Fréttir

Tap gegn FH

Knattspyrna | 28.03.2011 BÍ/Bolungarvík 1-5 FH
1-0 Alexander Veigar Þórarinsson ('2)
1-1 Matthías Vilhjálmsson ('20, víti)
1-2 Matthías Vilhjálmsson ('33)
1-3 Emil Pálsson ('77)
1-4 Gunnar Kristjánsson ('83, víti)
1-5 Gunnar Sigurðsson ('90, víti)

BÍ/Bolungarvík tók á móti bikarmeisturum FH á sunnudaginn síðasta. Leikið var að Ásvöllum í Hafnarfirði í fínu veðri þó að aðstæður við völlinn hefðu mátt vera betri. Línuvörður leiksins þurfti að moka frá hliðarlínunni fyrir leik. Aco Pandurevic spilaði sinn fyrsta mótsleik en hann var nýkominn til landsins. Hjá okkur vantaði Goran, Zoran, Jónmund og Birki.

Byrjunarliðið var þannig:
Þórður - Haffi, Atli, Ondo, Sigurgeir - Gunnar, Colin, Aco, Sölvi, Andri - Alexander
Á varamannabekknum voru Matti, Ásgeir, Óttar, Nikulás og Sigþór

Leikurinn hófst með látum því við skoruðum úr fyrstu alvöru sókn leiksins. Unnum boltann á miðjunni þar sem honum er síðan komið á sölva á kantinum sem fer upp að endamörkum og lyftir boltanum fyrir markið. Hann fer yfir markmann FH og dettur niður fyrir framan markið þar sem Alexander er mættur og skorar með auðveldum skalla í autt markið. Eftir það fór leikurinn að þróast eins og við var búist, FH með boltann og við að verjast. FH spiluðu oft á tíðum hægar sóknir sem hefðu átt að auðvelda okkur varnarvinnuna en við vorum alltof langt frá mönnum þegar þeir fengu boltann. FH jafnaði leikinn á tuttugustu mínútu þegar brotið er á sóknarmanni FH og víti dæmt sem þeir skora úr. Stuttu seinna skora þeir auðvelt skallamark eftir ágæta sókn. Við áttum 2-3 sénsa til að sækja hratt sem við náum ekki að nýta nógu vel. 2-1 í hálfleik

Í seinni hálfleik kemur Óttar inn á fyrir Andra. Þar náum við að halda leiknum opnum í 2-1 langt fram í seinni hálfleik. Nokkrir dómar voru dæmdar(eða ekki dæmdir) þar sem okkur fannst klárlega hallað á okkur. Í einu tilviki var Gunnar rifinn niður í markteignum þar sem hann var að mæta fyrirgjöf en ekkert dæmt. Matti kom síðan inn á fyrir Sigurgeir og var fljótlega kominn í dauðafæri þar sem hann renndi boltanum frekar fyrir markið en að skjóta og ekkert varð úr. Í stað þess að jafna leikinn að þá bætti FH við þriðja markinu með skalla og á síðustu tíu mínútunum komu tvö víti þar að auki. Þegar upp var staðið endaði leikurinn 1-5 fyrir FH.

Leikurinn var frekar rólegur og hefðum við getað gert þeim mun erfiðara fyrir með því að mæta mönnum fyrr og fara að krafti í öll návígi. Það er líka auðvelt að sitja upp í sófa og skrifa um leikinn og segja hvað hefði betur mátt fara, því þegar öllu er á botninn hvolft að þá er FH besta lið landsins.

Mörkin úr leiknum
Deila