Fréttir - Körfubolti

Stelpurnar börðust við bestu lið landsins

Körfubolti | 22.02.2016
Stund milli stríða hjá KFÍ stelpunum í firnasterkri umferð í A-riðli Íslandsmótsins í 7. flokki.
Stund milli stríða hjá KFÍ stelpunum í firnasterkri umferð í A-riðli Íslandsmótsins í 7. flokki.
1 af 2

Sjöundi flokkur stúlkna KFÍ (Vestra) háði harða baráttu í Grindavík um helgina þar sem fram fór þriðja umferð í A- riðli Íslandsmótsins. Stúlkurnar unnu sig upp úr B-riðli hér heima í nóvember og voru því að takast á við fjögur af bestu liðum landsins nú um helgina. Aðeins munaði þremur stigum á því að þær næðu að halda sæti sínu í riðlinum en leikar fóru þannig að þær keppa aftur í B-riðli í næstu umferð sem er næst síðasta umferð mótsins.

 

Fyrsti leikur mótsins var við heimastúlkur en þær eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Leikurinn var í járnum í byrjun og komust KFÍ stúlkur í 4-0 en þá settu grindvísku stelpurnar í lás og hlupu agaðan sóknabolta og náðu fram öruggum sigri, 17-62.

 

Annar leikurinn á laugardeginum var á móti Keflavík og mættu stelpurnar okkar af krafti inn í leikinn, búnar að hrista spennuna og stressið úr sér eftir leikinn við Grindavík og uppskáru hörkuleik við Keflavík. Keflavíkingar voru þó alltaf 4-6 stigum yfir þar til aðeins voru eftir þrjár mínútur af 3. leikhluta. Þá náðu KFÍ stúlkur að minnka muninn niður í tvö stig, 16-18. Keflavík tók þá leikhlé og endurskipulagði leikinn sinn. Það virkaði svona ljómandi vel því þær náðu að loka gjörsamlega á lið KFÍ sem skoraði ekki meira í þessum leik, lokastaðan 16-33.

 

Þriðji leikurinn, sem fram fór á sunnudag, var á móti Stjörnunni úr Garðabæ og var það úrslitaleikur um hvort liðanna myndi fara niður úr riðlinum. Leikurinn var í járnum allan leiktímann og voru áhorfendur farnir að naga neglurnar uppí stúku, svo mikið var stressið. Liðin skiptust á að halda forystu fyrstu mínúturnar en þegar flautað var til hálfleiks skildu aðeins tvö stig liðin að, 10-12. Seinni hálfleikur var ekki minna spennandi þar sem liðin skiptust á að spila góða vörn og var lítið skorað. Eftir mikla baráttu tapaðist leikurinn með þremur stigum, 23-26, en þetta var klárlega leikur sem hefði getað dottið báðum megin. Fjórði og síðasti leikurinn var svo á móti gríðarlega sterku liði Njarðvíkur og var sá leikur algjör einstefna. KFÍ stúlkurnar máttu sín lítils gegn Njarðvíkingunum sem sigruðu frekar auðveldlega 16-67.

 

Þótt sigrarnir hafi ekki fallið KFÍ-megin þessa helgi er engum blöðum um það að fletta að félagið hefur á að skipa firnasterkum hópi stúlkna í þessum aldurshópi sem náð hefur að blanda sér í baráttu sterkustu liða landsins. Framfarirnar eru miklar og með auknu úthaldi, tækni og góðu utanumhaldi verða þessum hópi allir vegir færir í framtíðinni. Þær voru frábærar jafnt innan sem utan vallar og félaginu sínu til mikils sóma.

 

Rétt er að geta þess að fyrirtæki hér í bæ eru einstaklega dugleg við að styrkja starf yngri flokka félagsins, ekki síst þegar farið er í ferðir sem þessar þar sem þörf er á mikilli næringu. Bakaríin hafa alla tíð veitt mikinn stuðning og svo eru bæði heildsölur og Samkaup drjúgir styrktaraðilar. Að þessu sinni voru það Samkaup og Gamla Bakaríið sem lögðu hópnum lið og þakkar félagið kærlega fyrir veittan stuðning.

