Fréttir - Knattspyrna

Sigur í Vesturbænum

Knattspyrna | 25.07.2010 BÍ/Bolungarvík sigraði KV(Knattspyrnufélag Vesturbæjar) í gær, 0-1. Heimamenn í KV vörðust vel í leiknum og reyndi því vel á þolinmæði okkar manna í leiknum. Óttar skoraði markið eftir frábæra stungusendingu frá Milan á 45. mínútu. Samkvæmt umfjöllun um leikinn á fotbolta.net vorum við heppnir að halda hreinu í leiknum.

Með sigrinum erum við með fimm stiga forskot á Hvöt sem er í þriðja sæti deildarinnar. Liðin mætast í toppslag núna á miðvikudaginn á Torfnesvelli. Ef við náum sigri í þeim leik þá erum við komnir í mjög þægilega stöðu. Staða okkar er samt alltaf góð á meðan við þurfum bara að hugsa um okkar sjálfa og ekki þurfa að treysta á að önnur lið tapi. Nánar

Drullan að verða tilbúin!

Knattspyrna | 24.07.2010 Þá er komið að því: Maron og Valtýr eru búnir að vera í allan dag að vökva drulluvellina og nú loks er þetta að verða fýsilegt. Það þurfti reyndar 100 tonn af vatni auk stanslausrar vökvunar í alla nótt, til að vellirnir yrðu sæmilega blautir. Ekki hjálpar þurrkurinn heldur til. Húrra fyrir Maron og Valtý!
Þetta byrjar allt saman kl. 11:00 en búist er við að leikskipulag riðlist eitthvað þar sem annar völlurinn (völlur 2) er frekar þurr og gæti því ekki verið leikhæfur. Samt gæti farið svo að 7. flokkur spili sína leiki þar enda ekki fyrir alla að plampa í drullunni á velli 1. Þið getið því búist við því að við þurfum að spila þetta svolítið af fingrum fram á morgun en samt er búist við að þetta verði búið um kl. 14:00.
Munið að hafa rétta fatnaðinn með, þetta er ekki staður fyrir smóking eða jóladress og skórnir þurfa að vera þannig að þeirra væri lítt saknað ef þeir hyrfu í drulluna. Gott er að teipa eða binda skó fasta við púkann svo að hann haldi skóbúnaðinum óskertum meðan á leik stendur.
Volgt vatn verður til staðar í körum og mjólkurbíl svo að hægt er að skola af sér en munið að önnur búningsaðstaða er engin svo að koma verður mannskapnum heim eða á næsta bað-/sundstað með einhverjum snjöllum úrræðum (plastpokar á sætin, utanyfirgalli yfir drullugallann eða eitthvað annað verulegt snjallt sem ykkur dettur í hug).

Góða skemmtun (veðurspáin er frábær svo að þetta gæti orðið gott). Nánar

Sigur gegn ÍH

Knattspyrna | 23.07.2010 BÍ/Bolungarvík tók á móti ÍH á Torfnesvelli í rjómablíðu sunnudaginn 18. júlí. Heimamenn mættu ekki nógu einbeittir til leiks og leyfðu ÍH mönnum að vera með í leiknum. Við hefðum þurft að mæta af krafti strax frá byrjun því þá hefði þessi leikur orðið mun auðveldari en raun bar vitni. Óttar kemur okkur í 1-0 á 25. mínútu en ÍH ná að jafna á 32. mínútu. 1-1 í hálfleik. Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri, mikil barátta og illa gekk að halda bolta innan liðsins. Þeir ná að komast yfir á 60. mínútu þegar um hálftími er eftir af leiknum. Þá skiptum við um gír og hófum að spila eins og menn. Pétur Geir skorar á 72. mínútu og á 79. mínútu fáum við víti og markvörður þeirra rekinn útaf. Andri skorar úr vítinu og setur síðan annað mark á 85. mínútu beint úr aukaspyrnu. 4-2 sigur staðreynd.

Í lið okkar vantaði fyrirliðann, Emil Pálsson, sem mun einnig vera fjarverandi í næsta leik á móti KV á laugardaginn vegna landsleikja með U-18 ára liði Íslands í Svíþjóð. Nánar

Stórmeistarajafntefli

Knattspyrna | 23.07.2010 BÍ/Bolungarvík keyrði til Ólafsvíkur þann 15. júlí. Þar mættu þeir efsta liði deildarinnar, Víking frá Ólafsvík sem hafði ekki tapað leik í deild. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli þar sem Víkingur skoraði eftir aukaspyrnu þar sem Edin Besiljia tók fasta aukaspyrnu með jörðinni(mynd nr.2) og á nærstöng þar sem Tomasz Luba kom einn og óvaldaður og renndi boltanum í netið. Áður hafði Dominik Bajda látið sig detta með tilþrifum í teignum en ekkert dæmt. Stuttu eftir það lét Besiljia sig detta í viðskiptum við Dalibor fyrir utan teig og uppskar aukaspyrnuna sem markið kom úr. Undirritaður var óviss hvort um knatspyrnuleik var að ræða eða afhending Grímunar í háksólabíói. Heimamenn voru sterkari og héldu boltanum betur en bæði lið sköpuðu sér nánast engin færi. Rétt fyrir lok hálfleik tók Alfreð Gulla útaf sem átti ekki góðan dag og skellti Pétri Run inn á, þar með færði Sigþór sig niður í bakvörð. 1-0 í hálfleik fyrir Víking.

Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum og við áttum fyrsta færi hálfleiksins þegar Milan fékk boltan fyrir utan miðjan vítateiginn. Hann ákvað að renna honum til hliðar á galopinn Gunnar Má sem renndi honum snyrtilega í fjærhornið. Staðan orðin 1-1(mynd nr.3). Fljótlega eftir þetta fékk Andri gott skotfæri í teignum eftir gott spil en varnarmenn Víkings náðu að koma í veg fyrir að skotið næði á markið. Seinasti hálftíminn var barátta út í gegn og bæði lið sátt með jafntefli. Við vörðumst ágætlega en illa gekk að halda boltanum. Róbert var síðan mjög traustur í markinu. Hvorugt liðið þorði að taka áhættu og því fór sem fór. Stutt og góð umfjöllun um leikinn á fotbolti.net lýsir leiknum mjög vel.

Myndir frá ferðinni hafa verið settar inn í myndaalbúm Nánar

Mót um helgina, bolti og drulla!

Knattspyrna | 21.07.2010 Þá er þetta komið á hreint: 5., 6., 7. og 8. flokkur eiga að mæta út í Bolungavík kl. 8:30 en skrúðganga hefst við grunnskólann kl. 9:00. Mótið hefst síðan um hálftíma síðar og er lokið milli kl. 15 og 16 um daginn.
Á sunnudag hefjast leikar kl. 11:00 inni í Tungudal. Mun leikskipulag verða þannig að krökkum verður skipað í lið og munu þau síðan leika tvo leiki hvert. Miðað er við að hver flokkur verði kláraður strax þannig að krakkarnir þurfi ekki að bíða lengi í drullunni. Meðan á mótinu stendur verður kakó og skúffukaka í boði fyrir þátttakendur og hina meðan birgðir endast.
Nánara leikskipulag verður sett inn þegar það er tilbúið.
Heildarmótsgjald er kr. 3000 fyrir bæði mótin og eru foreldrar beðnir um að greiða Guðrúnu Karlsdóttur, gjaldkera félagsins, fyrir kl. 12:00 á morgun, laugardag.

Athugið!
Dregnir hafa verið fram gamlir keppisbúningar félagsins til að nota í drullunni. Þeir eru ekki alveg nógu margir fyrir alla og því munum við dekka mismuninn með vestum. Svo þarf auðvitað ekki að minnast á að fólk að hafa til þess brúkleg föt fyrir krakkana til að nota í drullunni. Góða skemmtun! Nánar

Andri, Jónmundur og Tómas í BÍ/Bolungarvík

Knattspyrna | 20.07.2010 BÍ/Bolungarvík hefur styrkt sig um þrjá leikmenn frá því að félagsaskiptaglugginn opnaði þann 15. júlí síðastliðinn. Fyrst kom Andri Sigurjónsson á láni frá Stjörnunni. Andri sem er varnar og miðjumaður lék tíu leiki með Stjörnunni í fyrra í deild og bikar og skoraði eitt mark. Í janúar fór Andri til þýska félagsins SV Straelen á láni og hann lék þar fram á vor. Hann er 20 ára gamall og á að baki sex leiki með U17 ára landsliðinu. Andri var í leikmannahóp liðsins á móti Víking Ólafsvík en kom ekki við sögu í þeim leik. Hann byrjaði hinsvegar leikinn á móti ÍH og spilaði fyrsta klukkutímann og þótti standi standa sig vel.

Framherjinn Jónmundur Grétarsson kom síðan til liðsins á föstudaginn á láni frá Haukum. Jónmundur, sem er 24 ára, hefur leikið fjóra leiki með Haukum í Pepsi-deildinni í sumar. Jónmundur lék áður með Stjörnunni en hann hefur síðastliðinn tvö ár verið í Haukum. Jónmundur kom inn á síðasta hálftímann á móti ÍH en á þeim kafla skoraði liðið einmitt þrjú mörk og unnu leikinn þrátt fyrir að hafa lent undir.

Þá fékk Bí/Bolungarvík einnig Tómas Emil Guðmundsson frá Gróttu en hann lék með liðinu á árum áður.

