Fréttir - Körfubolti

Spennandi Vestfjarðamót framundan.

Körfubolti | 14.10.2011
Nú verður fjör
Nú verður fjör

Ríflega þrjátíu manna hópur iðkenda, þjálfara og aðstandenda í KFÍ er á leið til Patreksfjarðar í fyrramálið en þar fer fram Vestfjarðamótið í körfubolta um helgina. Mótið er ætlað iðkendum í minnibolta og 7. flokki, bæði strákum og stelpum, en það eru krakkar á aldrinum 9-12 ára. Í KFÍ hópnum eru bæði Ísfirðingar og Bolvíkingar og munu þeir etja kappi við iðkendur íþróttafélagsins Harðar á Patreksfirði og nærsveitamenn.

 

Nokkuð langt er um liðið síðan Vestfjarðamót í körfu var haldið síðast en það er von forystu KFÍ að takist vel til um helgina nái mótið að festa sig í sessi til framtíðar. Mótið er liður í auknu samstarfi KFÍ og Harðar en nú þegar hefur meistaraflokkur karla haldið þar æfingabúðir auk þess sem 10. flokkur stúlkna var þar á dögunum í æfingaferð. Hörður á Patreksfirði hefur skipulagt spennandi dagskrá fyrir Vestfjarðamótið með pizzuveislu, bíóferð og diskói til viðbótar körfuboltanum en aðstaða til svona mótshalda er til mikillar fyrirmyndar á Patreksfirði.

Nánar

Ný æfingatafla loksins tilbúin

Körfubolti | 13.10.2011
Og þá byrjar ballið :)
Og þá byrjar ballið :)

Nú hefur endanlega tekist að ganga frá æfingatöflu KFÍ fyrir veturinn 2011-2012 en óvenju erfiðlega gekk að koma henni saman að þessu sinni. Ásókn í íþróttahúsið á Torfnesi er meiri en framboð á tímum og því er það verulegt pússluspil að reyna að koma til móts við þarfir allra félaga.

 

Pétur Már Sigurðsson, yfirþjálfari KFÍ, biður alla þá velvirðingar sem orðið hafa fyrir óþægindum af þessum sökum en hann er sannfærður um að gerð æfingatöflu næsta vetrar muni ganga betur í ljósi reynslunnar í haust. Töfluna má finna hér.

Nánar

Fjörið að byrja.

Körfubolti | 11.10.2011
Allir á Jakann
Allir á Jakann

Um næstu helgi byrjar fjörið hjá KFÍ. Stúlknaflokkur KFÍ fer til Hveragerðis til keppni og spilar þar gegn Hamar, Breiðabik, Þór Akureyri og ÍR á laugardag og sunnudag.

 

Minniboltinn og 7. flokkur stúlkna og drengja fer á Patreksfjörð og tekur þá í Vestjarðarmóti þar og er fríður hópur krakka og foreldra á ferðinni þar.

 

Unglingaflokkur tekur á móti liði KR hér á Jakanum og fer leikurinn fram kl. 13.00 á laugardag 15. október.

 

Og síðast en ekki síst byrjar keppni í 1. deild hjá okkur með hörkuleik gegn Hamri hér á Jakanum á sunnudagskvöldið 16. október kl. 19.15.

 

Við vonumst til að sjá sem flesta á þessum leikjum bæði heima og að heiman.

 

Áfram KFÍ

Nánar

Unnið að ljósleiðaratengingu fyrir KFÍ-TV

Körfubolti | 08.10.2011
Stulli, Gautur og Gaui (sem var meira þarna til að röfla strákana áfram)
Stulli, Gautur og Gaui (sem var meira þarna til að röfla strákana áfram)
1 af 3

Það voru röskir drengir sem mættu í grenjandi rigningu snemma í morgun og hófust handa við að leggja ljósleiðara á Jakann. Þarna var Jakob Einar frá hans fyrirtæki. Sturla Stígs og Björn Davíðsson frá Snerpu og feðgarnir Gaui og Gautur, en þeir Jakob Einar, Stulli, Gaui og Gautur eru einmitt á bak við KFÍ-TV. Allt er þetta gert í sjálfboðavinnu og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Og þetta væri ekki mögulegt nema vegna mikils velvilja Gröfuþjónustu Jakobs Einars og Snerpu. 

