Fréttir - Blak

Veðrið setur strik í reikninginn

Blak | 20.05.2011 Slúttið í krakkablakinu verður í íþróttahúsinu á Suðureyri milli 11 og 13 á morgun, laugardag. Ekki viðrar til útivistar í Raggagarði. Foreldrar og krakkar þurfa að muna að koma með innanhússskó og vera tilbúin í blak og leiki.

Fjöruhreinsunin verður við fyrsta tækifæri þegar snjóa leysir. Nánar

Slútt í krakkablakinu og fjöruhreinsun

Blak | 17.05.2011

Lokahófið í krakkablakinu verður haldið í Raggagarði, Súðavík laugardaginn 21 mai 2011, klukkan 11 - 13. Foreldrar og systkini eru velkominn með. Farið verður í leiktækin, leiki og veittar verða viðurkenningar. Einnig verða grillaðar pylsur í boði félagsins. Nauðsynlegt er að klæða sig eftir veðri.


Látið vita ef einhvern vantar far:

Kiddi, <mailto:kme@simnet.is> kme@simnet.is gsm: 8981050
Harpa, <mailto:harpa@vedur.is> harpa@vedur.is gsm: 8430413

Við stefnum á hina árlegu fjöruhreinsun á fimmtudaginn 19. maí kl. 16. Meistaraflokkarnir og 4. og 5. flokkur taka þátt í henni. Mikilvægt er að allir komi því þetta er ein helsta fjáröflunin okkar. Fullorðnir hittast við N1 bensínstöðina og krakkarnir (ásamt foreldrum) hittast við Bónus.

Nánar

Skemmtilegt öldungamót í Eyjum

Blak | 11.05.2011 Blakfélagið Skellur átti tvö lið á öldungamótinu í Vestmannaeyjum sem fram fór um síðustu helgi, eitt karla- og eitt kvennalið. Á mótinu var keppt í fimm deildum öldunga karla, einni deild ljúflinga karla og 12 deildum öldunga kvenna, samtals voru þetta 125 lið.

Karlalið Skells er í 4. deild öldunga og er óhætt að segja að liðið hafi vaxið með hverjum leik á mótinu. Fyrstu fjórir leikirnir töpuðust, en margir þeirra stóðu þó tæpt. Síðasta daginn vann Skellur síðan báða sína leiki sannfærandi og forðaði sér þar með frá falli. Síðasti leikur Skells var eftirminnilegur. Þá spiluðu þeir við lið sem kallast „Massadjamm“ en það lið er þekkt fyrir óvæntar uppákomur og skemmtilegheit á öldungamótum. Fyrir þennan leik höfðu þeir pantað litla lúðrasveit úr Eyjum sem marseraði inn á völlinn í upphafi leiks og hélt uppi miklu stuði allan leikinn. Áhorfendur flykktust á leikinn og þótt flestir þeirra héldu með stuðboltunum í Massadjammi unnu karlarnir okkar sannfærandi sigur, dyggilega studdir af kvennaliði Skells.

Kvennalið Skells byrjaði mótið vel í 5. deild og vann þrjá fyrstu leikina sína. Síðan tapaði liðið fyrir feiknasterku liði HK United. Þá var ljóst að næsti leikur við Aftureldingu gæti orðið úrslitaleikur um 2. sætið í deildinni og jafnframt um sæti í 4. deild að ári. Sá leikur tapaðist naumlega í oddahrinu. Síðasti leikurinn varð þá úrslitaleikur við Bresa um 3. sætið og í honum sýndu Skells-konur allar sínar bestu hliðar, unnu leikinn örugglega og tryggðu sér bronsið.

Vestmannaeyjar skörtuðu sínu fegursta allan tímann og stemmningin á mótinu hreint frábær. Reyndar þurfti að flýta ferð Herjólfs heim á sunnudegi vegna þess að aðeins var hægt að sigla í Landeyjahöfn á flóði og því þurftu menn að rífa sig upp klukkan 6 á sunnudagsmorgni og þramma niður í bát - en veðrið var svo fallegt að það kom ekki að sök. Nánar

Páskafrí hjá krökkunum

Blak | 18.04.2011

Engar blakæfingar verða hjá yngri flokkum Skells í páskavikunni, þ.e. 18., 19. og 20. apríl.  Æfingar byrja aftur samkvæmt stundatöflu þriðjudaginn 26. apríl. Síðustu æfingar fyrir sumarfrí verða þann 3. maí, en þó verður slúttið haldið í kringum miðjan maí. Það verður nánar auglýst síðar.

Gleðilega Páska

Nánar

Frábær ferð á Íslandsmót - Skellur Íslandsmeistari A-liða í 5. flokki

Blak | 05.04.2011  

Það er óhætt að segja að ferðin á seinni hluta Íslandsmótsins í Mosfellsbæ um helgina með yngri flokka Skells hafi tekist vel. Krakkarnir stóðu sig eins og hetjur öll sem eitt og voru félaginu til sóma jafnt utan valla sem innan.  Hér að neðan er fyrst farið yfir árangur liðanna á mótinu og síðan kemur ferðasagan í stuttu máli. Myndir úr ferðinni eru komnar inn á myndasíðuna.

