsung. ÍH unnu Reyni Sandgerði fyrir stuttu í fyrstu umferð Visa-Bikarsins.
Byrjunarliðið var þannig(sjá mynd nr.1)
Á varamannabekknum sátu Óttar, Matti, Haffi, Guðni Páll, Þorgeir. Addi kom ekki með suður og von er á Dalibor Nedic til landsins fyrir bikarleikinn gegn Höfrungi á þriðjudaginn.
Það var ljóst í byrjun leiks að ekki yrði mikið um fallegan fótbolta og baráttan yrði í fyrirrúmi. Liðin voru þétt og ekki mikið um færi í fyrri hálfleik. Pétur Run og Andri fengu bestu færi okkar manna. Boltinn barst til Péturs í teignum og lá mjög vel fyrir honum en hann skaut yfir. Andri fékk síðan færi á því að setja boltann í fjær hornið eftir góðan undirbúning frá Pétri en skaut á mitt markið. Mjög svipað færi og þau sem hann fékk á móti Völsungi. ÍH menn beittu löngum sendingum fram völlinn og oft munaði litlu að þeir kæmist í gegnum vörnina en það stoppaði allt á Alla og Sigurgeiri í vörninni. ÍH liðið lét líka vel í sér heyra ef dómarinn flautaði í flautuna og nöldruðu yfir hverri einustu aukaspyrnu. Staðan 0-0 í hálfleik.
Alli hefur greinilega lesið yfir okkar mönnum í hálfleik og byrjuðum við hann mun betur. Fórum á fullu í öll návigi og meiri kraftur kominn í liðið. Þetta fór að skila sér í unnum boltum og ÍH liðið náði mjög lítið að skapa sér sóknir. Það gerist síðan eftir um tíu mínútna kafla að sami leikmaðurinn hjá þeim fær tvö gul og er rekinn útaf. Seinna spjaldið var út við hliðarlínu þegar miðjumaður okkar ætlar að senda Pétur Geir inn fyrir en varnarmaðurinn hoppar upp og slær boltann í burtu. Dómarinn gat ekki annað en gefið honum annað gult.(mynd nr.2)
Eftir þetta var bara eitt lið á vellinum og kom fyrsta markið þegar um hálftími var eftir af leiknum. Andri kemst þá framhjá varnarmanni ÍH og skýtur boltanum í nærstöng og inn. Staðan sanngjörn 1-0 fyrir okkur. Eftir þetta héldum við boltanum vel í vörninni og létum hann ganga og reyndum að fá ÍH liðið framar á völlinn. Emil og Sigþór fóru útaf og Óttar og Matti inn. Pétur Run og Milan sáu þá um miðjuna og Óttar fyrir aftan Pétur og Matti á kantinn. Eftir þessa breytingu komu mjög flottar sóknir hjá okkur þar sem Pétur Run og Milan gjörsamlega stjórnuðu miðjunni. Annað markið kom eftir aukaspyrnu þar sem hár bolti kemur inn í teiginn og Óttar stekkur upp í skallaeinvígi við varnarmann og markmann. Boltinn fer af þeim og til Matta sem er fyrstur að átta sig og skallar í autt markið.(mynd nr.3-4-5). Þriðja markið kemur upp úr því að Andri fíflar sinn varnamann upp úr skónum og á fast skot á markið sem markmaðurinn ver út í teig og þar er Pétur Geir mættur og kemur boltanum yfir línuna. 3-0 sigur staðreynd í fyrsta leik í deild.
Heilt yfir var þetta ágætis leikur hjá okkur en ekki jafngóður og á móti Völsungi þar sem við óðum í færum. ÍH liðið samanstendur af stórum og sterkum strákum sem eiga eflaust eftir að vera um miðja deild í sumar. Ekki sérstakur bolti sem liðið spilar en komast langt á styrknum. Tuð og væl er samt ljóður á leik félagsins. Menn velta eflaust fyrir sér hvort við hefðum náð að skora ef þeir hefðu ekki misst mann af velli. Leikurinn hefði þá þróast þannig að við værum að leita að þessu eina marki og þeir að verjast því fram að rauða spjaldinu vorum við mikið mun betri. Betra liðið vann sanngjarnan 3-0 sigur.
Búið er að setja inn myndaalbúm frá leiknum.
Deila