Fréttir - Blak

Sigur í 5. deild kvenna á öldungamóti

Blak | 03.05.2012 Öldungamótið í ár bar nafnið Trölli 2012 og var haldið á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík. Skellur sendi tvö lið: Eitt karlalið og eitt kvennalið.

Kvennalið Skells náði takmarki sínu og sigraði 5. deildina og spilar því í 4. deild að ári. Taka ber fram að kvennadeildirnar voru 13 talsins á þessu móti. Skellsliðið var sterkt og vel samæft og spilaði af fullum krafti allan tímann. Skellur vann 5 leiki en tapaði naumlega á móti sterku liði heimakvenna í Rimum (Dalvík) í oddahrinu kl. 23 á sunnudagskvöldinu - þrátt fyrir að vera dyggilega studdar af fjörugu karlaliði Skells. Það kom þó ekki að sök og efsta sætið í deildinni staðreynd.

Gengi karlaliðsins var sveiflukenndara en þeir áttu mjög góða kafla inn á milli. Þeir unnu 3 leiki en töpuðu 3. Þrátt fyrir það rétt náðu þeir að hanga uppi í deildinni á nánast minnsta mögulega mun sem sýnir hvað þessar deildir eru oft jafnar. Það fara tvö lið upp úr deildinni og tvö lið niður. Skellur voru með jafnmörg stig og Þróttur Nes 2 sem féllu og sama hrinuhlutfall, stigahlutfallið var nánast það sama en þegar það er skoðað með þriðja aukastaf hefur Skellur betur. Ef þeir hefðu skorað 2 færri stigum samtals í einhverjum hrinum hefðu þeir fallið - en það var að sjálfsögðu aldrei hætta á því!

Mótið var vel skipulagt og frábært að spila og dvelja á þessum stöðum. Liðin fengu tvö hús á Sigló til að gista í og voru þau hlið við hlið. Þetta var fjölmennasta öldungamótið til þessa og stemmningin ólýsanleg. Næsta mót verður haldið í Kópavogi og eru HK gestgjafarnir. Nánar

Skellur á leið á öldungamót

Blak | 25.04.2012 Karla- og kvennalið Skells munu taka þátt í öldungamóti Blaksambandsins sem haldið verður á Tröllaskaganum um helgina. Nánar tiltekið á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík. Markmið beggja liða er að ná í verðlaunapeninga og helst að komast upp um deild. Kvennalið Skells er nú í 5. deild af 13 kvennadeildum og karlaliðið er í 4. deild af 5 karladeildum í flokki öldunga. Tvö efstu liðin í hverri deild fara upp, og þau tvö neðstu falla.
Svo er markmiðið að sjálfsögðu einnig að eiga frábæra helgi með skemmtilegu fólki á fallegum stað. Liðin hafa tekið sitt hvort húsið á leigu á Siglufirði en húsin eru hlið við hlið. Á mótið eru skráð 142 lið, þar af 98 kvennalið og 44 karlalið. Þetta er ótrúlegur fjöldi liða og þrátt fyrir að boðið sé upp á þrjú stór íþróttahús með þremur blakvöllum í hverju húsi þarf að spila leiki langt fram eftir kvöldi. Það er bara stemmning yfir því og leikmenn Skells hlakka mikið til  mótsins.
Áfram Skellur!!!! Nánar

Frábær árangur allra liða á Íslandsmóti yngri flokka - Skellur Íslandsmeistari A-liða í 5. flokki.

Blak | 17.04.2012 Blakfélagið Skellur gerði góða ferð á seinni hluta Íslandsmóts yngri flokka í blaki sem haldið var í Kópavogi 14.-15. apríl. Skellur mætti með 6 lið til leiks og hafa aldrei áður verið svo mörg lið á vegum Skells á Íslandsmóti. Skellur 1 í 5. flokki varði Íslandsmeistaratitil sinn með því að vinna alla leiki á þessu móti 2-0. Liðið var í 2. sæti á eftir Aftureldingu eftir fyrri umferðina. Skellur C varð í 2. sæti í deild C-liða eftir að tapa úrslitaleik á móti Dímon frá Hvolsvelli. 4. flokks lið Skells krækti sér í 3. sæti í deild A-liða pilta. Nánari hugleiðingar um árangur hvers liðs er hér að neðan. Nánar

Ferð yngri flokka á Íslandsmót

Blak | 11.04.2012 Yngri flokkar Skells fara á seinni hluta Íslandsmótsins í blaki sem haldið verður í Kórnum í Kópavogi dagana 14. og 15. apríl. Alls fara 6 lið á vegum Skells sem er metþátttaka.

 

Hérna koma upplýsingar um ferðina:

Nánar

Góður árangur hjá meistaraflokki kvenna í 3. deild Íslandsmótsins

Blak | 27.03.2012 Lokaumferð og úrslitamót Íslandsmótsins í 3. deild kvenna fór fram um síðustu helgi á Álftanesi. Lið Skells náði þeim góða árangri að komast í undanúrslit 3. deildar. Í undanúrslitaleiknum mætti Skellur feiknasterku liði Álftaness sem vann sanngjarnan sigur. Í leiknum um 3. sæti mætti Skellur liði Bresa frá Akranesi og sá leikur var spennandi og gat farið á hvorn veginn sem var. Skellur töpuðu leiknum og enduðu því í 4. sæti 3. deildar, sem verður að teljast mjög góður árangur. 3. deildin hefur styrkst mikið á undanförnum árum og í vetur var einnig spilað í 4. deild Íslandsmótsins og verður stofnuð 5. deild næsta vetur. Nánar

