Fréttir - Körfubolti

Sumaræfingar yngri flokka að hefjast

Körfubolti | 03.07.2015

Sumaræfingar yngri flokka hefjast næskomandi þriðjudag, 7. júlí. Þær verða tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum, milli 17-18. Það eru Nebojsa Knezevic og Gunnlaugur Gunnlaugsson Jr. sem sjá um æfingarnar en þær eru ætlaðar iðkendum sem fæddir eru 2004 og fyrr. Stefnt er að því að halda æfingunum úti fram yfir miðjan ágúst en það mun þó ráðast af aðsókninni.

Undanfarnar vikur hefur stór hópur krakka hist tvisvar í viku í útikörfu á Torfnesi en það var barna- og unglingaráð KFÍ að frumkvæði Árna Heiðars Ívarssonar sem kom því í kring með því að auglýsa ákveðinn tíma fyrir körfuna í facebook hópum yngri flokkanna. Nú sjá krakkarnir sjálfir að mestu um útikörfuna og er þetta skemmtilegur vettvangur fyrir þau til að hittast og halda sér aðeins við í körfunni um leið.

Nánar

Fjölmennustu Körfuboltabúðum KFÍ frá upphafi lokið

Körfubolti | 09.06.2015
Glæsilegur hópur sem tók þátt í Körfuboltabúðum KFÍ 2015. Ljósm. Halldór Sveinbjörnsson.
Glæsilegur hópur sem tók þátt í Körfuboltabúðum KFÍ 2015. Ljósm. Halldór Sveinbjörnsson.

Sjöundu og fjölmennustu Körfuboltabúðum KFÍ frá upphafi lauk síðastliðinn sunnudag. Í ár voru 95 þátttakendur frá 15 félögum. Auk þess tóku15 börn á aldrinum 6-9 ára þátt í litlu körfuboltabúðunum sem voru haldnar í fyrsta skipti í ár. Öllum þessum 110 krökkum þökkum við fyrir skemmtilega samveru og vonum að þau hafi notið dvalarinnar í búðunum. Frábæru þjálfarateymi með yfirþjálfarann Borce Ilievski í broddi fylkingar þökkum við gott samstarf og góða þjálfun. Síðast en ekki síst færum við þakkir öllum þeim sem á einn eða annan hátt hjálpuðu til við að gera Körfuboltabúðir KFÍ að veruleika. Þegar er búið að ákveða dagsetningu búðanna að ári en þær verða haldnar dagana 31. maí - 5. júní 2016. Vonandi sjáum við sem flesta þátttakendur aftur þá.

 

Benda má á að fjöldi skemmtilegra mynda er inni á facebook-síðu Körfuboltabúðanna - Körfuboltabúðir KFÍ - þar sem sjá má þá skemmtilegu og góðu stemmningu sem ríkti í íþróttahúsinu á Torfnesi 2. - 7. júní sl.

Nánar

Körfuboltabúðir KFÍ hefjast í dag!

Körfubolti | 02.06.2015
Dagskrá Körfuboltabúða KFÍ 2015
Dagskrá Körfuboltabúða KFÍ 2015

Upp er runninn fyrsti dagur Körfuboltabúða KFÍ 2015 en þær eru nú haldnar í 7. skipti. Hér á Ísafirði er allt orðið klárt og mikil tilhlökkun í loftinu að taka á móti körfuboltakrökkum sem hafa aldrei verið fleiri í búðunum.

 

Mótttaka þátttakenda hefst í íþróttahúsinu kl. 18:00 og búðirnar verða settar á sama stað kl. 20:00.

 

Hægt verður að fylgjast með daglegum fréttum af búðunum og myndum  á Facebook síðu þeirra. Myllumerkið okkar er #korfuboltabudirkfi. Sjáumst í Körfuboltabúðum KFÍ!

Nánar

Körfuboltabúðirnar að bresta á!

