Knattspyrna | 27.08.2009
Þar sem veðurspáin er okkur ekki hliðholl um helgina hefur verið ákveðið að klára allt mótið á sunnudeginum. Munu leikir þá hefjast á Torfnesvelli kl. 10 á sunnudagsmorguninn og þegar þeim er lokið munum við halda inn í Tungudal þar sem 4. 5. og 6. flokkar stráka og stelpna fá að spreyta sig í drullunni. Miðað er við að hvert lið fái einungis tvo leiki og mun markatala og stigafjöldi ráða þegar að úrslitum kemur.
Svo ætlum við að grilla smáræði áður en allir halda heim og horfa á Ísland vinna Þýskaland á EM kvenna í Finnlandi.
Munið að vera vel búin og foreldrar - gerið ráðstafanir vegna drullugra barna á heimleiðinni.
Góða skemmtun!
Nánar
Knattspyrna | 26.08.2009
BÍ88 heldur mót um helgina, svona til að slútta viðburðaríku tímabili hjá öllum flokkum. Nú verður bryddað upp á þeirri nýjung að á laugardeginum verður leikinn hefðbundinn fótbolti á gervigrasinu við Torfnes en á sunnudeginum færum við okkur inn í Tungudal og spilum eins og við getum í drullunni - eins og fullorðna fólkið. Fyrirvarinn er stuttur svo nú verður að hafa hraðar hendur.
Unnið er að leikjaplani fyrir bæði mót og verða þau sett hér inn um leið og þau verða tilbúin. Þess ber þó að geta að drulluboltinn er ekki ætlaður 7. eða 8. flokki þar sem þau standa varla upp úr leðjunni og því væri færið dálítið erfitt fyrir þau.
Veðurspáin er ekki góð eins og staðan er í dag (rok og rigning) svo að huga verður að búnaði krakkanna. Reynt verður að búa til skjól eftir þörfum á staðnum til að halda hita á liðunum en fólk verður að gera ráð fyrir einhverjum búnaði til að koma krökkunum heim eftir leiki og svo því hvernig þau eru klædd meðan á húllumhæinu stendur. Mikilvægast er þó að notast ekki við dýran eða vandaðan skóbúnað í drullunni enda getur hann týnst eða skemmst. Lengd leikjanna verður haldið í lágmarki svo að enginn ofkælist.
Mestu skiptir þó að hafa gaman af og gleyma veðrinu, ef það er hægt. Við sjáumst því öll um helgina, hress og kát og öll á tánum.
Nánar
Knattspyrna | 25.08.2009
Æfingar hjá strákunum verða út þessa viku á miðvikudag, fimmtudag og föstudag, alltaf kl 15:15.
Það verður frí hjá þeim á þriðjudag, og svo tekur við einhversskonar millibils æfingatafla sem sett verður hérna inn þegar hún er tilbúin..
Þetta lítur þá svona út hjá þeim út þessa viku:
Þriðjudagur: Frí
Miðvikudagur: æfing kl 15:15 á gervigrasinu
Fimmtudagur: æfing kl 15:15 á gervigrasinu
Föstudagur: æfing kl 15:15 á gervigrasinu
Svo þar sem veðrið er farið að verða svolítið slæmt, þá vil ég bara minna foreldra á það, að láta drengina klæða sig eftir veðri, stuttbuxur eru t.d. ekki nægilega góður klæðnaður í haustroki og rigningu.
Ef þannig viðrar, þá gætu drengirnir verið sendir heim ef þeir eru ekki nægilega vel klæddir, til þess að þeir verði ekki veikir.
Ef einhverjar spurningar eru, endilega ekki hika við að hringja, síminn hjá mér er sem fyrr 8944972
Kv. Sigþór Snorrason
Nánar
Knattspyrna | 20.08.2009
Nú eru BÍ sokkarnir til sölu hjá Hárkompaní.
Sokkarnir fást í tveimur litum, hvítir og svartir.
Þrír saman í pakka á kr. 2.000.-
Nánar
Knattspyrna | 12.08.2009
Góðan dag fótboltakappar! Nú fer að líða að lokum þessarar sumarvertíðar og stutt í skólann. Eins og þið munið örugglega var ekkert Landsbankamót í júní eins og verið hefur síðustu tvö ár en það er vegna þess að við ákváðum að ljúka sumartímabilinu með þessu móti hér á Ísafirði. En nú styttist í það!