Nánar

Útivallahelgi hjá KFÍ (Vestra)

Körfubolti | 18.02.2016
Birgir Björn og félagar verða í eldlínunni annað kvöld gegn Blikum.
Birgir Björn og félagar verða í eldlínunni annað kvöld gegn Blikum.

Það verður mikið um að vera hjá körfuknattleiksfólki KFÍ (KKD Vestra) um helgina á útivöllum. Meistaraflokkur karla mætir Breiðabliki á útivelli í Smáranum á morgun föstudag kl. 20:00. Við hvetjum að sjálfsögðu stuðningsmenn liðsins fyrir sunnan til að mæta og styðja við strákana.

 

Sjöundi flokkur stúlkna, undir stjórn Nökkva Harðarsonar, mætir svo til leiks í A-riðli Íslandsmótsins en þessar efnilegu stelpur komust upp úr B-riðli á síðasta fjölliðamóti sem fram fór hér heima í nóvember. Stelpurnar eru því komnar í hóp bestu liða landsins í sínum aldursflokki og mæta Grindavík, Keflavík, Njarðvík og Stjörnunni um helgina. Leikir liðsins fara fram á laugardag og sunnudag í Mustad höllinni í Grindavík. 

Nánar

Mannabreytingar hjá KFÍ

Körfubolti | 15.02.2016

Stjórn KFÍ (KKD Vestra) og Birgir Örn Birgisson hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hann stigi til hliðar sem þjálfari meistaraflokks karla KFÍ. Birgir mun áfram sinna þjálfun hjá yngri flokkum félagsins.

 

Stjórn KFÍ hefur undanfarið leitað leiða til styrkja starfsemi yngri flokka félagsins. Niðurstaðan er sú að ráða til félagsins yfirþjálfara sem sinna mun þjálfun og skipulagi yngri flokkanna ásamt þjálfun meistaraflokks karla. Uppbygging yngri flokkanna er fjöregg félagsins, en mjög hefur fjölgað í yngri æfingahópum undanfarin misseri og brýnt að koma skipulagi þeirra í fastari skorður. Því telur stjórn mikilvægt að huga strax að þessum framtíðaráformum. Til að liðka fyrir leit að einstaklingi í þessa nýju stöðu hjá félaginu er það sameiginleg ákvörðun stjórnar KFÍ og Birgis Arnar að hann víki sem þjálfari meistararaflokks en sinni áfram þjálfun á vegum yngri flokkanna.

 

Stjórn KFÍ færir Birgi Erni bestu þakkir fyrir hans fórnfúsa starf í þágu félagsins undanfarin ár og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við hann. Þar til nýr yfirþjálfari kemur til starfa munu þeir Guðni Ólafur Guðnason og Shiran Þórisson stýra æfingum og leikjum meistaraflokks karla.

Nánar

Þjálfarateymið fullskipað

Körfubolti | 15.02.2016

Það er ánægjulegt að segja frá því að búið er að fullmanna þjálfarateymið hjá okkur fyrir næstu körfuboltabúðir. Áður hefur verið greint frá því að Finnur Freyr Stefánsson, Borce IIlievski, Natasja Andjelic og Arturo Alvarez verða með okkur en þjálfararnir sem bætast við hópinn eru eftirfarandi:

 

ISRAEL MARTIN þekkja íslenskir körfuboltaunnendur vel en hann gerði Tindastól að silfurliði síðustu leiktíðar. Hann tók síðan við danska stórliðinu Bakken Bears sem urðu danskir bikarmeistarar núna í janúar og halda sig nálægt toppnum í dönsku úrvalsdeildinni.

 

SCOTT STAPLER eigandi og yfirþjálfara Alabama Basketball Academy. Hann var með okkur í búðunum árið 2012 og er ánægjulegt að fá hann aftur til starfa enda með mikla þekkingu og reynslu sem leikmaður og þjálfari.

 

KRIS ARKENBERG hefur undanfarin ár verið aðstoðarþjálfari hjá háskólaliðinu New Orleans Privateers. Eitt af helstu verkefnum hans hefur verið að efla skot- og bakverði liðsins sem hefur m.a. skilað eftirtektarverðum árangri í fjölgun stoðsendinga í leikjum liðsins.

