Knattspyrna | 04.01.2011
BÍ/Bolungarvík hefur keypt markvörðinn Þórð Ingason frá Fjölni en þetta staðfesti Guðjón Þórðarson þjálfari liðsins við Fótbolta.net í dag. Þórður gerði tveggja ára samning við BÍ/Bolungarvík.
,,Við erum að semja við ungan og efnilegan markmann. Ég hlakka til að vinna með honum og bæta hann. Um leið og hann bætir sig þá bætir hann okkur," sagði Guðjón við Fótbolta.net í dag.
Róbert Örn Óskarsson varði mark BÍ/Bolungarvíkur á síðasta tímabili en hann hætti hjá liðinu fyrir áramót.
Nú er ljóst að Þórður kemur í hans stað en þessi 22 ára gamli markvörður er uppalinn hjá Fjölni. Á síðasta tímabili var Þórður í láni hjá KR þar sem hann lék tvo leiki í Pepsi-deildinni. Áður lék Þórður 69 deildar og bikarleiki með Fjölnismönnum en hann var einnig í láni hjá Everton í nokkra mánuði árið 2006. Þórður á sautján landsleiki að baki með yngri landsliðum Íslands en hann er ennþá gjaldgengur í U21 árs landsliðið og var kallaður inn í hópinn fyrir fyrri leikinn gegn Skotum síðastliðið haust.
Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina:
http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=102225#ixzz1A4lN2sEL
Nánar
Knattspyrna | 24.12.2010
BÍ/Bolungarvík óskar stuðningsmönnum nær og fjær, sem og landsmönnum öllum, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, með þökk fyrir stuðningin á árinu sem er að líða. Hafið það sem allra best um jólin og án ykkar hefði sumarið aldrei orðið eins gott og raun bar vitni.
Með fótboltajólakveðju,
Áfram BÍ/Bolungarvík!
Nánar
Knattspyrna | 17.12.2010
Jón Hálfdán Pétursson hefur verið ráðinn sem yfirþjálfari yngri flokka BÍ88. Í því felst að hann skal hafa yfirumsjón með starfi yngri flokka auk umsjónar og aðlögunar í starfi annarra þjálfara félagsins. Þar telst eftirfylgni, tækniráðgjöf, þjálfunarráðgjöf, tækniprófanir og önnur fagleg yfirumsjón yngri flokka. Yfirþjálfari heyrir beint undir stjórn unglingaráðs BÍ88.
Um leið er Jón Hálfdán ráðinn starfsmaður félagsins. Í því felst fyrst og fremst aðstoð við stjórnir félagsins, þ.e. stjórn unglingaráðs og stjórn meistaraflokksráðs og önnur störf eins og:
- samskipti við KSÍ (félagaskipti, mótamál, dagsetningar leikja, heimsóknir aðila, námskeiðahald, fræðslumál, lög og reglur)
- rukkanir æfingagjalda í samráði við gjaldkera
- daglegt starf í samráði við stjórnir (samskipti við HSV og önnur félög/sambönd, aðstoð við mótahald (leikjaniðurröðun og skipulag), umsjón skrifstofu)
- aðstoð við þjálfara við skipulag ferða (æfinga- eða keppnisferða) þar sem starfsmaður skal taka saman og láta í té upplýsingar um kosti og kjör við ferðalög og gistingu.
- uppfærsla á vefsíðu félagsins og samskipti við foreldra, styrktaraðila og aðra þá er að starfinu koma.
Þá er Jón Hálfdán einnig ráðinn þjálfari 2. flokks karla hjá BÍ88. Í því felst stjórn allra æfinga á vegum flokksins, skipulag/ákvörðun æfinga- og keppnisferða og annað það starf er að þjálfuninni lýtur. Um leið tekur hann að sér afreksbraut MÍ í knattspyrnu en þar eru æfingar tvisvar í viku, frá kl. 6:30-8:00 í samráði við skólann.
Stofnað hefur verið foreldraráð í 2. flokki Jóni Hálfdán til aðstoðar og mun það koma að tekjuöflun starfsins, skipulagi, fararstjórn og annarri þeirri aðstoð sem Jón Hálfdán óskar eftir.
Boltafélagið lýsir yfir ánægju sinni með ráðningu Jón Hálfdáns og býður hann velkominn til starfa. Megi það verða gæfuríkt og gefandi.
Nánar
Knattspyrna | 12.12.2010
BÍ/Bolungarvík tók á móti nýsameinuðu liði, Tindastól/Hvöt síðastliðinn laugardag. Leikmenn voru mættir um kl.11 upp á skaga og við tók djús og ristað brauð. Eftir það var töflufundur og síðan hófst leikurinn kl.13. Í markinu lék markmaður sem við fengum lánaðan frá ÍA í leikinn.
