Fréttir - Körfubolti

Samið við Helga Hrafn og Helga Bergsteinsson

Körfubolti | 15.09.2015
Ingólfur Þorleifsson, formaður og Helgi Hrafn Ólafsson.
Ingólfur Þorleifsson, formaður og Helgi Hrafn Ólafsson.
1 af 2

Að lokinni æfingu í gærkvöldi hjá meistaraflokki karla var nóg að gera hjá formanninum Ingólfi Þorleifssyni að skrifa undir samninga. Auk Daníels Þórs Midgley skrifuðu einnig undir samninga í þeir Helgi Hrafn Ólafsson og Helgi Bergsteinsson.

 

Helgi Hrafn Ólafsson er uppalinn á Ísafirði en flutti ungur að árum suður í Kópavog þar sem hann æfið körfuknattleik með Breiðabliki en auk Blika hefur Helgi Hrafn leikið með Laugdælum þar sem hann varð 2. deildar meistari 2010. Hann hefur verið virkur í félagsstarfi Blika, setið í stjórn og þjálfað í yngri flokkum en hér vestra hefur Helgi Hrafn einmitt tekið til við þjálfun yngstu iðkennda KFÍ og hefur hann umsjón með Krílakörfunni og Krakkakörfunni í vetur.

 

Helgi Bergsteinsson er uppalinn í KFÍ. Helgi er fæddur árið 1996 og hóf meistaraflokksferil sinn með KFÍ í úrvalsdeildinni árið 2014. Hann átti nokkrar góðar innkomur í leikjum síðasta tímabils og verður gaman að fylgjast með þessum unga leikmanni áfram.

Nánar

Daníel Þór Midgley semur við KFÍ

Körfubolti | 15.09.2015
Ingólfur Þorleifsson formaður og Daníel Þór Midgley.
Ingólfur Þorleifsson formaður og Daníel Þór Midgley.

Að lokinni góðri æfingu í gærkvöldi samdi bakvörðurinn knái Daníel Þór Midgley við KFÍ. Daníel er uppalinn í KFÍ og á að baki 42 leiki með félaginu í 1. deild og úrvalsdeild. 

Nánar

KFÍ og Strandamenn í samstarf

Körfubolti | 13.09.2015
Myndarlegur hópur körfuboltastráka en hópurinn er í reynd enn stærri en nokkrir voru forfallaðir á sunnudagsæfingunni.
Myndarlegur hópur körfuboltastráka en hópurinn er í reynd enn stærri en nokkrir voru forfallaðir á sunnudagsæfingunni.

Yngri flokkar KFÍ og Héraðssamband Strandamanna munu sameina krafta sína í vetur í tveimur aldurshópum drengja, 10. flokki og 8. flokki. Að minnsta kosti fjórir Strandamenn keppa með flokkunum á Íslandsmótum vetrarins, tveir í hvorum aldurshópi. Samtals telur hópurinn hátt í 20 stráka.

 

Blásið var til sameiginlegra æfinga beggja flokka nú um helgina og var æft á Torfnesi bæði laugardag og sunnudag en þjálfarar drengjanna eru Nebojsa Knezevic og Hákon Ari Halldórsson, Einnig aðstoðaði Nökkvi Harðarson við æfingar helgarinnar en hann þjálfar einmitt stóran hóp 7. flokks stúlkna KFÍ.

 

Öllum sem stóðu að æfingum helgarinnar bar saman um að vel hefði tekist til. Barna- og unglingaráð KFÍ væntir  mikils af samstarfinu við Strandamenn og lofar helgin góðu í þeim efnum. Það voru Körfuboltabúðir KFÍ í vor sem kveiktu þá hugmynd að láta strákana keppa saman í vetur en þrír af þeim sem nú eru gegnir til liðs við KFÍ tóku einmitt þátt í þeim búðum.

Nánar

Haustfjarnám 2015: 1. og 2. stig þjálfaramenntunar ÍSÍ

Körfubolti | 12.09.2015

Haustfjarnám 1. og 2. stigs þjálfaramenntunar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands mun hefjast mánudaginn 28. september nk. Námið stendur yfir í átta vikur á 1. stigi en fimm vikur á 2. stigi. Nám beggja stiga er allt í fjarnámi, engar staðbundnar lotur og gildir námið jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Námið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár og nemendur komið úr fjölmörgum íþróttagreinum.