 

A-lið Skells í 5. flokki náðu þeim ótrúlega árangri að verða Íslandsmeistarar A-liða eftir mikla baráttuleiki þar sem þessir krakkar sýndu svo sannarlega úr hverju þau eru gerð. Þetta er sama lið og varð Íslandsmeistari C-liða í fyrra og nú eins og þá áttu þau í mikilli baráttu við sprækt og skemmtilegt lið Aftureldingar um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin tvö voru jöfn að stigum eftir báðar umferðir Íslandsmótsins en Skellur hafði tapað einni færri hrinu og fengu því bikarinn. Þau voru farin að spila einstaklega fallegt blak undir lok mótsins í Mosfellsbæ með móttöku og smössum sem meistaraflokkarnir okkar hefðu verið fullsæmdir af. Það væri gaman að vita hvort mörg lið í boltaíþróttum á Ísafirði hafi orðið Íslandsmeistarar A-liða áður.

B-lið Skells í 5. flokki náðu í bronsið í deild B-liða sem er mjög góður árangur. Liðið er samsett úr leikmönnum frá bæði Suðureyri og Ísafirði. Þau náðu sterkri liðsheild og spiluðu öruggt og gott blak sem skilaði þeim á verðlaunapall.

C-lið Skells í 5. flokki endaði í 7. sæti í deild B-liða stúlkna. Liðið skipa ungar stúlkur frá Suðureyri sem eru flestar að spila upp fyrir sig og eiga því framtíðina fyrir sér í blakinu og verður gaman að sjá þær blómstra á næstu mótum. Þær eru kappsamar og duglegar og miklar íþróttakonur.

Lið Skells í 4. flokki stúlkna endaði í 8. sæti í deild B-liða stúlkna. Þær eru að keppa við mjög erfið lið á þessum mótum en Skells-liðið óx og dafnaði með hverjum leik. Undir lokin var komið fallegt spil hjá þeim sem mun halda áfram að þróast.

 

Við flugum frá Ísafirði í fallegu veðri í hádeginu á föstudegi 1. apríl. Flogið var yfir Súgandafjörð, Dýrafjörð og Arnarfjörð og hafði Jamie þjálfari það á orði að hugsanlega væri þetta það fallegasta sem hún hefði nokkurn tímann séð. Við keyrðum með krakkana beint upp í Egilshöll þar sem farið var á skauta. Allir skemmtu sér vel og sjá mátti ýmiss góð tilþrif á svellinu. Sumir komust meira að segja í íshokkí. Eftirköstin urðu hinsvegar nokkrar blöðrur á iljum, en það kom ekki mikið að sök. Eftir skauta var borðað nesti og skemmtiatriði æft. Þeir sem áttu leið um Egilshöll fengu því óvænta skemmtun. Allir fóru í bíó kl. 17:20 á þrjár mismunandi myndir. Eftir bíó var farið á Hróa Hött í Mosfellsbæ og flatbökur hurfu ofan í svanga krakka. Síðan var farið í skólann þar sem við gistum. Það er alltaf mikið fjör að hitta krakkana frá hinum liðunum og þau eru farin að kannast hvert við annað.

Á laugardeginum var spilað blak allan daginn og síðan farið í sund fyrir kvöldmat. Eftir kvöldmat var kvöldvaka þar sem voru ýmiss skemmtiatriði og leikir. Krakkarnir okkar sungu öldungalagið frá Ísafirði "smass yfir netið" og dönsuðu með og sýndu ýmsar kúnstir. Venni spilaði undir af stakri snilld. Myndir frá kvöldvökunni segja meira en mörg orð.

Á sunnudeginum átti hvert lið einn leik, og svo heppilega vildi til að þeir voru allir á sitt hvorum tímanum þannig að krakkarnir gátu hvatt hvert annað. Síðan tók við svolítil bið eftir verðlaunaafhendingu því mótshaldarar þurftu að reikna niðurstöður tveggja móta. Meðal annars þurfti að fara vel yfir stöðuna í deild A-liða í 5. flokki þar sem Skellur og Afturelding voru nánast hnífjöfn í fyrsta sætið, en eins og áður segir náði Skellur bikarnum á færri töpuðum hrinum. Þegar liðin okkar voru búin að fá sín verðlaun þurftum við að hlaupa út í bíl og beint á flugvöllinn. Flugið heim var líka einstaklega skemmtilegt í góðu veðri þar sem flogið var niður Engidalinn. Gott var að komast aftur í sólina á Ísafirði eftir dvölina í íþróttahúsinu.