Mótið verður með nýju sniði þetta árið en nú spilum við hefðbundinn fótbolta á laugardeginum 29. ágúst en svo munum við færa okkur um set og leika okkur í drullunni í Tungudal þar sem við höldum Evrópumót barna og unglinga í mýrabolta! Þá er nú eins víst að einhverjir skemmti sér. Vellirnir munu verða minnkaðir þannig að dýpstu drullupollarnir verða aflagðir og svo verðum við með tjald og annað á staðnum til að hlífa keppendum ef veðrið verður okkur óhagstætt.
Ætlunin er að mótið verði með þessu sniði í framtíðinni en þá munum við stíla inn á að halda það fyrr í ágúst.
Skemmtið ykkur vel!
Nánar
Knattspyrna | 24.07.2009
Jæja, fótboltakappar! þá er leikplan morgundagsins komið inn á vefinn, það finnst undir liðnum "Gögn fyrir foreldra" hér til vinstri. Þetta hefst allt kl. 9:00 (mæting í síðasta lagi kl. 8:30 við grunnskólann, 8:45 hefst marséring inn á völl) og ætti að vera búið upp úr kl. 16:00.
Hafið nóg af fötum með ykkur og góða skapið auk góðs skammts af góðri íþróttamannslegri hegðun og þá eru allir tilbúnir í bátana. Gangi ykkur vel!
Nánar
Knattspyrna | 23.07.2009
Laugardaginn 25. júlí verður Sparisjóðsmót UMFB haldið í Bolungarvík.
Keppendur mæta við Grunnskólann um kl. 8:30 á laugardaginn og halda í skrúðgöngu kl. 8:45 uppá völl.
Keppnisgjald er 3000 kr. á keppanda. Innifalið í því er leikir, frítt í sund, grill í hádeginu á laugardag og verðlaun og gjöf í mótslok.
Dagskrá mótsins
8:30 Mæting við Grunnskóla Bolungarvíkur, haldið af stað á vallarsvæði kl. 8:45.
9:00 Setning móts.
9:30 Leikir hefjast samkvæmt leikjaplani.
12:00-14:00 Grillveisla á palli við Hrafnaklett, liðsstjórar fara með sín lið þegar þeim hentar samkv. Leikjaplani.
11:00-16:00 verður hoppikastali á vallarsvæði.
Sölutjald verður á svæðinu á meðan á mótinu stendur, þar verða til sölu samlokur, drykkir, kaffi, kakó og ýmislegt annað góðgæti. Allur ágóði sölunnar rennur til yngri flokka knattspyrnudeildar umfb.
.
Verðlaunaafhending verður á vallarsvæði í mótslok.
Allir með armband fá frítt í sund.
Nánar
Knattspyrna | 21.07.2009
Á meðan fótboltabúðirnar eru í gangi er æfingatíminn annar fyrir þá krakka sem ekki eru í búðunum. Tveir flokkar æfa saman, bæði stelpur og strákar og verða æfingar á þessum tímum:
mánudagur
12.00-13.30 6.-7.flokkur Þjálfarar: Stella og Sigþór
13.30-15.00 4.-5. flokkur Þjálfarar: Birna og Dóri
þriðjudagur
12.00-13.30 4.-5. flokkur Þjálfarar: Stella og Sigþór
13.30-15.00 6.-7. flokkur Þjálfarar: Nonni og Birna
miðvikudagur
12.00-13.30 4.-5. flokkur Þjálfarar: Birna og Sigþór
13.30-15.00 6.-7. flokkur Þjálfarar: Nonni og Dóri
fimmtudagur
12.00-13.30 6.-7. flokkur Þjálfarar: Dóri og Sigþór
13.30-15.00 4.-5. flokkur Þjálfarar: Stella og Nonn
Nánar
Knattspyrna | 16.07.2009
BÍ88 og samstarfsaðilar halda knattspyrnubúðir á Ísafirði dagana 19.-24. júlí. Búðirnar eru fyrir 3.-7. flokk þar sem flokkarnir mæta sem hér segir:
5.-7. flokkarnir yrðu frá kl. 9:00-12:00 alla dagana
3. og 4. flokkarnir kl. 15:00-16:15.