Nýr formaður Skells

Blak | 27.03.2012 Aðalfundur blakfélagsins Skells var haldinn þann 18. mars síðastliðinn. Þar bar helst til tíðinda að Sigurður Jón Hreinsson var kosinn formaður og tók við af Hörpu Grímsdóttur. Skýrslu fráfarandi formanns fyrir síðasta ár má sjá hér að neðan. Nánar

Aðalfundur Skells 2012

Blak | 07.03.2012

Blakarar og blak-krakkaforeldrar í Ísafjarðarbæ athugið

Aðalfundurfundur Blakfélagsins Skells verður haldinn sunnudaginn 18 mars 2012 kl. 17.30
í salnum á efri hæð Íþróttahússins á Torfnesi

Dagskrá fundarins:
• Hefðbundin aðalfundarstörf
o skýrslur stjórnar
o kosning í stjórn
o kosning í krakkablaksráð
• Önnur mál


Foreldrar og félagar eru hvattir til að fjölmenna.

Stjórnin.

Nánar

Blakæfingar komnar í fullan gang

Blak | 06.01.2012 Blakfélagið Skellur óskar iðkendum sínum og velunnurum gleðilegs nýs árs og þakkar fyrir það liðna.

Blakæfingar eru nú komnar í fullan gang skv. áætlun. Fyrsta yngri flokka æfingin er í dag, föstudag kl. 15:00 í íþróttahúsinu Torfnesi. Sjá má á æfingatöflunni hvenær æfingar eru.
Nánar

Skemmtileg jólamót hjá börnum og fullorðnum

Blak | 21.12.2011 Yngri flokkar
Jólamót Skells fyrir yngri flokka var haldið sunnudaginn 18. desember. Það tókst í alla staði mjög vel og vonandi hafa allir farið ánægðir heim. Rúmlega 60 þátttakendur voru á mótinu frá Þingeyri, Suðureyri og Ísafirði. Börnin í boltaskóla HSV hafa verið í blaki síðustu vikur og mættu þau einnig á mótið.

Elstu krakkarnir (3. og 4. flokkur) byrjuðu og kepptu þar tvö lið frá Höfrungi og tvö frá Skelli. Þingeyrarliðin kepptu við Skellsliðin og vann Stekkjastaur, A-lið Höfrungs, allar sínar hrinur - enda öflugir krakkar og miklir íþróttamenn. Í stað þess að láta Höfrung keppa innbyrðis og Skell innbyrðis var ákveðið að draga í blönduð lið fyrir síðasta leikinn.

Í 5. flokki kepptu þrjú lið frá Skelli, eitt frá Suðureyri og tvö frá Ísafirði.  Þau kepptu undir nöfnum Pottaskefils, Skyrgáms og Hurðaskellis. Allir leikirnir voru jafnir og spennandi en Hurðaskellir hlaut flest stig.

Einn leikur var spilaður í 3. stigi á milli Höfrungs og Skells.

Krakkarnir í 1.- 4. bekk hjá íþróttaskóla HSV spiluðu krakkablak á 1. og 2. stigi við yngri krakkana frá Þingeyri og líka innbyrðis. Það var frábært að sjá hvað krakkarnir í íþróttaskólanum eru búnir að ná góðum tökum á krakkablaki á stuttum tíma. Og það er stórkostlegt blakstarf sem fer fram á Þingeyri undir stjórn Guðrúnar Snæbjargar.

Í lok mótsins fengu allir krakkarnir húfur merktar blakfélögunum.

Fullorðnir:
Jólamót fullorðinna var haldið fimmtudagskvöldið 15. desember og var keppt í 4-5 manna liðum. Liðin voru 5 talsins og var spilað á tíma í þetta sinn. Hver leikur var tvisvar sinnum 12 mínútur. Það lið sem skoraði flest stig í heildina sigraði. Mótið var sérlega jafnt og munaði bara örfáum stigum á liðunum. Baráttan var mikil og ekki alltaf að sjá á að um innanfélagsjólamót væri að ræða - enda á alltaf að taka á því þegar blak er spilað :-)  Liðið Gáttaþefur sigraði.
Nánar

Hurðaskellur - mót yngri flokka

Blak | 17.12.2011 Sunnudaginn 18. desember verður jólamót Skells haldið. Mótið er fyrir alla krakka sem æfa blak hjá Skelli bæði á Suðureyri og Ísafirði og einnig mun Höfrungur frá Þingeyri mæta á mótið. Þar að auki koma krakkarnir úr íþróttaskóla HSV en þau hafa einmitt verið í blaki í boltaskólanum síðustu vikurnar.

Krakkarnir eru beðnir um að mæta sem hér segir:

Þau sem eru í 3. og 4. flokki eiga að vera mætt inn í sal í fötunum kl. 11
Þau sem eru í 5. flokki eiga að mæta kl. 12
Krakkar í 3. og 4. bekk í íþróttaskólanum eiga að mæta kl. 12
Krakkar í 1. og 2. bekk í íþróttaskólanum eiga að mæta kl. 14

Mótsgjald er kr. 700 og greiðist á staðnum. Inni í því er glaðningur fyrir alla og piparkökur og djús. Krakkarnir eru beðin um að koma í jólalegum fötum, t.d. rauðum eða grænum bolum.  Nánar