Byrjunarliðið var þannig skipað:
Lánsmðaur - Sigþór, Sigurgeir, Atli, Haffi - Gunnar Már, Sölvi, Alexander - Matti, Óttar og Andri.
Á bekknum sátu þeir Ásgeir Guðmunds, Axel Lárusson og Arnór Þrastarson.
Við byrjuðum leikinn mun betur og vorum fljótlega komnir í 1-0 eftir laglega sókn. Matti átti þá góða fyrirgjöf frá hægri sem Gunnar Már skallaði laglega í netið. Tindastóll/Hvöt voru sprækir um miðbik hálfleiksins og áttu margar flottar sóknir. Þeir sköpuðu samt enga verulega hættu fyrir framan mark okkar. Dómarinn gaf þeim þó vítaspyrnu sem var vægast sagt ódýr en markmaðurinn okkar varði vítið auðveldlega. Staðan 1-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu og lítið um fallegar sóknir. Við náðum þó að komast í 2-0 eftir skyndisókn um miðjan hálfleikinn. Aftur var það Matti sem gaf fyrir markið og á fjærstöng var Arnór Þrastarson mættur og skoraði örugglega. Í lokin náðu Tindastóll/Hvöt að setja smá pressu á okkur, þeir voru með mun stærri hóp og við orðnir þreyttir að mæta óþreyttum leikmönnum. Þeir minnkuðu muninn í lokin og þar við sat. 2-1 sigur staðreynd.
Þetta var góður sigur þó spilið hafi verulega höktað. Eftir að við komumst mjög snemma yfir í leiknum, eftir að hafa stjórnað honum, þá var eins og menn hafi slappað af og haldið að hlutirnir gerðust að sjálfu sér. Sigurinn var þó fyllilega sanngjarn og ef menn hefðu spilað eins og menn allan leikinn hefðum við unnið mun stærri sigur. Tindastóll/Hvöt voru sprækir en spurning er hvort lið þeirra er nógu gott í 2.deild. Heyrst hefur að þeir séu einnig að reyna sameinast Kormáki frá Hvammstanga, Smárinn frá Varmahlíð og Neista Hofsósi. Mun það verða fyrsta liðið sem tekur þátt á íslandsmóti og inniheldur fjögur skástrik í nafni liðsins, Tindastóll/Hvöt/Kormákur/Smárinn/Neisti.
Nánar
Knattspyrna | 04.12.2010
BÍ/Bolungarvík tók á móti Leikni Reykjavík á Akranesi kl.13 í dag. Fyrir viku síðan töpuðu okkar menn illa fyrir ÍA en leikurinn var þó góð kennslustund. Menn tóku daginn snemma og voru komnir upp á skaga kl.11 þar sem Gaui reiddi fram ristað brauð og ávexti. Eftir að menn höfðu fengið næringu var komið að töflufundi þar sem Guðjón tók varnarleikinn í gegn hjá okkar mönnum og sýndi þeim nokkur grunnatriði í varnarleik. Tveir nýjir leikmenn tóku þátt í leiknum sem ekki hafa verið með okkur áður. Þetta voru þeir
Tórður Thomsen markmaður sem spilaði seinast með færeysku meisturunum í HB og
Alexander Veigar Þórarinsson sem spilaði í sumar með Fram. Einnig lék Birkir Halldór Sverrisson fyrsta leik sinn með okkur eftir nokkurt hlé en hann hóf æfingar fyrir stuttu.
Byrjunarliðið var þannig skipað:
Tórður Thomsen - Haffi,
Atli Guðjónsson, Birkir, Sigurgeir - Sigþór, Gunnar Már,
Sölvi Gylfason,
Arnór Þrastarson,
Alexander Veigar Þórarinsson - Andri Rúnar.
Á bekknum sátu þeir Guðni Páll, Ásgeir Guðmunds,
Axel Lárusson og Óttar.
Við mættum mun betur stemmdir til leiks heldur en á móti ÍA, þó svo að Leiknir hafi verið mikið mun meira með boltann þá voru menn að spila mjög þéttan varnarleik, fóru á fullu í návígi og ekkert gefið eftir. Leikinsmenn náðu nokkrum sinnum að skapa sér álitlegar sóknir sem annað hvort stoppuðu á Birki og Atla eða Tórði í markinu sem var mjög öflugur í dag. Ólíkt við leikinn í síðustu viku þá voru við að ná að brjóta niður margar sóknir Leiknismanna en tókst illa að gera eitthvað marktækt við boltann þegar að því kom. Þó áttum við 2-3 tækifæri og með smá heppni hefðum við getað skorað úr einu þeirra. 0-0 í hálfleik.