Þjálfaramenntun ÍSÍ veitir réttindi til íþróttaþjálfunar og jafnframt rétt til áframhaldandi náms til frekari réttinda.
Þátttökugjald á 1. stig er kr. 25.000. Öll námskeiðsgögn eru innifalin og send á heimilisföng nemenda.
Þátttökugjald á 2. stig er kr. 22.000.


Skráning er á namskeid@isi.is eða í síma 514-4000 og þarf henni að vera lokið fyrir föstudaginn 25. september. Með skráningu þarf að fylgja fullt nafn, kennitala, heimilisfang, netfang og símanúmer og taka þarf skýrt fram á hvaða stig verið er að skrá. Rétt til þátttöku á 1. stigi hafa allir sem lokið hafa grunnskólaprófi.


Fyrir nánari upplýsingar um fjarnámið og aðra þjálfaramenntun ÍSÍ má hafa samband við :
Viðar Sigurjónsson vidar@isi.is eða í síma 460-1467 / 863-1399

Nánar

Birgir Björn til Þýskalands

Körfubolti | 10.09.2015
Birgir Björn í baráttunni á síðasta tímabili. Ljósmynd: Baldur Smári Ólafsson.
Birgir Björn í baráttunni á síðasta tímabili. Ljósmynd: Baldur Smári Ólafsson.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í dag hefur miðherjinn sterki Birgir Björn Pétursson ákveðið að söðla um og reyna fyrir sér í atvinnumennsku. Það var ánægulegt fyrir KFÍ að fá Birgi Björn aftur heim á síðasta tímabili, og njóta krafta hans á parketinu á Jakanum á ný, en það er ekki síður ánægulegt að sjá þennan öfluga leikmann taka skrefið út í hinn stóra heim. KFÍ óskar Birgi Birni góðs gengis á nýjum vígstöðvum.

Nánar

Búningamátun fyrir yngri flokka

Körfubolti | 10.09.2015

Nú líður að því að KFÍ taki nýja búninga í notkun en allt stefnir í að félagið keppi undir merkjum KFÍ í vetur þar sem stofnun nýja íþróttafélagsins, Vestra, hefur tafist nokkuð.

 

Boðið verður upp á mátun á næstu dögum fyrir yngri flokka félagsins og fer hún fram í íþróttahúsinu á Torfnesi nú á laugardag kl. 11-13 og á mánudag kl. 16-18. Búningarnir greiðast við afhendingu síðar í haust og kosta 9.000 krónur. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að nýta sér þetta tækifæri til mátunar og pöntunar nú þar sem ekki liggur fyrir hvenær pantað verður á nýjan leik.

Nánar

Rífandi stemmning á Körfuboltadeginum

Körfubolti | 07.09.2015
Yngstu iðkendurnir sýndu góð tilþrif á laugardaginn undir leiðsögn Björgvins og annarra meistaraflokksmanna.
Yngstu iðkendurnir sýndu góð tilþrif á laugardaginn undir leiðsögn Björgvins og annarra meistaraflokksmanna.
1 af 2

Hátt í 100 krakkar kíktu við á Körfuboltadaginn hjá okkur á Torfnesi á laugardaginn og hafa þeir sjaldan verið fleiri. Rífandi stemmning var í salnum en það voru leikmenn meistaraflokks karla ásamt þjálfurum yngri flokka sem héldu utan um leiki og ýmsar boltastöðvar. Sumir iðkendur hrepptu veglega vinninga í stinger og 3. stiga keppnum og allir fóru heim með plakat af íslenska landsliðinu í körfubolta sem hóf einmitt leik gegn Þýskalandi rétt í þann mun sem Körfuboltadeginum lauk.

