Fréttir - Körfubolti

Einn sigur og eitt tap gegn ÍA

Körfubolti | 31.01.2016

Lið KFÍ í meistaraflokki karla mættu liðum ÍA í sitthvorum leiknum síðastliðinn föstudag. Í 1. deild mættust aðallið félaganna en strax að þeim leik loknum mættust B-liðin í leik í 3. deild. Skemmst er frá því að segja að KFÍ tapaði 1. deildar leiknum 69-77 en KFÍ-B sigraði hinsvegar B-lið ÍA örugglega 86-69.

Nánar

Sjö lið yngri flokka á faraldsfæti

Körfubolti | 27.01.2016

Það verður mikið umleikis í yngri flokkum KFÍ (Vestra) um helgina því heil sjö lið eru á leið suður til keppni. Báðir 8. flokkar félagsins keppa í þriðju umferð Íslandsmótsins og spila báðir í Reykjavík auk þess sem Póstmót Breiðabliks fer fram í Kópavogi um helgina og þangað fara fimm lið á okkar vegum.

 

Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með krökkunum í 8. flokki en strákarnir keppa í Hertz-hellinum hjá ÍR-ingum í Seljahverfi og mæta þar gestgjöfunum ásamt Ármanni, Breiðablik og Stjörnunni. Strákarnir okkar hafa staðið sig afar vel í vetur, unnið sig upp um tvo riðla og spila nú í B-riðli. Þeir hafa enn ekki tapað leik á mótum vetrarins en vænta má að nú þyngist róðurinn nokkuð. Liðið er skipað strákum fæddum 2002 og 2003 frá Ísafirði, Bolungarvík og Ströndum. Leikir okkar manna eru kl. 15 og 17 á laugardag o 11.15 og 13.15 á sunnudag undir stjórn Hákons Ara Halldórssonar.

 

Stelpurnar í 8. flokki byrjuðu flestar að æfa körfu í haust og vetur. og er gaman að geta þess að liðið er skipað stelpum frá Ísafirði, Súgandafirði og Súðavík. Þær hófu keppni í C-riðli þegar ein umferð var liðin af Íslandsmótinu og stóðu sig sérlega vel á fyrsta mótinu, unnu tvo leiki, töpuðu einum og urðu í öðru sæti riðilsins. Um helgina sækja þar Valsstúlkur heim að Hlíðarenda og mæta þar einnig KR, Njarðvík-b og Tindastóli/Þór Akureyri. Allir leikirnir fara fram á sunnudag. Stelpurnar okkar hafa tekið miklum framförum á æfingum upp á síðkastið undir stjórn Nökkva Harðarsonar og væntir félagið mikils af þeim um helgina.

 

Á Póstmótið sendum við fimm flott lið, bæði stúlkna og drengja, en alls eru 23 börn úr okkar röðum skráð til leiks í þremur stúlknaliðum og tveimur drengjaliðum. Þetta eru krakkar fæddir 2004-2009 og eru sumir þeirra að fara á sitt allra fyrsta körfuboltamót. Póstmótið er ekkert smámót því 176 lið eru skráð til keppni. Það verður því væntanlega handagangur í öskjunni í Smáranum í Kópavogi þar sem mótið fer fram bæði laugardag og sunnudag.

 

Við hvetjum alla sanna stuðningsmenn KFÍ á höfuðborgarsvæðinu til að kíkja á krakkana okkar og hvetja þau til dáða.

Nánar

Tvíhöfði gegn Skagamönnum á föstudag

Körfubolti | 26.01.2016
Úr fyrri leik liðanna í nóvember á Skaganum. Ljósmynd: Facebook síða Körfuknattleiksfélags Akraness.
Úr fyrri leik liðanna í nóvember á Skaganum. Ljósmynd: Facebook síða Körfuknattleiksfélags Akraness.
1 af 2

Föstudaginn 29. janúar verður sannkölluð körfuboltaveisla í íþróttahúsinu Torfnesi.  Klukkan 18:30 mætir KFÍ liði ÍA í 1. deild karla og strax að þeim leik loknum mætast B-lið beggja liða í 3. deild karla. Rétt er að árétt að 1. deildar leikurinn hefst fyrr en venjulega eða 18:30!

