Sem gömul fótboltakempa, (að ég skuli kalla sjálfa mig þessu orði!), finnst mér alltaf mikill sjarmi yfir því þegar ég sé líf kvikna á vellinum okkar uppi á Skeiði, hvernig völlurinn kemur undan vetri og sjá fyrstu fótboltaæfingarnar fara af stað og svo framvegis. Það besta við vorið þegar ég var sjálf að æfa og þjálfa fótbolta var þegar maður komst úr íþróttahúsinu og út á völl. Frelsið að geta verið úti að gera það sem manni finnst skemmtilegt og lifir fyrir, það eru forréttindi. Ég tel það einnig forréttindi að geta verið áhorfandi, að fara á völlinn og sýna sínu liði stuðning.
Ég er nú komin yfir þann aldur að bíða eftir þeim farfuglum sem koma heim á vorin þegar skólunum lýkur. Samt er ég ekkert svo gömul. Þó er ég ekki alveg hætt að fylgjast með þeim fuglum sem leggja leið sína hingað vestur á vorin. Farfuglarnir sem ég er hvað spenntust að fylgjast með og hlakka alltaf til að sjá spreyta sig á sumrin, eru vormenn vestfjarða í BÍ/Bolungarvík. Ég efast ekki um að þeir hafi undirbúið komu sína vel hingað vestur, að veturinn hafi verið nýttur í þrotlausar æfingar og skipulag sem á að nýtast vel til varnar og sóknar á vellinum í sumar.
Eftir að hafa horft á fyrsta leik liðsins í 1.deild fyrir nokkrum dögum sá ég að það þarf ekkert að hafa neinar áhyggjur af þessum drengjum. Guðjón hefur þjálfað ungana sína vel og á bara eftir að bæta þá enn frekar þegar líður á sumarið. En það er ekki einungis hans vinna að láta strákana bæta sig, heldur er það einnig hugarfar leikmanna sem kemur þeim hvað lengst; þeir þurfa að halda haus og læra af þeim mistökum sem gerð eru, já og læra einnig af því sem vel er gert.
Flesta strákana í liðinu kannast maður við, þeir eru farfuglar sem alltaf koma heim á vorin. Eitthvað er þó af flækingum í hópnum, strákar sem maður kannast ekki við. Það kemur sér mjög illa fyrir manneskju eins og mig sem verð að hafa hlutina á hreinu er ég horfi á fótboltaleik. Ég sá leikskrána fyrir mér á eldhúsborðinu heima hjá mér allan leikinn þar sem ég sat í brekkunni og fylgdist með leiknum. Ég lagði númerin á þeim leikmönnum á minnið sem ég þurfti að fletta upp eftir leikinn.
Já, sumt verður maður bara að hafa á hreinu og maður lærir af mistökunum, leikskráin verður ekki aftur eftir heima!
Ég hef verið að leika mér við það hér á undan að líkja blessuðum drengjunum við farfugla, ég ætla samt að vona að þeir hafi ekki þann eiginleik fuglanna, að vera upp um allt og út um allt. Ég tel fyrir víst að strákarnir hafi báðar fæturna á jörðinni og úr þeirra hreiðurgerð í sumar komi engin stropuð egg, heldur verði niðurstaðan farsæl og góð.
Deila