Margeir Ingólfsson hefur verið ráðinn yfirþjálfari barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Vestra.
Margeir er uppalinn KR-ingur og starfaði þar sem þjálfari yngri flokka í fimm ár. Hann þjálfaði í knattspyrnuskóla Barcelona á Íslandi árið 2018 og tók einnig þátt í að þjálfa úrtakshópa KSÍ fyrir hæfileikamótun sama ár. Margeir er með KSÍ B þjálfaragráðu og er um þessar mundir við það að ljúka BSc námi hjá Manchester Metropolitan University í Community Football Coaching. Margeir kom fyrst til liðs við Vestra vorið 2021 sem þjálfari og féll ljómandi vel í okkar annars frábæra hóp.
Margeir tekur við yfirþjálfun af Jóni Hálfdáni Péturssyni sem hefur starfað hjá félaginu í mörg ár.
Knattspyrnudeildin hefur lengi látið sig dreyma um að hafa framkvæmdastjóra á sínum snærum, einhvern sem þekkir starfið vel, getur tekið á móti foreldrum, þjálfurum, iðkendum og öðrum, leiðbeint og gefið upplýsingar ásamt því að vinna að uppbyggingu félagsins. Sá draumur hefur nú ræst og mun Margeir einnig sinna starfi framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar. Margeir hefur aðsetur í Vallarhúsinu og er með opnunartíma þar alla virka daga frá klukkan 10:00 – 14:00 til að byrja með.
Tölvupóstfang hjá Margeiri er margeir@vestri.is og sími: 6950143
Um leið og við bjóðum Margeir velkominn til starfa, þökkum við Jóni Hálfdáni innilega fyrir sín störf síðustu ár.
Fyrir hönd barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Vestra
Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg
Formaður
Deila