Fréttir - Körfubolti

Þriggja stiga tap í síðasta leik tímabilsins

Körfubolti | 20.03.2015

Karlalið KFÍ og Hamars mættust í kvöld í 1. deild karla í lokaleik beggja liða í vetur. Gestirnir fóru með sigur af hólmi í spennandi en sveiflukenndum leik en lokatölur voru 77-80 og staðreyndin því enn eitt nauma tapið hjá KFÍ í vetur.

Framan af leiknum höfðu KFÍ menn yfirhöndina og unnu fyrstu þrjá fjórðungana. Mest hafði KFÍ 14 stiga forystu um miðbik þriðja leikhluta. En það dugði ekki til því í lokafjórðungnum skorti úthald og einbeitinug hjá heimamönnum til að klára verkefnið. Smátt og smátt söxuðu gestirnir á forskotið og komust svo yfir þegar rúmar sex mínútur voru til leiksloka 64-65 og hleyptu heimamönnum aldrei yfir eftir það.


Stigahæstir í liði heimamanna voru Nebojsa með 32 stig, 7 stolna bolta, 5 stoðsendingar og 3 fráköst. Næstur kom Birgir Björn með 21 stig og 7 fráköst. Gunnlaugur Gunnlaugsson skoraði 10 stig, Björgvin Snævar 6 stig, Pance 4 stig og Andri Már með 4.


Hjá gestunum voru stóru mennirnir bestir. Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði 16 stig og tók 10 fráköst og Örn Sigurðsson skoraði 16 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

 

Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ. Reyndar sýnist skrifar að nöfn leikmanna í tölfræðiskýrslunni stemmi ekki alveg við veruleikann. Þar þar vantar kempuna Lárus Jónsson sem stýrði leik gestanna af öryggi, auk þess sem þjálfari liðsins Hallgrímur Brynjólfsson var á skýrslu. En þetta misræmi verður sjálfsagt lagfært um leið og skrifuð skýrsla leiksins berst í hús hjá KKÍ.

Nánar

Stelpurnar í toppbaráttunni um helgina

Körfubolti | 20.03.2015
Labrenthia Murdock og stelpurnar sem hún þjálfar í meistaraflokki KFÍ eiga möguleika á að spila til úrslita í deildinni. Ljósmynd: Karfan.is.
Labrenthia Murdock og stelpurnar sem hún þjálfar í meistaraflokki KFÍ eiga möguleika á að spila til úrslita í deildinni. Ljósmynd: Karfan.is.

Kvennalið KFÍ hefur staðið sig vel í vetur og eru stelpurnar í báráttunni um að vera annað tveggja liða deildarinnar sem spilar um laust sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili. Úrslitin geta ráðist nú um helgina en þá mæta stelpurnar bæði toppliði Njarðvíkur, sem ekki hefur tapað leik á tímabilinu, og liði Stjörnunnar sem er í öðru til þriðja sæti deildarinnar ásamt KFÍ.

Nánar

Lokaleikur tímabilsins hjá strákunum

Körfubolti | 19.03.2015
Nebojsa Knezevic hefur verið á mikilli siglingu undanfarið.
Nebojsa Knezevic hefur verið á mikilli siglingu undanfarið.

Karlalið KFÍ mætir Hamri í lokaumferð 1. deildar karla í körfubolta föstudaginn 20. mars klukkan 19.15 á Torfnesi. Strákarnir eru staðráðnir í að enda tímabilið með sigri hér heima og þá skiptir stuðningur áhorfenda máli.

 

Hamar er í öðru sæti deildarinnar með jafnmörg stig og Valur sem situr í þriðja sæti. KFÍ og Hamar hafa mæst tvisvar í vetur. Fyrri leikurinn fór fram í Hveragerði og unnu Hamarsmenn hann nokkuð sannfærandi. Seinni leikurinn fór hinsvegar fram hér á Ísafirði og tapaðist hann naumlega með 4 stigum. Okkar menn hafa því harma að hefna og hafa með framistöðunni í seinni leiknum sýnt að þeir get alveg unnið sterkt lið Hamars.

 

Hvetjum alla til að mæta á Jakann og styðja við bakið á strákunum í þessum síðasta leik tímabilsins!

