Meistaraflokkur kvenna hjá BÍ/Bolungarvík lék sína fyrstu leiki á árinu um síðustu helgi í Lengjubikarnum. Fyrri leikurinn var gegn KR og tapaðist hann stórt, eða 14-0. Í síðari leiknum gegn Fjölni töpuðu stelpurnar 3-1. Jónas Leifur Sigursteinsson, þjálfari liðsins, segir að það hafi sést í leiknum gegn KR að stelpurnar hafi verið að leika í fyrsta sinn á velli síðan í nóvember. „Við höfum ekki komist á völl síðan í nóvember og það sást berlega. Bæði KR og Fjölnir hafa æft á velli í allan vetur. Við erum búin að æfa vel í vetur, bara ekki fótbolta. Höfum verið á þrekæfingum og hlaupum og eitthvað verið í innanhúsbolta. Við lítum á Lengjubikarinn sem æfingaleiki og stressum okkur ekki á úrslitunum heldur notum þá til undirbúnings fyrir Íslandsmótið,“ segir Jónas Leifur.
Fimm fyrrum knattspyrnukonur úr BÍ/Bolungarvík spila með Fram í Reykjavík á komandi leiktímabili. Það eru þær Anna Marzellíusardóttir, Margrét Regína Grétarsdóttir, Áslaug Inga Barðadóttir, Silja Runólfsdóttir og Valdís María Einarsdóttir. Jónas Leifur segir að meistaraflokkurinn sé að missa þrjá leikmenn en Áslaug Inga og Valdís María hafa leikið lengur með Fram. Þá hafi Margrét Regína ekki getað spilað í fyrra vegna slitins krossbands.
„Ungar stelpur úr yngri flokkunum fá aukið hlutverk í sumar. Markvörðurinn okkar (Ana Lucia N. Dos Santos innsk. blm.), verður aftur með okkur í sumar og væntanlega Gabi líka. Við erum að hugsa um að fá einn leikmann í viðbót í staðinn fyrir Talitu sem sleit krossband í fyrra en það er allt í skoðun ennþá,“ segir Jónas Leifur.
Frétt af bb.is