Knattspyrna | 28.08.2010
BÍ/Bolungarvík tapaði fyrir Völsungi í dag 2-1. Leikurinn fór fram á Húsavík og með sigrinum eru aðeins sjö stig sem skilja liðin að í öðru og þriðja sæti. Þrír leikir og níu stig eru eftir í pottinum fyrir heimaleikinn gegn Víði á næstu helgi. Sigur í þeim leik tryggir annað sæti endanlega en menn verða að byrja leikinn frá fyrstu mínútu því sumarið er engan veginn búið.
Völsungur fengu vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem Róbert Örn varði vel í markinu. 0-0 var staðan í hálfeik en seinni hálfleikur byrjaði fjörlega. Jónmundur Grétarsson kom okkar mönnum yfir á 47. mínútu en mínútu seinna jöfnuðu heimamenn úr vítaspyrnu. Leikurinn hefði getað dottið báðum megin í venjulegum leiktíma og gerði það á endanum í uppbótartíma. Þá skoraði framherji Völsungs með seinustu snertingu leiksins og tryggði þeim 2-1 sigur. Afar svekkjandi fyrir okkar menn því jafntefli hefði verið kærkomið á þessum erfiða útivelli.
Nú er bara að einbeita sér að næsta leik og tryggja þetta endanlega!
Deila