Blak | 30.10.2012
Mótið um helgina gekk vel fyrir sig. Margir spennandi leikir voru spilaðir og réðust úrslitin í oddahrinu í fjölmörgum leikjum. Einhver seinkun varð á leikjum vegna þessa, en ekkert sem skipti miklu máli. Margir kíktu við og horfðu á leiki og lið Skells þakka kærlega fyrir stuðninginn á áhorfendapöllunum. Yngri flokkar Skells sáu um kaffisöluna með miklum myndarbrag og er kaffinefndinni þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf, en nefndina skipuðu þær Anna Kata, Bergþóra og Ingunn.
Karlalið Skells gerði sér lítið fyrir og vann alla sína leiki, þar af tvo í oddahrinu. Ómögulegt var að vita fyrirfram hvernig liðið stæði þar sem þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í 3. deild karla á Íslandi. Allir leikmenn stóðu sig vel en nýliðinn Karol Mariusz Maliszewski átti gríðarlega gott mót. Hann er mikill styrkur fyrir liðið, enda reyndur leikmaður frá Póllandi, sem nú býr á Suðureyri.
Kvennalið Skells stóð í mikilli baráttu enda er 3. deild kvenna mjög sterk og jöfn. Liðið vann þrjá leiki en tapaði þremur og er í 4. sæti eftir þessa fyrstu umferð. Margir leikjanna einkenndust af löngum lotum þar sem varnarleikur margra liðanna er stórgóður og hvert smassið af öðru hirt upp og boltinn gat farið 10-15 sinnum yfir netið fram og til baka. Þá fer úthaldið að skipta máli sem og einbeitingin. Liðið átti mjög góða spretti og ætlar sér að gera enn betur á næsta móti.
Hinn nýi ljósmyndari liðsins hann Maik tók margar skemmtilegar myndir og hafa nokkrar þeirra verið settar á Facebook síðu Skells. Einnig tók Halldór Sveinbjörnsson hjá bb flottar myndir og eru þær komnar undir
myndir.
Nánar
Blak | 24.10.2012
Næstkomandi helgi, 27. og 28. október fer fyrsta mótið fram í mótaröð Íslandsmótsins í 3. deild í blaki - Suður- og Vesturlandsriðill. Bæði verður keppt í kvenna- og karlaflokki og á Skellur lið í báðum flokkum. Í 3. deild kvenna eru sjö lið skráð til keppni en fjögur lið í 3. deild karla. Það má því búast við að keppendur verði um 80 talsins og koma liðin frá höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Laugavatni og svo Ísafjarðarbæ. Blakfélagið Skellur hefur undirbúið mótið í samvinnu við Blaksamband Íslands og er Ásdís Birna Pálsdóttir mótsstjóri. Ljóst er að spennandi leikir eru framundan hjá Skellsliðunum og þurfa þau að sýna góða takta til að krækja í hagstæð úrslit. Kvennaliðið spilar sex leiki yfir helgina og karlaliðið fimm. Bæjarbúar eru hvattir til að kíkja við og horfa á skemmtilegt blak og fá sér kaffi og með'í í kaffisölunni á mótinu sem er til styrktar yngri flokkum Skells.
Nánar
Blak | 01.10.2012
Fjórði flokkur Skells tók þátt í fyrstu umferð Íslandsmótsins í Mosfellsbæ um síðustu helgi (29.-30. sept). Skemmst er frá því að segja að ferðin gekk vel í alla staði. Annað Skellsliðið er í fyrsta sæti meðal A-liða drengja eftir mótið og hitt liðið er í 3.-4. sæti meðal B-liða stúlkna.
Liðið Skellur A spilaði í deild A-liða drengja og var það skipað þeim Birki, Bjarna Pétri, Kjartani Óla, Ágústi og Auði Líf. Þau gerðu sér lítið fyrir og unnu alla leikina sína á laugardeginum en það voru leikirnir sem teljast til stiga á Íslandsmótinu. Liðið er skipað miklum reynsluboltum og síðasti leikurinn þeirra þennan daginn var algjör stjörnuleikur þar sem þau sýndu öll sínar bestu hliðar á móti Aftureldingu sem hefur verið einn helsti keppinautur þeirra síðustu árin. Á sunnudeginum spiluðu þau síðan undanúrslitaleik sem gilti bara á þessu móti við liðið sem lenti í 4. sæti eftir laugardaginn, Þrótt Nes. Sá leikur tapaðist og var ekki laust við að okkar krakkar stressuðust svolítið upp þegar Þróttarliðið mætti ákveðið til leiks og sýndu virkilega góða takta. Þau spiluðu um bronsið á Mosó-mótinu við Stjörnuna og unnu þann leik. Þau enduðu því í þriðja sæti á þessu móti en með flest stig - töpuðu bara röngum leik og Þróttur Nes vann mótið. Þau eru samt sem áður í efsta sæti Íslandsmótsins eftir þessa fyrstu umferð, en það er ljóst að það á eftir að kosta baráttu og miklar æfingar að halda því. Öll liðin eru sterk og taka miklum framförum - ekki síst Þróttur Nes sem eiga líklega eftir að reynast ansi erfiðir á næstu mótum. Það verður spennandi að fylgjast með þessari deild á Ísafirði í nóvember.
