Fréttir - Körfubolti

Birgir Björn og Linda Marín tilnefnd

Körfubolti | 07.01.2015
Birgir Björn Pétursson er tilnefndur af KFÍ sem Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Linda Marín Kristjánsdóttir er tilnefnd sem efnilegasti leikmaðurinn. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Birgir Björn Pétursson er tilnefndur af KFÍ sem Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Linda Marín Kristjánsdóttir er tilnefnd sem efnilegasti leikmaðurinn. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.

Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar hefur tilnefnt þau Birgi Björn Pétursson og Lindu Marín Kristjánsdóttur sem íþróttamenn Ísafjarðarbæjar. Birgir Björn er tilnefndur í flokknum Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar en Linda Marín í flokknum Efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar.

 

Birgir Björn Pétursson er máttarstólpi í liði KFÍ.  Hann hefur þroskast mikið sem leikmaður á undanförnum árum og náði svo einu af markmiði sínu þegar hann var valinn í A landsliðs úrtak Íslands og rétt missti af sæti í einu af sterkasta landsliði sem Ísland hefur átt í körfuknattleik. Landsliði sem nú mun fara í fyrsta sinn í lokakeppni í Evrópumóti. Hann stefnir á að komast í A landsliðshópinn og æfir af miklum metnaði með það að markmiði.  Birgir er góð fyrirmynd innan sem utan vallar sem sýnir að með þrautseigju og elju geti menn náð markmiðum sínum.

 

Linda Marín Kristjánsdóttir er í hópi bestu körfuknattleiksleikskvenna landsins í sínum aldursflokki. Hún var í æfingahópi U-15 landsliðs KKÍ fyrir árið 2014 og var nýverið valin í æfingahóp U-16 liðsins fyrir árið 2015. Auk þess spilar hún stórt hlutverk í liði meistaraflokks kvenna KFÍ í 1. deildinni á yfirstandandi keppnistímabili, þrátt fyrir ungan aldur. Linda Marín er eljusöm keppnismanneskja sem leggur hart að sér við æfingar og keppni. Hún tekur stöðugum framförum og hefur bætt sig mikið sem leikmaður og liðsfélagi undanfarið ár.

Nánar

Körfuboltadagur KFÍ

Körfubolti | 06.01.2015

Laugardaginn 10. janúar, kl. 9-13, verða haldnar stuttar körfuboltabúðir fyrir iðkendur KFÍ og aðra áhugasama körfuboltakrakka í íþróttahúsinu Torfnesi, Ísafirði. Búðirnar eru ætlaðar krökkum í 3.-10. bekk og verður þátttakendum skipt í hópa eftir getu.

 

Yfirþjálfarar búðanna verða Nebojsa Knezevic og Labrenthia Murdock en þeim til aðstoðar verður einvalalið þjálfara, m.a. úr meistaraflokkum KFÍ.

 

Pizzuveisla í lok æfingabúðanna og síðan er öllum þátttakendum boðið á leik kl. 14 þar sem meistaraflokkur KFÍ tekur á móti Þór Akureyri í 1. deild karla.

 

Þátttökugjald er 500 krónur.

Nánar

Jólakarfa á aðfangadag!

Körfubolti | 23.12.2014
Misþreyttir eldri iðkendur eftir jólakörfuna 2013.
Misþreyttir eldri iðkendur eftir jólakörfuna 2013.

Hin árlega jólakarfa KFÍ fer fram á aðfangadagsmorgun í íþróttahúsinu Torfnesi. Upplagt tækifæri fyrir alla fjölskylduna til að slá tvær flugur í einu höggi; hreyfa sig og baða sig fyrir hátíðina. Allir velkomnir!

Dagskrá:

10:00-11:00
Jólakarfa fyrir yngri krakka 6-14 ára.

11:00-13:00
Eldri iðkendur.

Stjórn yngri flokka KFÍ óskar öllum iðkendum félagsins og aðstandendum þeirra gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.

Nánar

Samþykkt að ganga til sameiningar

Körfubolti | 19.12.2014
Sameining íþróttafélaga á norðanverðum Vestfjörðum er hagsmunamál sem snertir ekki síst barna- og unglingastarf félaganna.
Sameining íþróttafélaga á norðanverðum Vestfjörðum er hagsmunamál sem snertir ekki síst barna- og unglingastarf félaganna.

