Knattspyrna | 09.07.2011
BÍ/Bolungarvík hélt til Ólafsvíkur í gær til að taka á móti heimamönnum í Víking. Fyrir leikinn voru liðin í svipaðri stöðu um miðja deild og því var mikilvægt fyrir bæði lið að vinna leikinn og skilja við botnbaráttuna. Aðstæður voru sæmilegar í Ólafsvík, sól en töluverður vindur. Völlurinn var sléttur en þó töluvert harður.
BÍ/Bolungarvík stillti upp í 5-3-2 leikkerfi og var dagskipunin að bíða eftir Ólsurum sem vilja sjálfir liggja tilbaka og beita skyndisóknum. Byrjunarliðið var þannig skipað:
Doddi - Michael, Atli, Zoran, Ondo, Kevin - Haffi, Gunnar, Nicky, Colin - Tomi
Á varamannabekknum sátu þeir Sigurgeir, Sigþór, Matti, Nikulás, Alexander, Sölvi og Bjarki.
Leikurinn byrjaði með mikilli stöðubaráttu þar sem ekkert var gefið eftir. Hægt og rólega náðum við þó undirtökunum og áttum álitlegar sóknir á meðan allar sóknir Ólsara stoppuðu á Atla, Zoran og Ondo. Það var síðan á 13. mínútu sem Tomi fær loksins dæmda aukaspyrnu á varnarmenn Víkinga, Nicky Deverdics tók spyrnuna og það kom engum á óvart þegar boltinn söng í netinu. Markmaður Víkinga átti aldrei séns.
Það sem eftir lifði leiks fengu Víkingar að vera með boltann en sköpuðu sér engin færi. Leikaðferðin var að ganga fullkomnlega upp og Víkingar farnir að henda sér í grasið við hverja snertingu og kvarta undan öllum dómum dómarans. Á 43. mínútu brýtur Atli Guðjónsson mjög klaufalega á sóknarmanni Víkinga sem er á leiðinni út úr teignum og dómarinn dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. 1-1 var staðan í hálfleik.
Víkingar létu dómarann heyra það duglega á leið sinni til búningsklefa og vel fram að seinni hálfleik. Þeim var síðan verðlaunað strax í upphafi seinni hálfleiks þegar sóknarmaður Víkinga fellur í viðskiptum við Atla og dómarinn hikar ekki við að benda á punktinn. Vítið þótti afar ódýrt og voru leikmenn liðsins vægast sagt ósáttir með dóminn. Staðan orðin 2-1. Stuttu seinna mistekst Atla að taka á móti háum bolta og leikmaður Víkinga nær knettinum og leikur honum til hliðar þar sem Guðmundur Steinn Hafsteinsson skorar úr dauðafæri gegn Dodda sem hafði verið mjög góður í leiknum. Staðan fljótlega orðin 3-1. Stuttu eftir þetta kemst Tomi aleinn á móti markmanni Víkinga sem ver sannkallað dauðafæri. Þar á eftir á Colin skot sem hafnar í þverslánni. Á þessum tímapunkti voru við farnir að leggja allt kapp á sóknina og Alexander hafði komið inn á fyrir Atla. Matti og Sölvi komu einnig inn á fyrir Gunnar og Michael. Í lokin þegar við leggjum allt kapp á að reyna minnka muninn þá bæta Víkingar við marki eftir mjög glæsilega sókn. Í raun var þetta eina markið sem þeir skora þar sem við gerum ekki afgerandi og hreint út sagt barnaleg mistök í aðdraganda markanna. Stuttu seinna flautar dómarinn til loka leiks og mjög svekkjandi 4-1 tap staðreynd.
Það sem gerði útaf við okkur í þessum leik, að undanskyldu öllu væli um dómara, þjálfara og leikmenn Víkings, var að við lékum oft gegn sjálfum okkur með mjög barnalegri varnarvinnu. Þegar tvær mínútur eru eftir af hálfleiknum erum við með tök á leiknum og Víkingar að "ströggla" við að skapa sér færi. Einnig í stöðunni 3-1 áttum við dauðafæri og skot í slá sem hefði getað breytt leiknum aftur. Í lok leiks vann liðið sanngjarnt sem gerði færri mistök í leiknum. Nú er bara að gíra sig upp fyrir leikinn á þriðjudaginn gegn KA.
Deila