Liðið Skellur 1 spilaði í deild B-liða stúlkna og var það skipað þeim Birtu Rós, Guðrúnu Ósk, Ólínu, Dísu og Bensa. Í þeirri deild eru 10 lið og var spilað í tveimur riðlum fyrri daginn. Þau unnu alla leikina nema einn á móti Þrótti Nes sem tapaðist í oddahrinu. Þetta voru leikirnir sem teljast til stiga á Íslandsmótinu. Þau eru í 3. eða 4. sæti á Íslandsmótinu eftir þetta mót, en liðið sem varð í öðru sæti í hinum riðlinum, Fylkir, er með jafnmörg stig og sama hrinuhlutfall. Á sunnudeginum voru spiluð einföld úrslit við hinn riðilinn sem giltu sem úrslit á þessu móti og þar töpuðu okkar krakkar eins naumlega og hægt er, 15-17 í oddahrinu og enduðu því í 4. sæti á mótinu. Ef þau verða dugleg að æfa í vetur ættu þau að vera í hörkubaráttu um verðlaun í þessari deild á Íslandsmótinu. Þau eru orðin mjög hreyfanleg og krakkar sem voru ekki mikið fyrir að skutla sér fyrir einhverju síðan láu nú hvert um annað þvert á gólfinu í mikilli baráttu við að bjarga öllum boltum. Alveg til fyrirmyndar.
Á laugardagskvöldinu var kvöldvaka þar sem var mikið fjör - leikir og diskó. Hinum Norðfirska þjálfara Skells finnst sérlega gaman að sjá hvað Austfirðingarnir og Vestfirðingarnir ná vel saman utan vallar:-)
Nánar
Blak | 09.09.2012
Það verður mikið um að vera hjá Blakfélaginu Skelli á þessari haustönn. Dagana 27.-28. Október verður haldið mót á Ísafirði sem er hluti af Íslandsmótinu í 3. deild karla og kvenna. Bæði karla og kvennalið Skells munu taka þátt í mótinu, en karlalið Skells er nú í fyrsta sinn skráð til þátttöku í Íslandsmótinu. Kvennalið Skells endaði í 4. sæti í 3. deildinni í fyrra, en nú er spilað í sex deildum á Íslandsmótinu í blaki kvenna. Bæði meistaraflokksliðin virðast vera að fá til sín nýja og sterka leikmenn þannig að það verður gaman að fylgjast með árangrinum í vetur.
Einnig verður haldið mót á Ísafirði dagana 23.-25. Nóvember sem er hluti af Íslandsmótinu hjá 4. flokki, en það eru krakkar sem fædd eru 1999 og 2000. Þetta er í fyrsta sinn sem mót í mótaröð yngri flokka fæst hingað til Ísafjarðar, sem sýnir að Ísafjarðarbær er að festa sig í sessi sem blakbær. Fjórði flokkur Skells fer einnig á mót í Mosfellsbæ í lok september og 3. og 5. flokkur fara á mót í Mosfellsbæ um miðjan nóvember.
Byrjendur eru boðnir sérstaklega velkomnir á æfingar í vetur og á það við um bæði fullorðna byrjendur og krakka/unglinga. Fyrstu drög að tímatöflum má finna hér til hliðar.
Nánar
Blak | 05.09.2012
Vetrarstarfið hjá Skelli er að komast í fullan gang og æfingar í íþróttahúsinu við Torfnes eru byrjaðar. Verið er að ganga frá endanlegri tímatöflu fyrir alla aldurshópa og verður hún sett á síðuna innan skamms. Þær æfingar sem verða í íþróttahúsinu við Austurveg munu hefjast 11. september þegar húsið opnar. Sjáumst í blaki!
Nánar
Blak | 13.06.2012
Félagið heldur úti æfingum hjá meistaraflokki karla og kvenna
og einnig í yngri flokkum, 3. til 5. flokki.
Þá er félagið þátttakandi í íþróttaskóla HSV og sér um blakþjálfun barna
í 3.-4. bekk í lotum nokkrum sinnum yfir veturinn.
Í boði er að taka við allri þjálfun á vegum
félagsins eða hluta af henni.
Félagið sér um að útvega íbúð og getur aðstoðað við að finna
vinnu með, en þjálfunin er ekki fullt starf.
Áhugasamir hafi samband við formann félagsins í gegnum netfangið
sigurdurjh@internet.is fyrir 15 júlí.