 

SIGURÐUR HJÖRLEIFSSON er meðal þekktustu körfuboltaþjálfara landsins og á að baki sérlega farsælan feril sem þjálfari yngri flokka hjá KR og U-landsliða í gegnum tíðina. Margir af bestu leikmönnum landsins hafa vaxið úr grasi undir hans handleiðslu og er ómetanlegt að fá slíkan reynslubolta í búðirnar til okkar.

 

Auk þeirra flottu þjálfara sem hér hafa verið taldir upp, verður hópur aðstoðaþjálfara sem leggur sitt af mörkum til að skapa sem besta umgjörð utan um körfuboltabúðirnar

Nánar

10. flokkur í fjölliðamóti

Körfubolti | 09.02.2016

10. flokkur lagði land undir fót  í ófærðinni um síðustu helgi og braust af harðfylgi til Grindavíkur og til baka.

 

Lagt var í hann kl. 07.00 að laugardagsmorgni og rétt náðum við í fyrsta leik kl. 14.30, vorum mættir á svæðið 14.20.  Drengirnir drifu sig í búninga og ekkert spáð í ferðaþreytu og tekist á við sameiginlegt lið Hattar og Sindra.  Strákarnir mættu klárir í leikinn og byrjuðu meðlátum, komust í 7-0 og 12-2.  Hattarmenn náðu síðan að klóra í bakkann og staðan eftir fyrsta fjórðung 17-12 fyrir okkur.    Fjórðungur nr. 2 var einnig ströggl, full mikið af mistökum og staðn í hálfleik 22-19.  Skemmst er síðan að segja frá því að síðari hálfleikur vannst með yfirburðum 41-8 og lokatölur 63-27.  Strákarnir fóru að spila fína vörn og keyra upp hraðan sem skilaði sér í þessum góða sigri.

Stigin:

 

Hilmir Hallgrímsson 15 2  4-3
Hugi Hallgrímsson 14    4-2
Haukur Rafn Jakobsson 12    2-2
Benedikt Hrafn Guðnason 8    8-2
Blessed Parilla 6    
Tryggvi Fjölnisson 5 1  
Egill Fjölnisson 2    
Daníel Wale 1    2-1

 Þorleifur Ingólfsson og Stefán Ragnarsson skoruðu ekki en stóðu sig vel.

 

Leikur #2

KFÍ-Fjölnir  83-48

Fjölnismenn urðu næstu andstæðingar.  Fram að þessu höfðum við ekki unnið Fjölni í þessum aldursflokki og sigurinn því kærkominn.  Strákar spiluðu vel, vörnin var góð og mörg stig fengust úr hraðaupphlaupum.

Stigin:

  Stig Þristar Víti
Hilmir Hallgrímsson 21 3  
Haukur Rafn Jakobsson 12    
Hugi Hallgrímsson 10 2  
Daníel Wale 10    1-0
Benedikt Hrafn Guðnason 8    4-0
Egill Fjölnisson 8    
Stefán Ragnarsson 6    
Blessed Parilla 4    
Tryggvi Fjölnisson 4    

 

Þetta þýddi að lokaleikurinn gegn Grindavík var hreinn úrslitaleikur um sigur í riðlinum og strákarnir því ákveðnir að koma sér upp í C-riðil.

Við byrjuðum leikinn vel, komumst í 5-0 en Grindvíkingar jafna.  Leikur var síðan jafn fram í hálfleik og staðan þá 21-21.  Nokkuð var farið af draga af okkar mönnum, Bensi lasinn og gat ekki spilað og síðan missum við Hauk í ökklameiðsli í 3. fjórðung.  Samhliða þessu hertu Grindvíkingar á vörninni og ýttu okkur út úr okkar leik og fórum við að taka verri skot og tapa boltum.  Síðari hálfleikur fór 29-16 fyrir Grindavík og leikur því 50-37.  Strákarnir börðust vel og reyndu hvað þeir gátu en Grindavík of stór biti.