Í gærkvöldi var samþykkt á félagsfundi KFÍ að taka fullan þátt í sameiningu íþróttafélaga á norðanverðum Vestfjörðum. Á fundinum kynnti Gísli Jón Hjaltason, formaður Boltafélags Ísafjarðar og Sævar Óskarsson, fyrrverandi formaður KFÍ, vinnu undirbúningshóps um sameiningu íþróttafélaganna. En þeir hafa, ásamt Sigurði Hreinssyni, formanni Blakfélagsins Skells, unnið að tillögum þessa efnis og kynnt þær fyrir íþróttafélögum á svæðinu.

 

Í kjölfar kynningar Gísla Jóns og Sævars var borin upp tillaga þess efnis að KFÍ taki þátt í sameininganefndinni sem verður skipuð tveimur fulltrúum frá hverju íþróttafélagi auk eins oddamanns sem sameiningarnefndin tilnefnir. Tillagan var samþykkt samhljóða. Þvínæst voru þeir Guðni Ólafur Guðnason og Sævar Óskarsson kosnir samhljóða sem fulltrúar KFÍ í sameiningarnefndinni.

 

Miðað er við að nefndin skili niðurstöðum fyrir 1. apríl næstkomandi.

 

Sjá nánar í fundargerð félagsfundarins.

Nánar

Glæsilegur sigur á Fjölni

Körfubolti | 15.12.2014
Stelpurnar náðu þriðja sætinu í deildinni eftir sigur á Fjölni á sunnudaginn.
Stelpurnar náðu þriðja sætinu í deildinni eftir sigur á Fjölni á sunnudaginn.

Kvennalið KFÍ hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og gerði sér lítið fyrir í gær, sunnudaginn 14. desember, og sigraði lið Fjölnis hér heima. Leiknum lauk með 10 stiga sigri 58-48 fyrir KFÍ. Þar með hafa stelpurnar sigrað þrjá leiki í röð og fara inn í jólafrí í þriðja sæti deildarinnar með þrjá sigra og þrjú töp.

 

Leikurinn fór nokkuð brösulega af stað en KFÍ braut ísinn á þriðju mínútu þegar Eva Margrét setti niður tvö víti. Gestirnir í Fjölni jöfnuðu svo skömmu síðar en Eva Margrét fór aftur á vítalínuna og kom KFÍ yfir á ný. Eftir það var ekki aftur snúið og hélt KFÍ forystu út allan leikinn. Undir lok fyrsta leikhluta og í byrjun annars náðu KFÍ stelpur góðum kafla og leiddu með 8-14 stigum út leikinn.

 

Allir leikmenn KFÍ lögðu sitt af mörkum líkt og í síðasta leik gegn FSu. Labrenthia Murdock Pearson daðraði við tvöfalda þrennu, var með 19 stig, 9 fráköst og 9 stolna bolta auk 7 stoðsendinga. Eva Margrét átti einnig góðan leik líkt og svo oft í vetur með 17 stig, 8 fráköst 2 stolna bolta. Alexandra Sif Herleifsdóttir var öflug inn í teygnum, skoraði 7 stig, tók 13 fráköst og 2 stolna bolta. Linda Marín skoraði 7 stig og tók 7 fráköst, Saga skoraði 6 stig og tók 4 fráköst, Hekla skoraði 2 stig og tók 2 fráköstog Rósa gaf 2 stoðsendingar og stal 4 boltum.

 

Hjá Fjölni var Erla Sif Kristinsdóttir stigahæst með 16 stig, 8 fráköst og 3 stolna bolta. Gréta María Grétarsdóttir var með 11 stig og 16 fráköst. Sigrún Anna Ragnarsdóttir var með 8 stigog 6 fráköst, aðrir leikmenn með minna.

 

Sjá nánar ítarlega tölfræði á vef KKÍ.

Nánar

Félgasfundur KFÍ um sameiningu íþróttafélaga

Körfubolti | 14.12.2014

Stjórn Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar boðar til félagsfundar (aukafundar) vegna fyrirhugaðrar sameiningar íþróttafélaga á norðanverðum Vestfjörðum. Fundurinn fer fram á fimmtudaginn 18. desember kl. 18:00 í húsnæði Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði að Aðalstræti 20.