Nánar
Blak | 05.06.2012
Fjöruhreinsunin verður fimmtudaginn 7 og sunnudaginn 10 júní og
hefst kl. 16 báða dagana.
Fullorðnir blakarar mæti við bensínstöð N1 en blakkrakkar og
foreldrar þeirra mæti inni við Kofrahúsið, þar sem skipt verður niður svæðum.
Ætlast er til þess að krakkar í 3, 4. og 5. flokki mæti og gott ef
foreldrar komast með. Einnig er reiknað með öllum þeim fullorðnum
iðkendum sem farið hafa á mót síðastliðið ár.
Þetta er verkefni sem þarf að vinnast á fjöru og óvíst hvenær sjávarföll verða
hagstæð á næstunni. Þess vegna reynum við að klára þetta á þessum tveimur dögum
og munum að klæða okkur eftir aðstæðum. Reiknað er með að við getum verið
að í 2-3 tíma hvorn dag.
Fjöruhreinsunin er ein af fáum öruggum fjáröflunum Blakfélagsins
Skells og því mjög mikilvægt að allir iðkendur og foreldrar taki þátt í þeim
hluta blakstarfsins.
Nánar
Blak | 25.05.2012
Slútt yngri flokka Skells verður haldið á strandblakvöllunum á Þingeyri mánudaginn 28. maí (annar í Hvítasunnu) á strandblakvellinum á Þingeyri. Við byrjum kl. 14:30, leikum okkur í blaki og grillum pylsur. Krakkarnir þurfa að koma með 500 kr. en innifalið í því eru pylsurnar og glaðningur fyrir alla. Þeir sem fara frá Ísafirði hittast við Torfnes kl. 13:30 til að raða í bíla.
Nánar
Blak | 03.05.2012
Öldungamótið í ár bar nafnið Trölli 2012 og var haldið á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík. Skellur sendi tvö lið: Eitt karlalið og eitt kvennalið.
Kvennalið Skells náði takmarki sínu og sigraði 5. deildina og spilar því í 4. deild að ári. Taka ber fram að kvennadeildirnar voru 13 talsins á þessu móti. Skellsliðið var sterkt og vel samæft og spilaði af fullum krafti allan tímann. Skellur vann 5 leiki en tapaði naumlega á móti sterku liði heimakvenna í Rimum (Dalvík) í oddahrinu kl. 23 á sunnudagskvöldinu - þrátt fyrir að vera dyggilega studdar af fjörugu karlaliði Skells. Það kom þó ekki að sök og efsta sætið í deildinni staðreynd.
Gengi karlaliðsins var sveiflukenndara en þeir áttu mjög góða kafla inn á milli. Þeir unnu 3 leiki en töpuðu 3. Þrátt fyrir það rétt náðu þeir að hanga uppi í deildinni á nánast minnsta mögulega mun sem sýnir hvað þessar deildir eru oft jafnar. Það fara tvö lið upp úr deildinni og tvö lið niður. Skellur voru með jafnmörg stig og Þróttur Nes 2 sem féllu og sama hrinuhlutfall, stigahlutfallið var nánast það sama en þegar það er skoðað með þriðja aukastaf hefur Skellur betur. Ef þeir hefðu skorað 2 færri stigum samtals í einhverjum hrinum hefðu þeir fallið - en það var að sjálfsögðu aldrei hætta á því!
Mótið var vel skipulagt og frábært að spila og dvelja á þessum stöðum. Liðin fengu tvö hús á Sigló til að gista í og voru þau hlið við hlið. Þetta var fjölmennasta öldungamótið til þessa og stemmningin ólýsanleg. Næsta mót verður haldið í Kópavogi og eru HK gestgjafarnir.
Nánar
Blak | 25.04.2012
Karla- og kvennalið Skells munu taka þátt í öldungamóti Blaksambandsins sem haldið verður á Tröllaskaganum um helgina. Nánar tiltekið á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík. Markmið beggja liða er að ná í verðlaunapeninga og helst að komast upp um deild. Kvennalið Skells er nú í 5. deild af 13 kvennadeildum og karlaliðið er í 4. deild af 5 karladeildum í flokki öldunga. Tvö efstu liðin í hverri deild fara upp, og þau tvö neðstu falla.
Svo er markmiðið að sjálfsögðu einnig að eiga frábæra helgi með skemmtilegu fólki á fallegum stað. Liðin hafa tekið sitt hvort húsið á leigu á Siglufirði en húsin eru hlið við hlið. Á mótið eru skráð 142 lið, þar af 98 kvennalið og 44 karlalið. Þetta er ótrúlegur fjöldi liða og þrátt fyrir að boðið sé upp á þrjú stór íþróttahús með þremur blakvöllum í hverju húsi þarf að spila leiki langt fram eftir kvöldi. Það er bara stemmning yfir því og leikmenn Skells hlakka mikið til mótsins.
Áfram Skellur!!!!
Nánar