 

Nánar

Skellur með brons í 3. deild - Jamie besti leikmaðurinn

Blak | 26.03.2011 Kvennalið Skells lenti í 3. sæti í 3. deild kvenna. Skellur hafði unnið alla sína leiki í deildinni í vetur, en fyrirkomulagið var þannig að í lokin var spilað til undanúrslita og svo til úrslita. Í undanúrslitaleiknum biluðu taugarnar örlítið og Skellur tapaði honum og spilaði þess vegna um 3. sætið. Sá leikur vannst í skemmtilegum baráttuleik við Víking Reyni og því fór bronsið til Skells. Það var pínu sárt að lenda ekki ofar því Skellur hefur unnið 16 af 17 leikjum í deildinni í vetur, en það þurfti víst að vinna réttu leikina. En brons er fallegt líka og þetta er besti árangur Skells á Íslandsmótinu í blaki.

Þjálfari Skells, Jamie Landry var síðan valin besti leikmaður 3. deildar, enda hefur hún spilað feikilega vel í vetur bæði í sókn og vörn. Góður endir á góðu tímabili hjá þjálfaranum, en hún er of ung til að spila með á öldungamótinu sem verður í Vestmannaeyjum í maí og er næsta stóra verkefnið hjá Skelli Nánar

Úrslitamót 3. deildar - allt undir

Blak | 25.03.2011

Meistaraflokkur kvenna keppir nú á lokamótinu í 3. deild Íslandsmótsins í blaki. Liðið hefur náð einstaklega góðum árangri í vetur og er enn taplaust í 3. deild. Það hjálpar þó lítið fyrir þetta lokamót þar sem stigin flytjast ekki áfram. Keppt verður í tveimur riðlum og munu efstu tvö liðin úr hvorum riðli spila í kross til undanúrslita og síðan verður úrslitaleikur um 1. sætið í 3. deild. Efsta liðið tryggir sér sæti í annarri deild á næsta tímabili.

Skellsliðið er í feiknaformi um þessar mundir og mun gera allt til að fylgja eftir góðum árangri í vetur. Þó mun vanta einn sterkan leikmann sem hefur verið drjúgur á mótum vetrarins, þar sem Sara kemst ekki með á mótið. Á móti kemur að breiddin í liðinu er það góð að þetta ætti ekki að koma að sök.

Áfram Skellur!

Nánar

Ferðin á Íslandsmótið

Blak | 23.03.2011

Föstudagur 1. apríl
12:30 Mæting í flug. Allir þurfa að vera búnir að borða hádegismat.
14:00 Farið upp í Egilshöll á bílaleigubílum og einkabílum
14:30 Farið á skauta í Egilshöll - skautar verða leigðir á staðnum
16:00 eða 17:00  Bíó í Egilshöll, popp og drykkur fyrir alla
19:00 Kvöldmatur á veitingastað
20:30 Farið í Mosfellsbæ þar sem gist verður í skóla

Laugardagur 2. apríl
Mót allan daginn.
Upplýsingar um leiki verða á www.krakkablak.bli.is
Kvöldvaka um kvöldið

Sunnudagur 3. apríl
Mót fram yfir hádegi
Farið heim með seinna flugi

Kostnaður: kr. 9000 á barn, greiðist í síðasta lagi á miðvikudag 30. mars
Inni í því er:
Flugfar
Bílaleigubílar
Skautar
Bíó, popp og drykkur
Matur á föstudagskvöldi
Gisting
Morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur á laugardegi
Morgunmatur og hádegismatur á sunnudegi
Ávextir og annað nasl á mótinu
Mótsgjöld
ATH: Ekki má koma með auka vasapening

Það sem þarf að taka með:
Svefnpoki/sæng
Dýna
Hnéhlífar
Skór
Upphitunargalli

Þjálfarar og fararstjórar: Jamie, Harpa, Þorgerður, Sólveig, Venni, Gunnar Páll, Alda

Nánar

Krakkablak - æfingar og Íslandsmót

Blak | 23.03.2011 Æfingar hjá 4. og 5. flokki falla niður á föstudaginn vegna ferðar meistaraflokks kvenna á 3. deildar mót. Í staðinn verður samæfing á Suðureyri á fimmtudaginn kl. 16-18. Farið verður með rútunni kl. 15 frá Ísafirði og komið aftur með rútu kl. 19. Jamie fer með krökkunum í rútuna - og er ætlunin að hittast í strætóskýlinu við Stjórnsýsluhúsið. Allir þeir sem eru að fara á Íslandsmót ættu að mæta og allir hinir eru velkomnir líka. Það væri gott fyrir börnin að taka með smá nesti og sundföt.

Æfingin hjá 7. flokki (1.-4. bekk) verður eins og venjulega kl. 13 á föstudaginn.

Íslandsmótið fyrir 4. og 5. flokk verður helgina 1.-3. apríl. Upplýsingar eru undir tenglinum krakkablak hér til hliðar. Nánar

Ólympíuleikarnir og veðrið

Blak | 06.03.2011 Veðrið leikur ekki beinlínis við okkur fyrir útiþrautirnar en við ætlum samt að halda okkur við þær - enda enginn verri þótt hann vökni, nú eða fjúki :-).  Við hittumst í andyrinu í Torfnesi kl. 12 og förum svo út í svona 30-40 mínútur áður en við komum inn aftur. Ef einhverjir treysta sér ekki til að vera úti geta þeir mætt 12:45 í inniþrautirnar. Nánar