 

Kveikt verður á Muurikka pönnunni og hamborgarar steiktir í svanga gesti kl. 18:30 svo það er óþarfi að elda heima og hægt að skella sér beint á leikinn.

 

Að vanda verður leikurinn sýndur beint á KFÍ-TV.

Nánar

Stórleikur Nebojsa og Birgis dugði ekki til á Hlíðarenda

Körfubolti | 15.03.2015
Nebojsa átti stórleik á föstudaginn. Ljósmynd: Ingvi Stígsson.
Nebojsa átti stórleik á föstudaginn. Ljósmynd: Ingvi Stígsson.

Karlalið KFÍ mætti Valsmönnum á Hlíðarenda síðastliðið föstudagskvöldi. Lið KFÍ var nokkuð þunnskipað þar sem fjórir lykilleikmenn þurftu að sitja heima. Þrátt fyrir að vera með vanægbrotið lið gáfu leikmenn sig alla í verkefnið og var leikurinn spennandi á loka mínútunum og litlu munaði að KFÍ næði að stela sigrinum en lokatölur urðu 94-92 Valsmönnum í vil. 

Nánar

Mót á Torfnesi fyrir káta krakka í 1.-4. bekk

Körfubolti | 13.03.2015

Á sunnudaginn kemur, 15. mars, heldur KFÍ stutt og skemmtilegt körfuboltamót í íþróttahúsinu á Torfnesi fyrir krakka í 1.-4. bekk grunnskóla. Mótið hefst kl. 10 á sunnudagsmorgun og stendur til 12 á hádegi. Með mótinu lýkur síðara körfuboltatímabil vetrarins í íþróttaskóla HSV og eru því krakkarnir í íþróttaskólanum boðnir sérstaklega velkomnir. Mótið er þó opið öllum áhugasömum börnum á þessum aldri á norðanverðum Vestfjörðum, hvort sem þau hafa áður spreytt sig í körfubolta eða ekki, og lofum við fjöri og góðri skemmtun.

Ekkert þátttökugjald verður innheimt en allir fara heim með verðlaun í mótslok.

Nánar

Vel heppnuð KFÍ ferð á Nettómótið 2015

Körfubolti | 11.03.2015
Eldra stelpuliðið með Lilju Júlíusdóttur þjálfara
Eldra stelpuliðið með Lilju Júlíusdóttur þjálfara
1 af 4

Um 20 iðkendur á vegum KFÍ tóku þátt í Nettómótinu mikla sem fram fór í Reykjanesbæ um nýliðna helgi. Mótið sem er stærsta körfuboltamót landsins var nú haldið í 25 sinn og voru nærri 1.100 þátttakendur skráðir til leiks af öllu landinu á aldrinum 5-10 ára. Að þessu sinni fóru fjögur lið frá KFÍ en félagið hefur sótt Nettómótin, sem áður hétu Samkaupsmótin, í fjölda ára. Stelpur voru í töluverðum meirihluta að þessu sinni en KFÍ tefldi fram tveimur stelpnaliðum, einu strákaliði og einu blönduðu liði.

 

Enn eitt árið setti veður strik í ferðareikninginn á leiðinni heim en hópurinn varð veðurtepptur á Hólmavík á sunnudeginum þriðja árið í röð. Að öllu öðru leyti gekk helgin einstaklega vel. Mótið var vel skipulagt að venju og KFÍ krakkarnir voru sjálfum sér, félaginu og aðstandendum til mikils sóma. Framfarirnar í tækni og spili eru mjög miklar, varnarleikurinn er alltaf að batna og samspil sömuleiðis.  Félagið getur svo sannarlega verið stolt af hópnum. Ástæða er til að þakka sérstaklega þjálfurunum sem fylgdu krökkunum í keppni en ekki síst fararstjórunum góðu sem gistu með krökkunum og fylgdu þeim hvert fótmál.