Von er á fréttum um síðustu tvo leiki liðsins seinna í dag. Beðist er velvirðingar á töfum vegna vinnslu fréttanna. Ástæðan er gífurlegt tölvuvesen síðuhaldara sem ætti að vera komið í lag seinna í dag. Nánar

Sigur gegn Sandgerðingum

Knattspyrna | 11.07.2010 BÍ/Bolungarvík - Reynir
Lau. 10. júlí kl.15:00
Torfnesvöllur, Ísafirði
Íslandsmót 2. Deild

BÍ/Bolungarvík tók á móti Reyni frá Sandgerði í tíundu umferð 2. Deildar á Torfnesvelli síðastliðinn laugardag. Veðuraðstæður voru eins og best verður á kosið, glampandi sól með örlitlum vindi. Liðið hafði sigrað seinsta leik á móti Víði Garði en þar áður tapað illa fyrir Völsungi heima. Reynir hefur hinsvegar valdið vonbrigðum í sumar því liðínu var spáð mjög góðu gengi. Þeir voru í 8. sæti fyrir leikinn og þurftu nauðsynlega á sigri til að sogast ekki niður í fallbaráttuna. Nánar

Góður árangur á smábæjaleikum

Knattspyrna | 08.07.2010 Fjögur lið frá BÍ88 lögðu land undir fót og tóku þátt í Smábæjaleikum á Blönduósi á dögunum. 6. flokkur drengja var með tvö lið og 7. flokkur stráka og stelpna var sömuleiðis með tvö lið. Keppt var á laugardegi og sunnudegi og fengu allir nægan fótbolta þessa helgina, svo mikið er víst. Liðin spiluðu 6-7 leiki hvert og voru því margir þreyttir að kvöldi.
Liði 1 í 6. flokki gekk best, þeir spiluðu Spánarbolta af krafti og enduðu í úrslitaleiknum. Hann endaði 2-2 og í stað þess að spila til þrautar var hlutkesti varpað. Skemmst er frá því að segja að okkar menn "töpuðu" leiknum í því hlutkesti.
Liði 2 gekk ekki alveg eins vel en þeir unnu helming leikja sinna og töpuðu hinum helmingnum. Var á brattann að sækja fyrir þau og að lokum enduðu þau um miðjan hóp eða í 9. sæti. Þau stóðu sig með prýði og létu mótlætið ekki slá sig út af laginu enda töffarar af bestu gerð.
Lið 1 í 7. flokki hóf leik á tapi en þau tóku sig svo til og unnu rest. Enduðu þau í leik um 3. sæti og unnu hann af harðfylgi, frábærlega gert! Þar voru stelpur og strákar saman á víglínunni og stóðu sig með prýði enda einbeitingin gífurleg. Einhver kvartaði m.a.s. undan því að foreldrar hans væru bara að trufla hann með öllum þessum hvatningarhrópum.
Lið 2 stóð sig líka frábærlega en töpuðu tveimur leikjum naumlega og enduðu í 7. sæti. Það þarf því ekki mikið til að detta hratt niður töfluna í svo fjölmennu móti. Krakkarnir voru hins vegar ánægð með árangurinn - og allan fótboltann! Það var mjög gaman að sjá hve liðið var oft að spila vel sín á milli og stundum gersamlega yfirspiluðu þau andstæðinga sína. Það er ekki algengt hjá svo ungum iðkendum.
Þess ber að geta að félagið raðar ekki niður í lið eftir styrkleika heldur er reynt að hafa liðin sem jöfnust. Við erum heldur ekki að leika til sigurs, heldur förum við fyrst og fremst til að vera með. Það var nokkuð bersýnilegt að hefðum við stillt upp okkar sterkustu liðum, hefðum við unnið nokkuð auðveldlega en veikari liðin okkar hefðu getað tapað illilega á sama tíma. Slíkt viljum við ekki og höldum því þeirri hefð í heiðri að stilla upp jöfnum liðum. Það hefur gefist ágætlega og allir fá að skemmta sér í fótbolta á jafnréttisgrundvelli.
 Við óskum krökkunum til hamingju með ferðina og skemmtunina, við foreldrarnir á hliðarlínunni skemmtum okkur ekkert minna en þau. Nánar

Sigur á Víði í Garðinum

Knattspyrna | 05.07.2010 BÍ/Bolungarvík unnu í gær Víði í Garðinum, 1-2. Okkar menn höfðu tapað síðustu þrem leikjum, einn í bikar og tveir í deild. Víðismenn komust yfir í leiknum en mörk frá Dalibor Nedic og Andra tryggðu okkur sigurinn. Markið hans Andra var einkar glæsilegt, aukaspyrna af 30 metra færi sem hafnaði í slánni og inn í uppbótartíma.Samkvæmt heimildarmönnum þá var BÍ/Bol mun betri aðilinn í leiknum og áttu sigurinn skilið. Næsti leikur er heimaleikur gegn Reyni Sandgerði næstkomandi laugardag. Umfjöllun um leikinn og viðtöl við leikmenn má finna á fotbolti.net

Frétt um sigurinn

Viðtal við Andra

Viðtal við Alfreð Nánar

0-3 tap gegn Völsungi

Knattspyrna | 05.07.2010 BÍ/Bolungarvík tók á móti Völsungi frá Húsavík á þriðjudaginn síðastliðinn. Völsungur sigraði óvænt 0-3 en sigurinn verður að teljast verðskuldaður þar sem heimamenn léku ekki nógu vel í leiknum. Nánari umfjöllun má finna hér á fotbolti.net Nánar