Körfubolti | 30.05.2015

Nú er aldeilis farið að styttast í Körfuboltabúðir KFÍ. Búðirnar verða settar þriðjudagskvöldið 2. júní kl. 20:00 í íþróttahúsinu á Torfnesi en móttaka þátttakenda verður á sama stað frá kl. 18:00. Aldrei hafa fleiri körfuboltakrakkar víðs vegar af landinu verið skráðir í Körfuboltabúðirnar. Þátttakendur eru hátt í 100 og búðirnar því nánast fullsetnar. Hér á Ísafirði er allt að verða klárt og mikil tilhlökkun í loftinu. Við lofum frábærum Körfuboltabúðum dagana 2.-7. júní.

 

Við minnum á Litlu körfuboltabúðirnar sem verða í boði fyrir 6-9 ára 3.-6. júní frá kl. 13:00-14:20. Skráning fer fram á staðnum og kosta búðirnar 5.000 kr.

 

Daglega munu birtat fréttir og myndir úr Körfuboltabúðunum, myllumerkið okkar er ‪#‎korfuboltabudirkfi‬

Nánar

Vetrarstarfi yngri flokka lokið

Körfubolti | 27.05.2015

Uppskeruhátíð yngri flokka var haldin fimmtudaginn 21. maí og tókst með miklum ágætum. Allir iðkendur  félagsins fóru heim með góðar umsagnir frá þjálfurunum sínum í farteskinu ásamt gjafabréf á ís með dýfu í Hamraborg. Við þökkum öllum þessum krökkum fyrir gott og skemmtilegt samstarf í vetur og hlökkum til að hittast á ný í haust. Gleðilegt sumar!

 

Styrktaraðilar Uppskeruhátíðarinnar fá sérstakar þakkir fyrir góðan hug og velvilja í garð félagsins en það eru Bakarinn, Umboðssala Hafsteins, Hamraborg og Bæjarins Bestu. 

Nánar

Uppskeruhátíð yngri flokka í dag

Körfubolti | 21.05.2015
Fjölmennum á Torfnes í dag.
Fjölmennum á Torfnes í dag.

Uppskeruhátíð yngri flokka KFÍ verður haldin með pomp og prakt í íþróttahúsinu á Torfnesi í dag. Hátíðin hefst kl. 17 og verður lokið vel áður en Júróvisjóndagskrá kvöldsins hefst. Hátíðin er ætluð iðkendum félagsins á aldrinum 6-16 ára, fjölskyldum þeirra, þjálfurum og velunnurum félagsins.

 

Veittar verða viðurkenningar, allir gestir fá að spreyta sig í körfuboltaleikjum og hátíðinni lýkur síðan með pylsupartíi og ís í boði félagsins og styrktaraðila. Við hvetjum alla sem komið hafa að starfinu með okkur í vetur til að mæta á Torfnes í dag og gleðjast með krökkunum og þjálfurum þeirra eftir vel heppnaðan vetur.

 

Mikil gróska hefur verið í starfsemi yngri flokka KFÍ í vetur, einkum í yngstu hópunum. Stúlkur hafa fjölmennt í körfuna og nú er svo komið að þær eru jafnvel fleiri en strákarnir ef allt er talið saman. Vetraræfingum félagsins er nú lokið en fyrirhugað er að bjóða upp á sumaræfingar sem hefjast í byrjun júlí og verða þær ætlaðar 10 ára iðkendum og eldri. Svo eru Körfuboltabúðirnar að sjálfsögðu rétt handan við hornið en þær fara fram dagana 2.-7. júní. Eins og flestir vita eru búðirnar stærsta einstaka verkefnið sem félagið ræðst í á ári hverju en þær eru nú haldnar í sjöunda sinn.

Nánar

Tvær vikur í Körfuboltabúðir - dagskráin komin í loftið

Körfubolti | 19.05.2015

Nú eru bara tvær vikur í körfuboltabúðir KFÍ en þær verða settar í íþróttahúsinu á Torfnesi þriðjudaginn 2. júní kl. 20:00.  Móttaka þátttakenda hefst kl. 18:00 á sama stað. Við hjá KFÍ hlökkum mikið til að taka á móti hressum körfuboltakrökkum héðan og þaðan af landinu. Í dag fór dagskrá búðanna í loftið og það stefnir allt í frábærar körfuboltabúðir!

