Nú þegar Íslandsmótið er hálfnað situr liðið í næstneðsta sæti með 11 stig eftir 11 leiki. Ljóst er að stigasöfnunin þarf að vera meiri í seinni umferðinni en þrátt fyrir það er engan bilbug að finna á liðinu. Spilamennskan hefur batnað til muna í síðustu leikjum og sterkir leikmenn komið tilbaka úr meiðslum.
Að því sögðu þá eru slæmar fréttir af Sigurgeiri Sveini, fyrirliða liðsins. Í dag mun hann gangast undir aðgerð vegna kviðslits og verður frá út tímabilið. Hann bætist þá í hóp með Gunnari Má á meiðslalistanum en hann sleit krossbönd við lok tímabilsins í fyrra og mun ekkert vera með í sumar. Lánssamningur Mark Tubæk rann út í gær og spilaði hann sinn síðasta leik í tapinu gegn HK. Fabian Broich, markvörður, sem vermt hefur varamannabekkinn í fyrri umferðinni er líka farinn til síns heima. Félagið þakkar þessum tveimur leikmönnum kærlega fyrir sitt framlag og óskar þeim velfarnaðar með næstu verkefni.
En að máli málanna, félagaskiptum. Markvörðurinn Philip Saunders kom til landsins í morgun og mun leika með liðinu út tímabilið. Hann er 23 ára Bandaríkjamaður sem hefur verið að gera það gott í háskólaboltanum í heimalandinu. Annar leikmaður, Esteban Bayona, er framherji sem hefur einnig samið við félagið. Hann er þrítugur Kólumbíumaður sem hefur leikið í Bandaríkjunum undanfarin ár. Nú síðast með San Antonio Scorpions í NASL deildinni (North American Soccer League) sem er deild fyrir neðan MLS (Major League Soccer).
Von er á frekari styrkingu á leikmannahópnum í félagsskiptaglugganum og verður það tilkynnt þegar allt er orðið staðfest.
ÁFRAM BLÁIR