Í seinni hálfleik þá skiptum við varamönnunum inn á og "róteruðum" á 15 mín. kafla á meðan Leiknismenn voru með mun stærri hóp en við í leiknum. Það fór að liggja vel á okkur um miðbik hálfleiksins en flest allar fyrirgjafir og skot stoppuðu á Tórði. Leiknismenn náðu þó góðri sókn þegar um tuttugu mínútur voru eftir og skoruðu laglegt mark eftir flott spil, staðan 0-1. Eftir það átti Tórður stórbrotna markvörslu frá einum leikmanni Leiknis úr dauðafæri. Síðustu tíu mínúturnar fór töluvert að losna milli miðju og varnar hjá Leikni og áttum við nokkra "sénsa" á að sækja hratt á þá en lítið gekk. Það var síðan á 90. mínútu þegar Andri Rúnar kemst í stöðuna "einn á einn" á móti varnarmanni í vítateignum. Andri tekur fjögur skæri í öðru veldi og fer leiftursnöggt til hliðar og skilur varnarmanninn eftir á hælunum sem þó reynir að ná til boltans en fellir Andra klaufalega. Vítaspyrna dæmd og Andri steig sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Stuttu seinna flautaði dómarinn til leiksloka og lokatölur 1-1.
Ágætis leikur í dag hjá okkur þó sóknarleikurinn sé ekki alveg kominn í gang. Það má segja að jafnteflið hafi verið sanngjörn úrslit og eru þessir leikir að nýtast okkur mjög vel í undirbúningi fyrir sumarið. Liðið lék mun betur heldur en í síðustu viku þó færin hafi verið betri fyrir viku. Áætlað er að spila við Tindastól/Hvöt á næsta laugardag.
Nánar
Knattspyrna | 02.12.2010
Þá er komið jólafrí eins og flestir vita en við höfum gert þetta undanfarin tvö ár. Áður var alltaf frí í september en við ákváðum að nota tímann frekar þá, vera úti og æfa eins mikið og við gætum en taka fríið í desember enda hefur alltaf komið truflun á starfið í jólamánuðinum vegna annars frís, hátíðisdaga, lokunardaga í íþróttahúsunum og ferðalaga fjölskyldna.
Æfingar hefjast svo aftur um leið og skólinn hefst eftir jólafrí og þá ættu allir að vera endurnærðir og vel saddir eftir hátíðarnar. Við viljum samt benda ykkur á að nú er kjörið að fara út á sparkvöll og leika sér í fótbolta, það þarf enginn að láta sér leiðast þó að æfingar séu ekki í gangi í mánuðinum...
Nánar
Knattspyrna | 02.12.2010
Guðjón Þórðarsson þjálfari liðsins var í viðtali á fotbolti.net fyrr í dag. Í viðtalinu ræðir hann um hópinn sem hann hefur í höndunum og næstu skref í leikmannamálum.
Viðtal við Guðjón
Nánar
Knattspyrna | 30.11.2010
Heimamenn á Akranesi tóku á móti okkar mönnum síðastliðinn laugardagsmorgun. Um æfingarleik var að ræða en þó var fjölmennt í stúkunni, bæði af heimamönnum og stuðningsmönnum okkar. Hópurinn var og hefur verið þunnskipaður undanfarna mánuði og höfðum við því einungis úr 14 leikmönnum að velja.
Byrjunarliðið var þannig skipað:
Robbi(M) - Haffi,
Atli Guðjónsson, Sigurgeir, Sigþór -
Axel Lárusson,
Sölvi Gylfason, Gunnar Már - Óttar, Matti og Andri. Á bekknum sátu Ásgeir,
Arnór Þrastarson og
Runólfur(M)
Skagamenn tóku undirtökin strax frá byrjun og hófu leikinn mjög ákveðnir. Þeir skoruðu fyrsta markið eftir tíu mínútur eftir klaufaleg mistök í vörninni hjá okkur. Þeir bættu síðan stuttu seinna öðru markinu við og var það önnur gjöf frá okkur. Skaginn braut allar sóknir okkar niður með brotum, voru mjög "aggressívir" og spiluðu á mun hærra "tempói" en okkar menn eru vanir. Þegar hálfleikurinn var hálfnaður og við að ná áttum þá slapp Andri aleinn í gegnum vörn ÍA eftir laglega stungusendingu. Hann hinsvegar lét markmann ÍA verja frá sér en hann hafði komið mjög langt út á móti Andra. ÍA voru nánast allan tímann með boltann en náðu þó ekki að skapa sér nein opin marktækifæri þó spil þeirra hafi verið mjög gott. Atli átti skalla hjá okkur sem var varinn á línu af varnarmanni ÍA eftir hornspyrnu. Staðan 2-0 fyrir ÍA í hálfleik en það hefði ekki verið ósanngjarnt ef við hefðum sett eitt mark á þá.