 

Dagskrá:

  1. Kynning á vinnu undirbúningshóps sameiningar
  2. Umræður
  3. Kosning tveggja fulltrúa í sameiningarnefnd

Allir þeir sem koma að starfsemi KFÍ, jafnt iðkendur sem sjálfboðaliðar, foreldrar iðkenda og fylgismenn eru hvattir til að mæta á fundinn.

 

Boðað er til fundarins samkvæmt 9. gr. laga KFÍ um aukafund: „Aukafund félagsins má halda ef stjórn álítur þess þörf eða ef 2/3 hlutar atkvæðisbærra fundarmanna á aðalfundi félagsins óska eftir því, enda tilkynni þeir um leið það fundarefni er ræða á. Aukafundur er lögmætur ef til hans er boðað með helmingi styttri tilkynningarfresti en mælt er fyrir um í 6. gr. Um atkvæðisrétt og kjörgengi á aukafundi fer eftir 8. gr. Á aukafundi má ekki gera lagabreytingar.“

 

Um atkvæðisrétt og kjörgengi á aukafundi fer samkvæmt 8. gr. laga félagsins: „Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt eiga allir félagsmenn. Rétt til kjörgengis í stjórn eiga þeir félagar sem eru orðnir 18 ára.“

Nánar

Stelpurnar mæta Fjölni á sunnudagur

Körfubolti | 11.12.2014
Stelpurnar berjast um þriðja sæti deildarinnar á sunnudaginn.
Stelpurnar berjast um þriðja sæti deildarinnar á sunnudaginn.

Kvennalið KFÍ hefur verið á mikill siglingu undanfarið en liðið hefur unnið tvo síðustu leiki sína. Á sunnudaginn kemur, þann 14. desember kl. 14:00, mæta stelpurnar Fjölni hér heima. Bæði lið hafa unnið tvo leiki og sitja því jöfn að stigum í 3.-5 sæti deildarinnar ásamt Tindastóli. Því má segja að leikurinn á sunnudag sé í raun barátta um þriðja sætið en það lið sem sigrar á sunnudaginn á góðan möguleika á að komast í 3. sæti deildarinnar nema að Tindastóll sigri sinn leik og endi með hagstæðari stigahlutfall eftir hann.

 

Sem fyrr segir hefst leikurinn kl. 14:00 á Tornfesi. Allir að mæta og hvetja stelpurnar áfram á sigurbraut!

 

Þess má einnig geta að karlalið KFÍ mætir Hetti á Egilsstöðum föstudaginn 12. desember og verður spennandi að sjá hverning sá leikur fer en okkar menn töpuðu naumt í tveimur heimaleikjum gegn Hetti í haust og hafa þeir því harma að hefna.

Nánar

Glæsilegur sigur gegn FSu/Hrunamönnum

Körfubolti | 07.12.2014
Eva Margrét Kristjánsdóttir átti góðan leik í dag og setti 28 stig.
Eva Margrét Kristjánsdóttir átti góðan leik í dag og setti 28 stig.

Kvennalið KFÍ vann stórsigur á liði FSu/Hrunamanna í dag á Torfnesi. Þetta var öruggur sigur sem aldrei var í hættu og lauk leiknum 86-57.

 

Þótt gestirnir hafi verið fyrri til að skora með þriggja stiga körfu strax á annari mínútu tóku KFÍ stelpur í kjölfarið völdin í sínar hendur með góðum 12-0 kafla. Þegar fyrsta leikhluta lauk var staðan 23-11 KFÍ stelpum í vil. Gestirnir náðu að klóra nokkuð í bakkann byrjun annars fjórðungs og minnkuðu muninn í 25-17 einkum með góðri baráttu sem skilaði sóknarfráköstum og stigum í kjölfarið. KFÍ stelpurnar voru þó ekki á því að hleypa þeim sunnlensku inn í leikinn og settu aftur í fluggír með stolnum boltum og góðum þriggja stiga körfum. Í hálfleik var staðan því 47-28. Í þriðja fjórðungi héldu KFÍ stelpur uppteknum hætti og náðu að spila sinn leik þótt Labrenthia þjálfari hvíldi lykilleikmenn, þ.e. sig sjálfa og Evu Margréti. Það var sérstaklega ánægulegt að sjá reynsluminni leikmenn stiga upp og spila yfirvegaðan og góðan leik án lykilleikmannanna tveggja. Í loka fjórðungnum var aldrei hætta á að forskotið minnkaði og var glæsilegur sigur því staðreynd þegar flautað var til leiksloka 86-57. Góður leikur hjá stelpunum þar sem allir leikmenn lögðu sitt af mörkum.