Skólinn er bæði fyrir stráka og stelpur.
Boðið verður upp á létta hressingu alla dagana og svo munu krakkarnir fá óvænta heimsókn.
Þjálfarar eru:
Magni Fannberg sem hefur þjálfað yngri flokka Vals, verið aðstoðarþjálfari hjá Grindavík, aðalþjálfari Fjarðabyggðar og er nú á leið til Svíþjóðar í ungmennaþjálfun,
Þórður Jensson aðstoðarþjálfari mfl. kvenna hjá Val og
Jón Páll Pálmason, þjálfari 3. og 5. flokks drengja hjá FH.
Verð er kr. 6500.- á mann, systkinaafsláttur er 50% fyrir annað systkini og frítt fyrir það þriðja.
Æfingar verða haldnar kl. 12-15 fyrir þá krakka sem ekki komast í búðirnar, þannig að enginn missir af fótbolta þessa viku.
Nánar
Knattspyrna | 08.07.2009
Glæsimark Gunnlaugs dugði ekki til sigurs
Frábært mark Gunnlaugs Jónassonar dugði sameinað knattspyrnuliði Ísafjarðar og Bolungarvík ekki til sigurs þegar liðið gerði jafntefli við stjörnuprýtt lið Gróttu á Skeiðisvelli í Bolungarvík í gær. Leikurinn var hinn ágætasta skemmtun, enda mikið um dramatík, sérstaklega í seinni hálfleik.
Leikurinn byrjaði rólega og virtust bæði lið vera að þreifa fyrir sér án þess að taka mikla áhættu. Leikurinn var jafn og bæði lið spiluðu ágætlega á milli sín, en lítið var um færi og ekkert mark skorað. Staðan í hálfleik 0-0.
Það lifnaði heldur betur yfir leiknum í seinni hálfleik en heimamenn mættu dýrvitlausir til leiks og ætluðu sér greinilega öll stigin þrjú. Eftir nokkurra mínútna leik barst boltinn til Gunnlaugs á hægri kantinum. Hann setti stefnuna beint á markið og lék inn í teiginn, valhoppandi framhjá varnarmönnum Gróttu áður hann lét vaða á markið með vinstri fæti. Boltinn sveif beint upp í markvinkilinn, framhjá fyrrum landsliðsmarkverðinum Kristjáni Finnbogasyni. Glæsilegt mark.
Fögnuður heimamanna stóð stutt. Aðeins nokkrum mínútum síðar barst boltinn inn í vítateig BÍ/Bolungarvík þar sem sóknarmaður Gróttu féll með tilþrifum. Dómarinn hikaði ekki við að dæma vítaspyrnu þrátt fyrir mótmæli heimamanna og hlaut hann mikla gagnrýni hjá áhorfendum sem voru ekki sáttir við dómgæsluna. Grótta skoraði úr vítinu og því staðan jöfn, 1-1.
Vestfirðingar létu ekki deigan síga og börðust eins og ljón, en Grótta átti ekkert í baráttumikla heimamenn. Um miðjan síðari hálfleik fengu BÍ/Bolungarvík sannkallað dauðafæri. Eftir þunga sókn barst boltinn að Óttari Bjarnasyni sem var einn og óvaldaður við mark Gróttu en markvörður Gróttu lá þá á jörðinni. Óttar náði þá, á einhvern undraverðan hátt, að skjóta boltanum í stöngina og út, en auðveldara hefði sennilega verið að koma honum í markið.
Heimamenn gáfust aldrei upp og börðust fram á síðustu mínútu, það dugði þó ekki til sigurs og endaði leikurinn með jafntefli, 1-1. Maður leiksins: Gunnlaugur Jónasson. Frábært mark og einkennandi fyrir baráttu heimamanna í leiknum.
Eftir leikinn er BÍ/Bolungarvík í fimmta sæti 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðið hefur 14 stig að níu umferðum loknum en liðið hefur gert fimm jafntefli á leiktíðinni. Næsti leikur liðsins er á laugardag þegar BÍ/Bolungarvík heldur suður í Hveragerði þar sem það mæti liði Hamars á Grýluvelli.
Nánar