Stigin:

  Stig Þristar Víti
Hilmir Hallgrímsson 12 3  2-1
Daníel Wale 8 1 2-0
Egill Fjölnisson 7 1  
Haukur Rafn Jakobsson 6    4-2
Hugi Hallgrímsson 4    

 

Heilt yfir var mótið þó gott af okkar hálfu.  Liðið að spila fínan körfubolta á köflum og hefur fararstjóri ekki séð svo fínan körfubolta áður frá drengjunum.  Liðið í mikilli framför hjá Nebojsa þjálfara.  Nú er bara að æfa vel fram að næsta móti og vinna D-riðilinn.

 

Venju skv. voru strákarnir sér og liði sínu til mikils sóma

Nánar

KFÍ mætir Hamri

Körfubolti | 08.02.2016
KFÍ tekur á móti Hamri á morgun þriðjudag.
KFÍ tekur á móti Hamri á morgun þriðjudag.

Á morgun, þriðjudaginn 9. febrúar, er komið að leik KFÍ og Hamars í 1. deild karla í körfubolta hér heima. Leikurinn átti að fara fram síðastliðinn föstudag en var frestað vegna veðurs. Leikurinn hefst líkt og venja er kl. 19:15.

 

Þetta er mikilvægur leikur fyrir okkar menn og hvetjum við því alla til að mæta og styðja við bakið á liðinu.

 

Að vanda verður leikurinn í beinni útsendingu á Jakinn-TV.

 

Grillið fær þó frí að þessu sinni en sjoppan verður opin.

Nánar

Orkubú Vestfjarða styrkir samstarf KFÍ og HSS

Körfubolti | 08.02.2016
Frá afhendingu samfélagsstyrkja OV á miðvikudag. Kristján Haraldsson orkubússtjóri fyrir miðju ásamt fulltrúum ýmissa félagasamtaka á norðanverðum Vestfjörðum sem hlutu styrki að þessu sinni.
Frá afhendingu samfélagsstyrkja OV á miðvikudag. Kristján Haraldsson orkubússtjóri fyrir miðju ásamt fulltrúum ýmissa félagasamtaka á norðanverðum Vestfjörðum sem hlutu styrki að þessu sinni.

Síðastliðinn miðvikudag veitti Orkubú Vestfjarða sína árlega samfélagsstyrki og hlutu Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar (Vestri) og Héraðssamband Strandamanna sameiginlegan styrk að upphæð 150.000 krónur. Styrkurinn er veittur til samstarfsverkefnis félaganna í yngri flokkum körfunnar en drengir af Ströndum hafa leikið með tveimur flokkum KFÍ í vetur, annarsvegar 8. flokki og hinsvegar 10. flokki.

 

Birna Lárusdóttir, formaður barna- og unglingaráðs KFÍ, veitti styrknum viðtöku við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Orkubúsins að Stakkanesi á Ísafirði. Það var Kristján Haraldsson, orkubússtjóri, sem afhenti styrkina en alls bárust 57 umsóknir í sjóðinn.  Að þessu sinni var veittur 31 styrkur samtals að upphæð þrjár milljónir króna.

 

Þetta er í þriðja sinn sem yngri flokkar KFÍ hljóta samfélagsstyrk OV og hafa styrkirnir komið sér afar vel fyrir rekstur yngri flokka félagsins. Er Orkubúi Vestfjarða færðar bestu þakkir fyrir þennan mikilvægan stuðning.

Nánar

Gott gengi strákanna og stelpunýliðarnir stimpla sig rækilega inn

Körfubolti | 06.02.2016
8. flokkur drengja ásamt þjálfaranum Hákoni Ara Halldórssyni að loknu mótinu í Hertz-hellinum.
8. flokkur drengja ásamt þjálfaranum Hákoni Ara Halldórssyni að loknu mótinu í Hertz-hellinum.
1 af 2