Það verður gaman að sjá leikinn gegn Hamri á næstu helgi í toppgæðum með toppfólki í toppskapi.

Nánar

KFÍ og Vestfirskir Verktakar í samstarf

Körfubolti | 05.10.2011

Vestfirskir Verktakar og KFÍ skrifuðu undir samning á dögunum og eru báðir aðilar mjög ánægðir. Vestfirskir koma til með að vera stór styrktaraðili KFÍ og er styrkur þeirra kærkominn til handa KFÍ, en eins og allir vita er dýrt að halda úti liði á landsbyggðinni. HÉR má sjá heimasíðu þeirra og hvetjum við fólk að kynna sér starfsemi þeirra.

 

KFÍ vill koma á þökkum til starfsfólks Vestfirskra Verktaka og bjóðum þá velkomin í fjölskylduna. 

Nánar

Troðfullt hús og mikið fjör á KFÍ deginum

Körfubolti | 01.10.2011
Það var mikið fjör í morgun :)
Það var mikið fjör í morgun :)

KFÍ dagurinn tókst með eindæmum vel. Um 400 manns komu á Jakann í morgun og skein gleði úr allra augum. Má með sanni segja að þessi dagur hafi slegið í gegn. Þegar fólk bar að tók á móti þeim meistaraflokkar félagsins og stjórn.

 

Íþróttaleikjaskóli KFÍ með þeim Árna "Íþróttaálfs" og Ernu var með aðstöðu fyrir yngstu "púkana" og var fjölmennt þar.

 

Meistaraflokkar KFÍ undir stjórn Péturs þjálfara var með leikjastöðvar og Kristján "gullbarki" Andrésson sem sagði meðal annars þann sannleik að Pétur Már hafi gefið tvær stoðsendingar á sínum ferli.

 

Tekið var við nýskráningum, seld árskort og veitingar voru slíkar að öll borðin í húsinu svignuðu undan þunganum.

 

Hljómsveitin Klisja sem meðal annars er skipuð drengjum úr 10. flokki KFÍ voru frábærir og spiluðu allan tímann við mikla kátínu gesta.

 

KFÍ vill koma á framfæri þökkum til allra sem gerðu þenna dag nog hlakkar til að hefja veturinn með keppni allra flokka. 

 

Fjölnir Baldursson meistari kom og tók upp á myndband daginn og er afraksturinn HÉR

Nánar

Fjölskylduhátíð KFÍ laugardaginn 1. október

Körfubolti | 27.09.2011
Fjölskyldudagur KFÍ er mikið fjör
Fjölskyldudagur KFÍ er mikið fjör

Öllum íbúum Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkur, börnum jafnt sem fullorðnum er boðið á fjölskylduhátíð laugardaginn 1. október í Íþróttahúsinu á Torfnesi milli 11-13.

Dagskrá fjölskylduhátíðar KFÍ

  • Meistaraflokkar félagsins verða á staðnum og taka þátt í leikjum og árita plaköt
  • Þjálfarar KFÍ verða með þrautir og æfingar fyrir alla
  • Íþróttaleikjaskóli Árna og Ernu verður á staðnum
  • Ýmsir klassískir leikir verða á dagskrá s.s. "Stinger"
  • Hljómsveitin Klysja tekur nokkur lög
  • Veitingar verða í boði KFÍ

 

Komdu í körfu. Skráning í KFÍ er á staðnum og eru engin æfingagjöld fyrstu tvo mánuðina.


Mömmur, pabbar, afar, ömmur, frænkur, frændur, systur, bræður og vinir þeirra - Allir velkomnir í íþróttarhúsið á Torfnesi á laugardaginn.

 

"KÖRFUBOLTI ER FYRIR ALLA"

Nánar

Komnir heim reynslunni ríkari

Körfubolti | 25.09.2011
Góð æfingaferð í alla staði
Góð æfingaferð í alla staði

Meistaraflokkur KFÍ fór í örferð suður og spilaði tvo æfingaleiki gegn Borgarnesi og Hamar. Þessir leikir voru liður í að sjá hvar við stöndum í æfingaferlinu og sjá hvað má bæta fyrir mótin í vetur. Fimmtán manna hópur fór í ferðina og fengu allir að spila.