 

Labrenthia Murdock Pearson, spilandi þjálfari KFÍ, var stigahæst með 31 sti, 7 fráköst og 7 stolna bolta. Eva Margrét átti einnig góðan leik með 28 stig, 9 fráköst og 4 stolna bolta. Alexandra Sif Herleifsdóttir var öflug inn í teygnum, setti 8 stig og tók 10 fráköst. Linda Marín Kristjánsdóttir setti einnig 8 stig og tók 2 fráköst. Reynsluboltinn Anna Soffía Sigurlaugsdóttir átti mjög góða innkomu skoraði 7 stig, tók 2 fráköst, stal boltanum 2 og gaf 2 stoðsendingar. Rósa Överby skoraði 2 stig, tók 4 fráköst, stal 2 boltum og gaf 2 stoðsendingar. Hekla Hallgrímsdóttir skoraði 2 stig og Saga Ólafsdóttir tók 5 fráköst.

 

Hjá gestunum var Nína Jenný Kristjánsdóttir stigahæst með 15 stig, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir skoraði 13 stig og Ragnheiður Björk Einarsdóttir 11. Margrét Hrund Arnarsdóttir og Karen Munda Jónsdóttir 8 stig hvor og Hrafnhildur Magnúsdóttir 2.

 

Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á heimasíðu KKÍ.

 

Næsti leikur kvennaliðs KFÍ er heimaleikur gegn Fjölni sem fer fram sunnudaginn 14. desember kl. 14:00.

Nánar

Stelpurnar mæta FSu á sunnudag

Körfubolti | 05.12.2014
Stelpurnar mæta FSu/Hrunamönnum á sunnudaginn.
Stelpurnar mæta FSu/Hrunamönnum á sunnudaginn.

Kvennalið KFÍ mætir liðið FSu/Hrunamanna í 1. deild kvenna á sunnudaginn 7. desember hér heima klukkan 14:00. Það hefur verið stígandi í leik stelpnanna frá frysta leik og mikilar framfarir í gangi. Stelpurnar unnu Tindastól á útivelli í síðustu umferð svo nú er um að gera að láta kné fylgja kviði og leggja gestina af Suðurlandi hér heima.

 

Fjölmennum á leikinn og styðjum stelpurnar!

 

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á KFÍ TV

Nánar

Tap á Selfossi

Körfubolti | 02.12.2014
Mynd: ingvi.stigsson.is
Mynd: ingvi.stigsson.is
1 af 4

Karlalið KFÍ reið ekki feitum hesti frá för sinni um Suðurlandsundirlendið síðustu daga. Á föstudaginn tapaðist leikur gegn Hamri í Hveragerði og í gærkvöldi tapaðist leikur gegn FSu á Selfossi en leikurinn átti upphaflega að fara fram á sunnudag en var frestað vegna veðurs.

 

Okkar menn byrjuðu ágætlega gegn FSu en undir lok fyrsta fjórðungs tóku Selfyssingar hresilega framúr. KFÍ liðið gafst þó ekki upp og átti góðan sprett í síðasta leikhlutanum en náði þó ekki að halda út og því var tap 101-86 staðreynd þegar flautað var til leiksloka. Nánar má fræðast um leikinn á heimasíðu FSu í ítarlegri samantekt. Einnig má nálgast ítarlegar tölfræðiupplýsingar á vef KKÍ.

 

Nebojsa var stigahæstur KFÍ manna með 27 stig, 4 fráköst og 6 stolna bolta. Birgir Björn var með 26 stig og 14 fráköst. Þá átti Óskar Kristjánsson sinn besta leik í vetur en hann setti 14 stig og var með 50% nýtingu í þriggja stiga skotum.

 

Hjá FSu var Collin Anthony Pryor atkvæðamestur með 27 stig og 18 fráköst og safnaði alls 45 framlagsstigum. Ari Gylfason, fyrrum liðsmaður KFÍ átti einnig góðan leik en hann setti 24 stig og var með góða skotnýtingu. Erlendur Ágústsson skoraði 22 stig.

 

Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Hetti á Egilsstöðum þann 12. desember.

 

Myndasafn úr leiknum

Nánar