Fréttir

Flottur sigur á Snæfelli í fyrsta leik

Körfubolti | 06.10.2017
Nemanja Knezevic númer 15 átti stórleik í kvöld með 20 stig og 20 fráköst.
Nemanja Knezevic númer 15 átti stórleik í kvöld með 20 stig og 20 fráköst.

Vestri lagði Snæfell fyrr í kvöld í hörkuleik á Jakanum, lokatölur 76-72. Loftið var rafmagnað fyrir leik og eftirvæntingin skein af leikmönnum og áhorfendum. Stúkan var þétt setin og góð stemmning þótt mikilvægur landsleikur í fótbolta færi fram á sama tíma.

Strax í fyrstu sókn Snæfellinga minnti miðherjinn Nemanja Knezevic alla hlutaðeigandi á það hver ætti teiginn þegar hann varði sniðskot Snæfellinga út í vegg. Nebojsa setti svo sniðskot í sókninni á eftir en Snæfellingar svöruðu með þriggja stiga körfu. Segja má að þessi atriði hafi sett tóninn fyrir leikinn því upp frá þessu leiddu Snæfellingar megnið af fyrsta leikhluta með magnaðri framistöðu fyrir utan þriggja stiga línuna en hættu sér ekki mikið inn fyrir hana. Vestramenn léku þó ágætlega og náðu að jafna tvisvar í leikhlutanum. Öll stig Snæfells í fyrsta leikhluta komu úr þriggja stiga skotum með 50% nýtingu 7 af 14 en þeir áttu aðeins 2 skot inn í teig sem hvorugt fór ofan í. Staðan eftir fyrsta leikhluta 18-21 gestunum í vil.

Í öðrum leikhluta héldu gestirnir áfram að skjóta mikið fyrir utan en fóru þó að hætta sér ögn nær körfunni og skora inn í teig. Leikurinn var í jafnvægi en gestirnir leiddu þó. Nebojsa fékk dæmda á sig sína þriðju villu á sextándu mínútu og svo fjórðu villuna undir lok hálfleiksins. Útlitið var því ekki sérlega gott hjá heimamönnum í hálfleik 7 stigum undir, 34-41 og með lykilmann í villuvandræðum.

Þessi staða þjappaði Vestramönnum þó bara saman og greinilegt var að hálfleiksræða Yngva Páls þjálfara skilað sér alla leið. Strákarnir mættu gríðarlega ákveðnir í seinni hálfleik og gjörsamlega völtuðu yfir Snæfellinga. Frábær varnarleikur skipti sköpum og 2-3 svæðisvörnin með Nemanja eins og kóng í ríki sínu í miðjunni virkaði vel. Það má líka alveg minnast á þá félaga Björn Ásgeir og Ingimar Aron í þessu samhengi sem spiluðu magnaðan varnarleik fremst í vörninni. En allir sem komu inn á þessum tímapunkti lögðu allt í sölurnar og börðust eins og ljón og voru hreyfanlegir. Þarna snerist leikurinn og fór svo að Vestri skoraði 25 stig gegn 4 stigum Snæfells.

Þótt Snæfellingar kæmu sterkir inn í fjórða leikhluta og leikurinn hafi verið spennandi allt til loka var ljóst að Vestramenn ætluðu ekki að gefa neitt eftir. Hver einasti leikmaður lagði sig fram og skilaði sínu.

Nemanja Knezevic átti frábæran leik, skoraði 20 stig og tót 20 fráköst að ekki sé talað um varnarvinnuna. Nebojsa skilaði sínu þrátt fyrir villuvandræðin með 16 stig, 10 stoðsendingar og 6 fráköst. Fyrirliðinn Nökkvi Harðarson átti einnig góðan leik fyrir utan 12 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar smitaði baráttuandi hans út frá sér. Björn Ásgeir átti einnig mjög góðan leik hann skilaði 12 stigum og 4 fráköstum en auk þess spilaði hann frábæra vörn allan leikinn en fékk samt ekki eina villu dæmda á sig. Ingimar Aron skoraði 10 stig og þar af 2 mikilvæga þrista í seinni hálfleik og Adam Smári skoraði 6 stig. Aðrir náðu ekki á stigatöfluna en eins og áður sagði lögðu allir leikmenn sig vel fram einkum í síðari hálfleik.

Hjá gestunum var Christian David Covile stighæstur með 23 sit, Geir Elís kom næstur með 20 stig og Jón Páll með 16.

Ítarlega tölfræði má nálgst á vef KKÍ.

Deila