 

Fyrsti leikur okkar var gegn Borgarnesi og vannst hann 99-57. Þess ber þó að geta að Borgnesingar eiga eftir að fá báða sína erlendu leikmenn og var Pálmi líkt og Pétur að leyfa öllum ungu strákunum að spreyta sig. Við áttum fína spretti og var sérstaklega gaman að sjá baráttuna í liðinu og þriggja stiga nýting var góð eða 21/13.  Stigaskor var sem hér segir: Ari 19, Kristján 19, Chris 13 (15 fráköst og 5 varin skot), Craig 15, Gautur 6, Leó 6, Nonni 6, Jón Hrafn 6, Sævar 4, Siggi Haff 4, Hlynur 4, Simmi 1.

 

Seinni leikur okkar var gegn Hamri og vorum við lengi að komast í gang og duglegir strákar í Hamri báru enga virðingu fyrir okkur. Gaman er að sjá að Raggi Nat. er kominn af stað hjá Hamri en hann meiddist í haust.  Eftir mikinn klaufaskap af okkar hálfu í vörn og sókn tókum við af skarið í restina og unnum fjórða leikhluta 34-4 og tókum leikinn 76-46. Hamar er ekki kominn með sinn erlenda leikmann og einnig vantaði Svavar Pál í liðið og munar um minna. Pétur þjálfari og Lalli þjálfari Hamars leyfðu öllum að spila og er það vel því einhvern tímann verða ungu strákarnir að fá reynslu. Stigaskor var sem hér segir: Chris 21 stig (18 fráköst, 6 varin skot), Craig 19, Jón Hrafn 11, Kristján 10, Ari 10, Siggi Haff 3, Simmi 2.

 

Það er langt í land hjá okkur, en erum þó alveg á þeim stað sem Pétur Már þjálfari taldi að drengirnir væru á. Það sem hann var að reyna fá út úr þessum leikjum var að sjá hvar menn væru komnir í varnar og sóknarkerfum og var hann fljótur að kippa mönnum út af ef þeir voru ekki með sitt á hreinu og á það við með alla. Nú fer restin af æfingum fram að móti að taka frá þessum leikjum lexíu og bæta það sem betur mátti fara. Og eitt er á tæru. Það verða engin frí gefin.

 

Það sem best var við þessa ferð var að sjá hve góður liðsandi er í hópnum og það er aldrei sjálfgefið. Í lokinn viljum við þakka Borgnesingum og Hvergeringum fyrir góðar móttökur og gestrisni. Og kærar þakkir til drengjanna að leggja á sig þessa erfiður ferð.

Nánar

Meistaraflokkur karla á leið suður

Körfubolti | 23.09.2011
KFÍ drengirnir að plana átök vetrarins
KFÍ drengirnir að plana átök vetrarins

Meistaraflokkur karla er á suðurleið og mun spila tvo æfingaleiki. Sá fyrri er gegn Borgarnesi í kvöld 23. sept. og hefst kl. 19.00. Sá síðari er gegn Hamar í Hveragerði og er á morgun 24. sept. og hefst kl. 13.00.

 

Við skorum á sem flesta aðfutta Vestfirðinga að koma og sjá drengina okkar. Núna er undirbúningur á fullu og er þetta liður í að sjá hvar við stöndum í ferlinu. 

 

Nú fer að koma að byrjun móts en aðeins eru þrjár vikur eru í mót og er spenna í öllum flokkum, en Pétur Már er með 9. flokka í mótum vetrarins og verður því nóg að gera hjá KFÍ.

Nánar

Skráning í yngri flokka

Körfubolti | 16.09.2011
Nú er bara að skrá sig
Nú er bara að skrá sig

Í samstarfi við HSV hefur KFÍ tekið upp Nori skráningar- og greiðslukerfi.  Kerfið heldur utan um upplýsingar um iðkendur og foreldra.  Foreldrar skrá börn sín á námskeið og ganga frá æfingagjöldum um leið.

Nánar