Fréttir - Knattspyrna

Stefán Arnalds ráðinn aðstoðarþjálfari

Knattspyrna | 05.11.2010 Stefán Arnalds hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari BÍ/Bolungarvíkur. Stefán sem er uppalinn í Bolungarvík lék á árum áður bæði með meistaraflokk UMFB og BÍ. Stefán er íþróttakennari að mennt og hefur um árabil verið virkur í þjálfun yngri flokka og meðal annars þjálfað nokkra að núverandi leikmönnum BÍ/Bolungarvík. Stefán er einn af fyrstu íslendingunum sem útskrifuðust með UEFA A þjálfaragráðu sem er hæsta þjálfaragráða sem er í boði á Íslandi.´
 

Aðspurður segir Stefán að ekki hafi verið hægt að segja nei þrátt fyrir að hann hafi ekki tekið að sér þjálfun í nokkur ár. "Tilfinningin segir mér að þetta verkefni eigi eftir að ná góðu flugi og ég vill verða partur af því" .


Gaman er að segja frá því að Stefán er hvað frægastur fyrir að hafa komið Bolvíkingum yfir á móti ÍA, þáverandi Íslandsmeisturum í knattspyrnu, í vígsluleik Skeiðsvallar í Bolungarvík árið 1995. 

Nánar

Ísfirðingur og Bolvíkingur að tala saman...

Knattspyrna | 02.11.2010

Á vefnum ibs.is er að finna myndband af skemmtilegu viðtali við Matta Villa og Kristján Jónsson blaðamann á Morgunblaðinu. Þar eru þeir spurðir út í lið þeirra "skástrikið" ásamt fleiru.

Viðtalið (Videospilari til hægri, merkt BÍ og Bolungarvík)

Nánar

Grótta - BÍ/Bolungarvík

Knattspyrna | 01.11.2010 BÍ/Bolungarvík tók á móti Gróttu á Seltjarnarnesi síðastliðinn laugardagsmorgun. Hluti af hópnum sem er fyrir vestan gerði sér ferð í bæinn til að spila leikinn og ná einni æfingu á sunnudeginum með Guðjóni. Það var heiðskýrt en mjög hvasst á Gróttuvelli og byrjuðu við á móti vindi. Sex nýir leikmenn hafa verið að æfa með liðinu að undanförnu og tóku fimm þeirra þátt í æfingarleiknum.

Byrjunarliðið var þannig skipað:
Róbert - Haffi, Atli Guðjónsson, Sigurgeir, Sigþór - Pétur Run, Gunnar Már, Sölvi Gylfason - Óttar, Matti, Andri

Á bekknum voru Ásgeir Guðmunds, Pétur Geir, Vilhjálmur Darri Einarsson, Leó Daðason, Arnþór Ingi Kristinsson og Dóri Skarp.

Fjarverandi voru Birkir, Addi, Goran og Arnór Þrastarson

Við vorum til að byrja með svolítið stressaðir og á móti mjög sterkum vindi en eftir fyrstu 5-10 mínúturnar fórum við að láta boltann ganga í vörninni og hefja góðar sóknir líkt og liðið gerði í sumar. Þegar menn róuðu sig á boltanum að þá komu oft frábærir spilakaflar sem sköpuðu góð færi. Andri Rúnar skoraði fyrsta markið eftir góða stungusendingu frá Óttari. Gunnar Már bætti síðan öðru markinu stuttu seinna eftir að hann og Óttar sundurspiluðu Gróttumenn á vinstri kantinum. Grótta fékk tvö eða þrjú hálffæri á fyrsta hálftímanum en síðan náðu þeir ekki að opna okkur og sköpuðu sér ekkert eftir það. Pétur Geir kom inn á í hálfleik og það var liðin mínúta af þeim seinni þegar Pétur Run vinnur boltann og er fljótur að stinga inn á Pétur Geir sem tekur boltann í fyrstu snertingu framhjá markmanninum sem var kominn út á móti. Eftir þetta fórum við að skipta inn á og menn komu aftur inn á þannig að spilið riðlaðist aðeins. Við héldum þó boltanum vel en sköpuðum okkur nokkra góða "sénsa" en ekkert sem vert er að minnast á. 0-3 sigur staðreynd í fyrsta leik liðsins fyrir tímabilið 2011.

