BÍ/Bolungarvík hefur fengið markvörðinn Magnús Þór Gunnarsson að láni frá Haukum. Fréttasíðan fotbolti.net greinir frá félagaskiptunum. Magnús sem er fæddur 1994, hefur verið varamarkvörður Hauka undanfarin ár auk þess að standa á milli stanganna í 2. flokki félagsins. Spænski markvörðurinn Alejandro Berenguer Munoz var í markinu hjá BÍ/Bolungarvík í fyrra en hann verður ekki áfram hjá félaginu.
Nánar
KSÍ stendur fyrir súpufundi föstudaginn 21. febrúar í höfuðstöðvum KSÍ frá 12.00-13.00. Aðgangur er frír og súpa og brauð í boði fyrir fundargesti.
Fyrirlesturinn er byggður upp sem fræðsluefni þar sem m.a er farið í birtingarmyndir kynferðislegs ofbeldis, mikilvægi siðareglna sem leiðavísi um hvað sé í lagi og hvað ekki, aðstæður sem þjálfarar ættu að varast ásamt fleiru. Tilgangurinn er að fólk sé meðvitað, því sé veitt ákveðin verkfæri til að takast á við aðstæður og síðast en ekki síst að það viti hvaða merkjum þurfi að líta eftir. Fyrirlesturinn er bæði fræðandi og skemmtilegur.
Fyrirlesari er Hafdís Inga Hinriksdóttir, en hún spilaði handbolta frá 5 ára aldri, spilaði með öllum landsliðum HSÍ og var atvinnumaður með GOG og vann brons í sterkustu deild heimsins með þeim.
Hafdís er með BA próf í félagsráðgjöf en sem lokaverkefni gerði hún litla rannsókn um kynferðislegt ofbeldi innan íþrótta þar sem hún skoðaði m.a siðareglur og verkferla hjá tveimur félögum. Markmiðið var að skoða hvort félögin hefðu siðareglur og verkferla sem unnið væri eftir en rætt var við nokkra þjálfara í hvoru félagi þar sem þeir voru m.a. spurðir hvort þeir þekktu til þeirra gagna. Niðurstöðurnar voru sláandi.
Áhugsamir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig með því að senda tölvupóst á dagur@ksi.is.
Tilvalið fyrir alla þá sem eru á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu og hafa áhuga á málefninu.
Skoski knattspyrnumaðurinn David Sinclair er genginn til liðs við BÍ/Bolungarvík. Sinclair er 23 ára miðjumaður sem lék í sex ár með Livingston þar sem hann vann meistaratitla í C- og D-deildunum skosku en síðan með Ayr United í C-deildinni, þar sem hann skoraði 10 mörk í 27 leikjum, og með Airdrieonians í C-deildinni í vetur. Þar spilaði hann 14 leiki og skoraði eitt mark en var leystur undan samningi í janúar.
Í Morgunblaðinu kemur fram að Sinclair var til reynslu hjá enska B-deildarliðinu Birmingham síðasta sumar en meiddist þar á ökkla og þurfti að fara í uppskurð í kjölfarið. Hann er fjórði leikmaðurinn sem BÍ/Bolungarvík hefur samið við fyrir tímabilið í sumar. Hinir eru Kári Ársælsson, Björgvin Stefánsson og Aaron Spear.
NánarBÍ/Bolungarvík og Kári Ársælsson hafa komist að samkomulagi að sá síðarnefndi leiki með liðinu á komandi keppnistímabili. Kári skrifar undir eins árs samning við félagið og mun leika sinn fyrsta leik núna á laugardaginn gegn Selfoss í fotbolti.net mótinu. BÍ/Bolungarvík hefur verið á höttunum eftir varnarmanni eftir að Dennis Nielsen yfirgaf félagið og samdi við Egersund IK í Noregi.
Kári er fæddur árið 1985 og er varnarmaður. Hann er uppalinn hjá Breiðabliki en hefur einnig leikið með Stjörnunni og ÍA. Hann á að baki 164 leiki og 9 mörk á sínum ferli í deild og bikar. Hann kemur til liðsins frá ÍA.
Kári var fyrirliði Breiðabliks þegar liðið varð Íslandsmeistari 2010 og þegar liðið varð bikarmeistari árið á undan. Síðustu tvö ár hefur hann leikið með ÍA í Pepsi-deildinni.
Stjórn BÍ/Bolungarvíkur býður Kára velkominn til félagsins og eru miklar vonir bundnar við frammistöðu hans.
Nánar