 

Í körfuboltabúðunum er nú sem áður boðið upp á frábært þjálfarateymi. Yfirþjálfari í ár er Borce Ilievski nýráðinn yfirþjálfari yngri flokka ÍR. Með honum í þjálfarateyminu eru:

  • Natasa Andjelic, fyrrverandi atvinnumaður í körfubolta og Evrópumeistari með Dynamo Moskow 2007.
  • Arturo Alvarez, þjálfari Palmeiras í Brasilíu og þjálfari landsliðs Paragvæ.
  • Andri Þór Kristinsson, þjálfari mfl. kvenna hjá Haukum  og aðstoðarþjálfari U-20 ára kvennalandsliðs Íslands.
  • Árni Þór Hilmanrsson, hefur þjálfað Hrunamenn, HSK og Selfoss.
  • Benedikt Guðmundsson, fyrrverandi þjálfari Þórs, Þorlákshöfn og nýráðinn þjálfari Þórs á Akureyri.
  • Lárus Jónsson, fyrrverandi landsliðsmaður, yfirþjálfari Hamars og styrktarþjálfari hjá karlalandsliði Íslands.
  • Pétur Sigurðsson, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Fjölni og yngriflokka þjálfari, fyrrverandi aðstoðarlandsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands.

Enn eru nokkur pláss laus og er hægt að skrá sig hér. Sjáumst í Körfuboltabúðunum 2015!

Nánar

Sjö leikmenn skrifa undir samninga

Körfubolti | 16.05.2015
Leikmennirnir sem undirrituðu samninga fimmtudaginn 14. maí ásamt Birgi Erni þjálfara, Ingólfi Þorleifssyni formanni KFÍ og Florijan Jovanov leikmanni.
Leikmennirnir sem undirrituðu samninga fimmtudaginn 14. maí ásamt Birgi Erni þjálfara, Ingólfi Þorleifssyni formanni KFÍ og Florijan Jovanov leikmanni.

Það var talsverðu bleki úthellt í íþróttahúsinu á Torfnesi fimmtudaginn 14. maí síðastliðinn. Þegar hefur verið greint frá endurnýjun samnings við Birgi Örn Birgisson þjálfara og nýjum samning við Nökkva Harðarson en auk þeirra skrifuðu 7 leikmenn liðsins undir nýja samninga. Þetta voru þeir Andri Már Einarsson, Björgvin Snævar Sigurðsson, Gunnlaugur Gunnlaugsson, Jóhann Jakob Friðriksson, Óskar Ingi Stefánsson, Rúnar Ingi Guðmundsson og Sturla Stígsson. 

Nánar

KFÍ semur við Nökkva Harðarson

Körfubolti | 15.05.2015
Nökkvi Harðarson handsalar nýundirritaðann samning við Ingólf Þorleifsson formann KFÍ.
Nökkvi Harðarson handsalar nýundirritaðann samning við Ingólf Þorleifsson formann KFÍ.

KFÍ hefur samið við ungan og efnilegan leikmann úr Grindavík, Nökkva Harðarson, um að leika með liðinu næstkomandi vetur. Nökkvi, sem er 19 ára, varð á dögunum Íslandsmeistari með sameiginlegu liði drengjaflokks UMFG og Þórs Þorlákshöfn en lék einnig með meistaraflokki Grindvíkinga í Domino's deild karla á liðnu tímabili og kom við sögu í 7 leikjum. 

Nánar

Birgir Örn framlengir samning

Körfubolti | 15.05.2015
Birgir Örn Birgisson þjálfari og Ingólfur Þorleifsson formaður KFÍ við undirritun samningsins.
Birgir Örn Birgisson þjálfari og Ingólfur Þorleifsson formaður KFÍ við undirritun samningsins.

Birgir Örn Birgisson, þjálfari meistaraflokks karla hjá KFÍ, hefur framlengt samning sinn við félagið. Birgir Örn kom til starfa hjá félaginu fyrir tímabilið 2013-2014 og er því að hefur því sitt þriðja tímabil með meistaraflokk karla í haust. 

Nánar