Báðir 8. flokkar KFÍ (Vestra), stelpna og stráka, kepptu í Íslandsmóti um síðustu helgi en mótin fóru bæði fram í Reykjavík. Strákarnir sóttu ÍR heim í Hertz-hellinn en stelpurnar voru gestir Valsstúlkna á Hlíðarenda. Þær spiluðu aðeins á sunnudeginum og hófu leik snemma dags gegn b-liði Vals sem þær unnu auðveldlega 18-16. Leikurinn var aldrei í hættu þótt tölurnar tali öðru máli. Hinsvegar reyndist a-lið gestgjafanna öllu erfiðara og tapaðist sá leikur með miklum mun, 20-50. Segja má að stelpurnar hafi varla séð til sólar í þeim leik. Lokaleikurinn var gegn KR og voru stelpurnar staðráðnar í að gera betur þar. Þær buðu upp á hörkuleik þar sem leikgleðin var allsráðandi. Staðan var hnífjöfn í leikhléi 18-18 en eftir mikla baráttu og hörkuvörn KR stelpna tapaðist leikurinn með 8 stigum 34-42. Engu að síður var þetta frábær leikur sem var bæði skemmtilegur og spennandi.

 

Flott helgi er að baki hjá KFÍ stúlkum sem hafa tekið miklum framförum í vetur undir stjórn Nökkva Harðarsonar. Hafa ber í huga að liðið er nær alfarið skipað nýliðum, flestar stelpurnar stigu sín fyrstu skref á körfuboltavellinum í haust og verður því gaman að sjá þær halda áfram að bæta sig. 

 

Strákarnirí 8. flokki  voru ósigraðir eftir tvær umferðir mótsins og höfðu unnið sig upp úr D-riðli í B-riðil. Þar mættu þeir fyrst gestgjöfunum í ÍR, en einnig Breiðablik, Stjörnunni og Ármenningum sem voru að koma niður úr A-riðli. Okkar menn töpuðu fyrsta leiknum gegn ÍR með þremur stigum en gerðu sér lítið fyrir og sigruðu hina þrjá leikina nokkuð örugglega. Þeir voru því einungis þremur stigum frá því að komast upp í A-riðilinn í þessari fyrstu atrennu. Tvær umferðir eru enn eftir í 8. flokki og viðbúið að strákarnir mæti vaskir til leiks í næstu umferð í lok febrúar undir stjórn Hákons Ara Halldórssonar, þjálfara.

 

Fyrir áhugasama fylgir hér stigaskorið sem Hákon Ari tók saman úr leikjunum fjórum:

 

Laugardagur: Fyrsti leikur móts gegn stóru liði ÍR, fyrsta tap mótsins og fyrsta tap strákana í vetur, c'est la vie.

Lokatölur 36-33
Egill - 8
Hilmir - 12
Blessed - 2
Hugi - 11

 

Laugardagur: Annar leikur gegn Ármenningum, Ármann kemur úr A-riðli og er með sterkt lið.
Lokatölur 40-46 sigur.
Blessed -2
Egill - 9
Hilmir - 17
Friðrik - 8
Hugi - 10

 

Sunnudagur: Þriðji leikur móts gegn a-liði Stjörnunnar. 
Lokatölur 28-44 sigur.
Blessed - 4
Egill - 5
Hilmir - 24
Friðrik - 2
James - 3
Hugi - 6

 

Sunnudagur: Fjórði og síðasti leikur gegn Breiðablik.
Lokatölur 36-48 sigur.
Blessed - 2
Egill - 16
Hilmir - 15
Friðrik - 2
Hugi - 13

Nánar

Leik frestað KFÍ-Hamar

Körfubolti | 05.02.2016

Búið er að fresta leik KFÍ og Hamars sem átti að vera í kvöld vegna ófærðar. Nýr leikdagur er þriðjudagurinn 9. febrúar kl. 19.15.

Nánar

KFÍ mætir Hamri ef veður leyfir

Körfubolti | 03.02.2016
KFÍ tekur á móti Hamri á föstudaginn ef veður leyfir.
KFÍ tekur á móti Hamri á föstudaginn ef veður leyfir.

Næstkomandi föstudag, 5. febrúar, tekur KFÍ á móti Hamri frá Hveragerði í 1. deild karla kl. 19.15. Það er þó rétt að setja þann fyrirvara að veðurspá fyrir föstudaginn lítur mjög illa út og því kann vel að vera að leiknum verði frestað. Við hvetjum alla til að fylgjast með hér á síðunni og á Facebook síðu KFÍ hvað þetta varðar.

 

En ef allt gengur upp verður leikurinn í beinni útsendingu á Jakinn-TV.

Nánar