Miðvikudaginn 2. apríl klukkan 12.00-13.00 mun KSÍ standa fyrir fundi þar sem viðfangsefnið er ferðakostnaður knattspyrnufélaga. Fundurinn verður í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum, 3. hæð. Fundurinn verður sýndur beint á Sport TV og hefst útsending kl. 12.05. Áhugasamir aðilar sem ekki komast á staðinn geta því farið inn á heimasíðuna www.sporttv.is og fylgst með fundinum í beinni útsendingu.
Fyrirlesarar eru Halla Kjartansdóttir og Bjarni Ólafur Birkisson. Halla er starfsmaður ÍSÍ í ferðasjóði íþróttafélaga og mun hún útskýra reglur og starfsemi sjóðsins. Í kjölfarið mun Bjarni Ólafur, formaður Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar, kynna hugmyndir sínar um jöfnunarsjóð knattspyrnufélaga en Bjarni situr í nefnd innan KSÍ sem fjallar um ferðakostnað félaganna.
KSÍ hvetur forráðamenn félaga til að fjölmenna á fundinn, en tillögur Bjarna snúa að öllum knattspyrnufélögum landsins og kostnað þeirra vegna ferðalaga í mót á vegum KSÍ.
Fundurinn verður sýndur beint á Sport TV.
Aðgangur er ókeypis og fundargestir fá súpu og brauð í boði KSÍ. Vinsamlegast boðið komu ykkar með því að senda tölvupóst á dagur@ksi.is.
NánarMánudaginn 17. mars kl. 16.30 stendur HSV fyrir fundi í Stjórnsýsluhúsinu Ísafirði sem er liður í forvarnarátaki ÍSÍ gegn kynferðislegu ofbeldi í íþróttum. Erindi fundarins verður í höndum Hafdísar Hinriksdótturn, íþróttakonu og meistaranema í félagsfræði, en Hafdís hefur verið vinna efni, í samvinnu við ÍSÍ, sem fjallar um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum og unglingum í íþróttum.
Það er gríðalega mikilvægt að allir þjálfarar og aðilar sem á einn eða annan hátt eru að vinna með börnum og unglingum í hreyfingunni taki frá tíma á mánudag og hlýði á erindið og taki þannig á ábyrgan hátt þátt í þessari baráttu. Erindið er bæði upplýsandi, fróðlegt og skemmtileg og á eftir verður boðið upp á kaffi, meðlæti og umræður um efnið.
Hér má finna slóð þar hægt er að nálgast fræðslubækling um þetta efni.
Hér er hægt að finna viðtal við Hafdísi Hinriksdóttur þar sem hún fjallar örstutt um erindið sitt.
NánarÞróttur eða lið Grindavíkur bíður kvennaliðs BÍ/Bolungarvíkur í Borgunarbikarnum í knattspyrnu. Þetta er í fyrsta sinn sem kvennalið BÍ/Bolungarvíkur tekur þátt í bikarkeppni. Dregið var í bikarnum í gær. Þróttur og Grindavík mætast í fyrstu umferð bikarsins 14. maí og sigurvegarinn fær heimaleik á móti BÍ/Bolungarvík þann 27. maí. Þróttararnir féllu úr Pepsi deildinni í fyrra en Grindvíkingar hafa verið andstæðingar BÍ/Bolungarvíkur í 1. deildinni síðustu tvö sumur. Leikið verður til úrslita í bikarnum á Laugardalsvelli 30. ágúst. Lið BÍ/Bolungarvíkur endaði í 9. sæti 1. deild Íslandsmótsins í fyrra.
NánarKarlalið BÍ/Bolungarvíkur mætir sigurvegara úr viðureign Lummanna og Berserkja í Borgunarbikar Knattspyrnusambands Íslands. Dregið var í bikarnum í gær og fer leikurinn fram 13. maí á heimavelli sigurvegara fyrri leiksins. Á fréttasíðunni fotbolti.net segir að Lumman sé eitt af nýju liðunum sem keppir í fjórðu deildinni í sumar og nafnið á liðinu kemur frá samnefndu „appi“ þar hægt að nálgast fótboltafréttir. Lumma er einnig slanguryrði yfir munntóbak en Helgi Pjetur Jóhannsson ítrekar við Fótbolta.net að nafnið sé ekki dregið af ósiðnum heldur af gamla góða bakkelsinu. Lumman spilar heimaleiki sína í Kópavogi.
NánarBÍ/Bolungarvík hefur fengið markvörðinn Magnús Þór Gunnarsson að láni frá Haukum. Fréttasíðan fotbolti.net greinir frá félagaskiptunum. Magnús sem er fæddur 1994, hefur verið varamarkvörður Hauka undanfarin ár auk þess að standa á milli stanganna í 2. flokki félagsins. Spænski markvörðurinn Alejandro Berenguer Munoz var í markinu hjá BÍ/Bolungarvík í fyrra en hann verður ekki áfram hjá félaginu.
Nánar
KSÍ stendur fyrir súpufundi föstudaginn 21. febrúar í höfuðstöðvum KSÍ frá 12.00-13.00. Aðgangur er frír og súpa og brauð í boði fyrir fundargesti.
Fyrirlesturinn er byggður upp sem fræðsluefni þar sem m.a er farið í birtingarmyndir kynferðislegs ofbeldis, mikilvægi siðareglna sem leiðavísi um hvað sé í lagi og hvað ekki, aðstæður sem þjálfarar ættu að varast ásamt fleiru. Tilgangurinn er að fólk sé meðvitað, því sé veitt ákveðin verkfæri til að takast á við aðstæður og síðast en ekki síst að það viti hvaða merkjum þurfi að líta eftir. Fyrirlesturinn er bæði fræðandi og skemmtilegur.
Fyrirlesari er Hafdís Inga Hinriksdóttir, en hún spilaði handbolta frá 5 ára aldri, spilaði með öllum landsliðum HSÍ og var atvinnumaður með GOG og vann brons í sterkustu deild heimsins með þeim.
Hafdís er með BA próf í félagsráðgjöf en sem lokaverkefni gerði hún litla rannsókn um kynferðislegt ofbeldi innan íþrótta þar sem hún skoðaði m.a siðareglur og verkferla hjá tveimur félögum. Markmiðið var að skoða hvort félögin hefðu siðareglur og verkferla sem unnið væri eftir en rætt var við nokkra þjálfara í hvoru félagi þar sem þeir voru m.a. spurðir hvort þeir þekktu til þeirra gagna. Niðurstöðurnar voru sláandi.
Áhugsamir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig með því að senda tölvupóst á dagur@ksi.is.
Tilvalið fyrir alla þá sem eru á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu og hafa áhuga á málefninu.
Skoski knattspyrnumaðurinn David Sinclair er genginn til liðs við BÍ/Bolungarvík. Sinclair er 23 ára miðjumaður sem lék í sex ár með Livingston þar sem hann vann meistaratitla í C- og D-deildunum skosku en síðan með Ayr United í C-deildinni, þar sem hann skoraði 10 mörk í 27 leikjum, og með Airdrieonians í C-deildinni í vetur. Þar spilaði hann 14 leiki og skoraði eitt mark en var leystur undan samningi í janúar.
Í Morgunblaðinu kemur fram að Sinclair var til reynslu hjá enska B-deildarliðinu Birmingham síðasta sumar en meiddist þar á ökkla og þurfti að fara í uppskurð í kjölfarið. Hann er fjórði leikmaðurinn sem BÍ/Bolungarvík hefur samið við fyrir tímabilið í sumar. Hinir eru Kári Ársælsson, Björgvin Stefánsson og Aaron Spear.
Nánar