Í seinni hálfleik áttum við gjörsmalega ekki neitt erindi í leikinn. ÍA skiptu mörgum mönnum inn á meðan við reyndum að rótera okkar þrem aukamönnum á 15.mín fresti. ÍA átti hálfleikinn frá A til Ö en náðu þó einungis að skora eitt mark. Það kom eftir að brotið hafði verið á Sigurgeiri í vörninni en dómarinn tók upp á því að dæma ekki nokkurn skapaðan hlut og eftirleikurinn auðveldur fyrir ÍA. Það lá töluvert á okkar marki síðustu mínúturnar en lokatölur urðu 3-0.
Þessi leikur gefur okkur til kynna hvað bíður okkar næsta sumar. Leikir spilaðir á mun meiri hraða og mun betri leikmenn heldur en í 2.deild. Þó við höfum ekki átt mikið í leiknum þá er þetta góð reynsla fyrir strákanna og Gaui sér einnig um leið hvað þarf að bæta. Nú þarf að nýta næstu mánuði vel í lyftingar og æfingar. Auðvelt er að segja að flestir hafi spilað undir getu í leiknum en eins og máltakið segir, þá spilar maður ekki betur en andstæðingur leyfir. Ef einhvern á að nefna "bestan" í okkar liði að þá var Sigþór Snorrason með okkar bestu mönnum. Baráttan var til fyrirmyndar hjá honum og varnaleikurinn ágætur þótt nokkrar sendingar hefðu ekki skilað sér á liðsfélaga.
Hvað ÍA liðið varðar að þá áttu þeir mjög góðan leik og litu ágætlega út. Þeir verða hinsvegar að gera eitthvað róttækt í sínum málum ef þeir ætla upp um deild því þetta lið má muna sinn fífil fegurri miðað við liðið sem lék á gullaldarárum félagsins. Íbúar á Akranesi geta þó huggað sig við það að þeir eru komnir áfram í spurningaþættinum Útsvar. Þeir lögðu Fljótsdalshérað glæsilega síðastliðið föstudagskvöld, lokatölur 99-42.
Nánar
Knattspyrna | 18.11.2010
BÍ/Bolungarvík og Vífilfell hf. undirrituðu nú í dag með sér samstarfssamning til þriggja ára. Vífilfell verður með samningnum einn helsti bakhjarl BÍ/Bolungarvíkur og styður þannig við öflugt starf félagsins í meistaraflokki. Vífilfell hefur í gegnum árin starfað náið með íþróttahreyfingunni í landinu og er bakhjarl fjölmargra íþróttafélaga og -hreyfinga. Vífilfell kappkostar að bjóða upp á breiða flóru drykkjavara, m.a. fjölbreytt úrval vatns, safa og próteindrykkja, sem henta einkar vel íþróttafólki.
„Við erum virkilega ánægðir með samninginn og berum miklar væntingar til samstarfs við jafn öflugt fyrirtæki og Vífilfell. BÍ/Bolungarvík er metnaðarfullt íþróttafélag og sá öflugi stuðningur sem félagið fær með samstarfi þessu er okkur mjög mikilvægur. Við erum vissir um að samstarfið verður gæfuríkt fyrir báða aðila." sagði Samúel Samúelsson, stjórnarmaður hjá BÍ/Bolungarvík.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Árna Stefánsson, forstjóra Vífilfells, og Samúel Samúelsson, stjórnarmann, við undirritunina í höfuðstöðvum Vífilfells í dag.
Nánar
Knattspyrna | 17.11.2010
Þá eru einungis einn dagur í stuðningsmannakvöldið. Við hvetjum fólk eindregið til að mæta og hafa gaman saman. Mikið af fólki sem er "maybe attending" eða "havent replied" ennþá(Þeir sletta skyrinu sem eiga það) þannig að við ætlum að minna aðeins á dagskránna.
Grillið á Players lokar kl. 21. Borgari og bjór á 1500 kr. og stakur bjór á 500 kr.
Boðið verður upp á rosalegt fótbolta quiz, spurningar frá allt að BÍ/Bolungarvík yfir í Enska boltan. Verðlaun veitt sigurliðinu.
Biggi Olgeirs er búinn að suða saman all svakalegt söng program og mun þakið væntanlega rifna af Players.
Eru ekki allir búnir að skrá sig veika á föstudaginn????
Nánar