Liðið spilaði flottan bolta á köflum og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Það vantar þó hjá okkur að halda boltanum betur á síðasta þriðjungi vallarins og fá ró á boltann þar. Þurfum að halda boltanum betur þar og færa leikmennina framar á völlinn. Annars var þetta með því betra sem við höfum sýnt í fyrsta leik miðað við síðustu ár. Framundan er mikil vinna hjá strákunum, þeir eru í þrusu "programmi" hjá Guðjóni sem ætlar að vera með formið og skipulagið á hreinu í sumar. Nánar

Peysa glataðist

Knattspyrna | 23.10.2010 Ný Hummel-peysa (af nýja gallanum) tapaðist, væntanlega við annað hvort íþróttahúsanna á dögunum. Peysan er fyrir 8 ára. Þeir sem gætu verið með tvö eintök af svona peysum heima eða hafa séð slíka peysu á glámbekk eru beðnir að láta Sigrúnu og Steingrím vita í síma 690 1515. Nánar

Guðjón stýrimaður á Sigurfara

Knattspyrna | 14.10.2010 Í gær birti Skessuhorn, héraðsblað Vesturlands, skopmynd af Guðjóni Þórðarsyni og meistaraflokki BÍ/Bolungarvíkur. Þar er Guðjón stýrimaður á áttæringnum Sigurfara og öskrar ísbað á áhöfnina sem rembist við að róa í miklum ólgusjó.


Myndin segir jú það sem allir vissu. Að veturinn verður okkur mjög mikilvægur því við þurfum að æfa betur heldur en hin liðin í deildinni til að vera tilbúnir fyrir átökin í sumar. Það er því varla til hæfari maður en Guðjón í þessari þjálfarastétt til að undirbúa liðið vel, líkamlega sem og andlega.

Það er hinsvegar spurning hvort Skessuhorn hafi ætlað að reyna vekja sömu viðbrögð hjá vestfirðingum og Jyllandsposten gerði hjá múslimum þegar þeir birtu skopmynd af Múhameð spámanni eða þá að það hafi hreinlega bara ekkert verið í fréttum á Vesturlandi.

Nánar

Fréttir um ráðningu Guðjóns í dag

Knattspyrna | 06.10.2010 Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að Guðjón Þórðarson var í dag ráðinn þjálfari meistaraflokks BÍ/Bolungarvíkur. Bibol.is tók til fréttaumfjöllun dagsins. Fyrstu fréttirnar voru mjög svipaðar þar sem vitnað var í yfirlýsingu stjórnar sem birtist hér á vefnum í morgun. Seinna fór síðan að bera á viðtölum við Samúel stjórnarmann og Guðjón sjálfan. Síðan var fjallað um málið í íþróttafréttum Rúv og Stöðvar 2 í kvöld. Nánar

Breytt staðsetning uppskeruhátíðar

Knattspyrna | 06.10.2010 þar sem búið var að bóka sal grunnskólans og Edinborgarhúsið verður hátíðin í íþróttahúsinu við Torfnes á sunnudaginn kl. 14:0-15:30. Nánar

Guðjón Þórðarsson ráðinn þjálfari BÍ/Bolungarvík

Knattspyrna | 06.10.2010 Yfirlýsing frá stjórn BÍ/bolungarvíkur
Stjórn BÍ/Bolungarvíkur og Guðjón Þórðarson hafa komist að samkomulagi um að Guðjón Þórðarson taki við stjórn meistaraflokks félagsins frá og með 15. október.

Stjórn félagsins er ánægð með ráðningu Guðjóns og býður hann velkominn til starfa.

Nánar verður fjallað um ráðningu Guðjóns seinna í dag.
Nánar

Uppskeruhátíðin á næsta leyti

Knattspyrna | 05.10.2010 Uppskeruhátíð allra yngri flokka BÍ88, frá 8. flokki upp í 3. flokk stráka og stelpna, verður haldin í sal Grunnskólans á Ísafirði, sunnudaginn 10. október nk. kl. 14:00-16:00. Veittar verða viðurkenningar fyrir dugnað og elju og svo eiga auðvitað allir að koma með eitthvað bakkelsi, sætt eða salt, til að leyfa hinum að smakka. Það verður því risahlaðborð eins og venjulega og við ætlum að reyna að varpa ljósmyndum frá tímabilinu upp á tjald svo að allir sjái. Ef fólk á myndir sem það vill deila með öðrum, er það beðið að senda mér þær á svavarg@fsi.is og ég kem þeim í sýningu.
Skemmtilegt væri ef iðkendur gætu komið í einhverjum fatnaði merktum félaginu til að gefa hátíðinni okkar svip. Nánar

Inniæfingar að hefjast

Knattspyrna | 04.10.2010 Nú er veðrið að versna smám saman eftir ótrúlega góðan september. Við ætlum hins vegar ekki að láta deigan síga, heldur halda okkur úti við eins lengi og hægt er og veður leyfir með góðu móti. Það verður síðan í höndum hvers þjálfara fyrir sig hvenær inniæfingar flokkanna hefjast og munu þeir láta sitt fólk vita af breytingum sem verða. Fólk má samt eiga von á útiæfingum eins lengi og hægt er, í bland við inniæfingarnar í vetur, enda fær hver flokkur einungis tvær inniæfingar í viku fyrir utan 4. flokk drengja sem fær þrjár æfingar, vegna gífurlegs fjölda á æfingum.
Æfingatöfluna er að finna hér vinstra megin undir liðnum „Æfingatafla".  Nánar