 

KFÍ vill einnig koma á framfæri þakklæti til allra þeirra á Hólmavík sem hafa liðsinnt félaginu í þessum árlegu hremmingum. Fyrst er að nefna starfsfólk sveitarfélagsins og húsráðendur í íþróttahúsinu á Hólmavík sem hafa í tvígang gert hópnum kleift að gista í íþróttahúsinu. Starfsfólki Kaupfélags Steingrímsfjarðar er einnig þakkað en það hefur verið boðið og búið að aðstoða hópinn í matarmálunum. Svo verður aðstoðin sem Björgunarsveitin Dagrenning veitti hluta hópsins fyrir tveimur árum seint fullþökkuð sem og liðsinni Ragnheiðar Ingimundardóttur sem var hópnum innan handar í ár líkt og fyrri ár.

Nánar

Góðir útisigrar um helgina

Körfubolti | 09.03.2015
Labrenthia Murdock á mikilli siglingu í leik KFÍ og Fjölins á sunnudaginn. Ljósmynd: Karfan.is.
Labrenthia Murdock á mikilli siglingu í leik KFÍ og Fjölins á sunnudaginn. Ljósmynd: Karfan.is.

Árangur meistaraflokksliða KFÍ um nýliðna helgi var býsna góður. Kvennaliðið lék tvo leiki og sigraði þá báða afar sannfærandi. Fyrri leikurinn var gegn FSu/Hrunamönnum en sá síðari gegn Fjölni. Með sigrum helgarinnar tryggðu stelpurnar sér annað sæti deildarinnar en hafa leikið einum leik meira en Stjarnan sem situr í þriðja sæti.. Karlaliðið lék einnig tvo leiki, tapaði fyrri leiknum gegn Breiðabliki en sigraði ÍA á Skaganum með einu stigi 71-70.

Nánar

Mikið um að vera hjá KFÍ um helgina

Körfubolti | 06.03.2015
Stelpurnar spila tvo mikilvæga útileiki um helgina.
Stelpurnar spila tvo mikilvæga útileiki um helgina.

Það verður í nógu að snúast hjá leikmönnum KFÍ um helgina á útivöllum sunnan heiða. Karlaliðið leikur tvo útileiki í fyrstu deild. Í kvöld mæta þeir Breiðablik en á sunnudagskvöldið mæta þeir ÍA upp á Skaga. Stelpurnar leika einnig tvo útileiki um helgina en á morgun laugardag mæta þær FSu/Hrunamönnum á Selfossi og á sunnudagskvöldið mæta þær Fjölni að Dalhúsum í Grafarvogi.

 

Auk þess lagði af stað fríður hópur minniboltakrakka, bæði strákar og stelpur, af stað í dag áleiðiðs á Nettómótið sem fram fer í Reykjanesbæ um helgina. 

Nánar

Natasa Andjelic í þjálfarateymið

Körfubolti | 05.03.2015
Natasa Andjelic
Natasa Andjelic

Það er heldur betur reynslubolti sem hefur staðfest komu sína í æfingabúðirnar. Hin serbneska Natasa Andjelic ætlar að miðla þátttakendum af reynslu sinni og þekkingu en hún á að baki 23 ára feril í körfubolta þar sem hún lék með bestu liðum Serbíu auk þess sem hún spilaði á Ítalíu og í Rússlandi. Hún varð Evrópumeistari með Dynamo Moskow árið 2007 og lauk svo ferlinum fyrir fáeinum árum á Kýpur. Í dag rekur Natasja umboðsskrifstofuna IPSA International auk þess sem hún var um tíma framkvæmdastjóri serbneska kvennalandsliðsins.

Nánar

Skráning hafin í körfuboltabúðirnar 2. - 7. júní nk.

Körfubolti | 05.03.2015

Körfuboltabúðir KFÍ verða haldnar 2. - 7. júní nk. og er skráning þegar hafin. Búðirnar hafa notið mikilla vinsælda undanfarin enda flott dagskrá í boði þar sem þátttakendum býðst að æfa undir stjórn frábærra þjálfara auk þess sem boðið er upp á mat og gistingu á hagkvæmu verði. Margir krakkar mæta ár eftir ár og eru það auðvitað bestu meðmælin búðunum.  Við hvetjum þá sem hafa hug á að mæta að skrá sig sem fyrst til að tryggja sér pláss í æfingabúðunum. Hægt er að skrá sig hér á síðunni undir Körfuboltabúðir eða með því að senda póst á netfangið kfibudir@gmail.com.

Nánar