 

Foreldrar og forráðamenn fjölmenntu með krökkunum og var ánægjulegt að sjá mörg ný andlit í þeim hópi. Það er von Barna- og unglingaráðs að sem flest áhugasöm börn láti verða af því að kíkja á æfingar hjá viðeigandi aldurshópum. Það kostar foreldra ekkert að leyfa yngstu krökkunum að æfa körfubolta og nýir iðkendur í minnibolta eldri og uppúr æfa gjaldfrjálst fyrstu tvo mánuðina. Farið verður á minniboltamót við hæfi hvers aldursflokks í vetur en krakkar í 7. flokki og eldri taka þátt í Íslandsmótum KKÍ.

 

Barna- og unglingaráð þakkar meistaraflokki fyrir aðstoðina á laugardaginn og sömuleiðis þökkum við að þessu sinni sérstaklega tveimur dyggum styrktaraðilum yngri flokkanna en það eru Samkaup og H.V. Umboðsverslun á Ísafirði.

Nánar

Körfuboltadagur KFÍ á laugardaginn

Körfubolti | 02.09.2015

Hinn árlegi Körfuboltadagur KFÍ verður haldinn á laugardaginn kemur, 5. september og stendur frá 11-13. Dagurinn markar upphaf vetrartímabilsins í yngri flokkum félagsins en þar gefst krökkum á öllum aldri tækifæri til að kynna sér körfuboltaíþróttina, fara í skemmtilega leiki, spreyta sig á boltastöðvum og fá upplýsingar um æfingatíma vetrarins. Liðsmenn úr meistaraflokki karla ásamt þjálfurum yngri flokka sjá um að allir skemmti sér vel.

 

Í vetur verður boðið upp á æfingar fyrir börn allt frá fjögurra ára aldri og er æft í alls tíu flokkum, bæði stúlkna og drengja. Æft verður í þremur íþróttahúsum á svæðinu, á Torfnesi og Austurvegi á Ísafirði og í íþróttahúsinu í Bolungarvík.

 

Heitt verður á könnunni á laugardagsmorgun og eru foreldrar og forráðamenn hvattir til að koma með börnum sínum, fá sér kaffibolla í góðum félagsskap og kynna sér starfsemi félagsins. Hollar og góðar veitingar verða á hliðarlínunni og bjóðum við alla velkomna.

Nánar

Æfingatafla KFÍ 2015-2016

Körfubolti | 28.08.2015

Æfingatafla KFÍ veturinn 2015-2016 er nú tilbúin en alls er æft í 11 flokkum í vetur, allt frá meistaraflokki karla til barna á leikskólaaldri í Krílakörfunni og Íþróttaskóla Árna Heiðars. Æfingar allra flokka hefjast samkvæmt æfingatöflu næstkomandi mánudag, 31. ágúst.

Nánar

KFÍ krakkar í úrvalsbúðum KKÍ

Körfubolti | 22.08.2015
Efri röð f.v.: Helena Haraldsdóttir, Sara Kristín Gunnsteinsdóttir og Rakel Damilola Adeleye . Miðröð f.v.: Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, Júlíana Lind Jóhannsdóttir, Katla María Sæmundsdóttir og Sædís Mjöll Steinþórsdóttir. Neðsta röð: Sara Emily Newman og Viktoría Rós Þórðardóttir. Á myndina vantar Hrafnhildi Unu Magnúsdóttur og Snæfríði Árnadóttur.
Efri röð f.v.: Helena Haraldsdóttir, Sara Kristín Gunnsteinsdóttir og Rakel Damilola Adeleye . Miðröð f.v.: Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, Júlíana Lind Jóhannsdóttir, Katla María Sæmundsdóttir og Sædís Mjöll Steinþórsdóttir. Neðsta röð: Sara Emily Newman og Viktoría Rós Þórðardóttir. Á myndina vantar Hrafnhildi Unu Magnúsdóttur og Snæfríði Árnadóttur.
1 af 2

Um helgina fór fram seinni æfingalota ársins í úrvalsbúðum KKÍ fyrir krakka sem fæddir eru 2002, 2003 og 2004, auk afreksbúða fyrir krakka sem fædd eru 2001. Fréttaritari KFÍ í höfuðborginni kíkti á æfingu hjá stelpunum og smellti mynd af þeim að lokinni góðri æfingu. 

Nánar