Nánar

Nebojsa og Rúnar tóku við viðurkenningum

Körfubolti | 26.01.2016
Rúnar Ingi og Nebojsa með viðurkenningar sínar. Ljósmynd: Guðmundur Kort Einarsson.
Rúnar Ingi og Nebojsa með viðurkenningar sínar. Ljósmynd: Guðmundur Kort Einarsson.

Síðastliðinn sunnudag fór fram hátíðleg athöfn í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði þar sem veittar voru viðurkenningar til þeirra íþróttamanna sem tilnefndir vour sem íþróttamaður ársins og efnilegasti íþróttamaðurinn á Ísafirði.

Nánar

Sætur sigur í Sandgerði

Körfubolti | 22.01.2016
Gunnlaugur Gunnlaugsson í  fyrri  leik liðanna hér heima í haust. Gulli átti góðan leik í kvöld með 100% nýtingu í skotum utan af velli. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Gunnlaugur Gunnlaugsson í fyrri leik liðanna hér heima í haust. Gulli átti góðan leik í kvöld með 100% nýtingu í skotum utan af velli. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.

Rétt í þessu lagði KFÍ (KKD Vestra) Reyni í Sandgerði í 1. deild karla 62-116. KFÍ hafði undirtökin allan leikinn og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Þetta var góður liðssigur þar sem allir lögðu sitt af mörkum og komust allir leikmenn KFÍ á blað í stigaskori. Sigurinn var mjög mikilvægur fyrir KFÍ til að bægja falldraugnum frá. 

Nánar

Stofnfundur Vestra

Körfubolti | 19.01.2016
Undirritun stofnsamþykktar handsöluð. F.v. Ingi Björn Guðnason, f.h. KFÍ, Sigurður Jón Hreinsson, f.h. Skells, Gísli Jón Hjaltason, f.h. BÍ og Páll Janus Þórðarson f.h. Sundfélagsins Vestra. Ljósmynd: Benedikt Hermannsson.
Undirritun stofnsamþykktar handsöluð. F.v. Ingi Björn Guðnason, f.h. KFÍ, Sigurður Jón Hreinsson, f.h. Skells, Gísli Jón Hjaltason, f.h. BÍ og Páll Janus Þórðarson f.h. Sundfélagsins Vestra. Ljósmynd: Benedikt Hermannsson.
1 af 2

Á laugardaginn voru sannkölluð tímamót í íþróttalífinu á norðanverðum Vestfjörðum þegar formlegur stofnfundur hins nýja fjölgreinafélags Vestra var haldinn í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. 

Nánar

Samstarf við Kormák í 8. flokki drengja

Körfubolti | 18.01.2016
Hinn nýi 8. flokkur KFÍ, HSS og Kormáks á æfingunni á Hólmavík í gær ásamt þjálfaranum spræka, Hákoni Ara Halldórssyni.
Hinn nýi 8. flokkur KFÍ, HSS og Kormáks á æfingunni á Hólmavík í gær ásamt þjálfaranum spræka, Hákoni Ara Halldórssyni.

KFÍ (Vestri) hefur tekið upp samstarf við Kormák á Hvammstanga og mun það sem eftir er vetrar tefla fram sameiginlegu liði í 8. flokki drengja. Eru félögin þá orðin þrjú sem standa að þessum myndarlega æfingahópi en í haust höfðu KFÍ og Héraðssamband Strandamanna sameinað krafta sína og hefur það samstarf gefið afar góða raun í vetur. Samtals telur æfingahópurinn í 8. flokki 12 stráka; sjö eru úr KFÍ (Vestra), tveir úr HSS og þrír frá Kormáki. Þjálfarinn þeirra er Hákon Ari Halldórsson, liðsmaður meistaraflokks karla. Einnig eru Ísfirðingar og Strandamenn saman um 10. flokk drengja en þar stýrir Nebojsa Knezevic hópnum..

 

Áttundaflokksstrákarnir hittust á Hólmavík í gær, sunnudag, á sinni fyrstu sameiginlega æfingu, en Hólmavík er vel í sveit sett í þessu nýja samstarfi, miðja vegu milli Ísafjarðar og Hvammstanga. Æfingin tókst í alla staði vel en næstu tvær vikurnar æfa þeir hver í sinni heimabyggð og undirbúa sig fyrir  3. umferð Íslandsmótsins sem fram fer 30.-31. janúar. Mótið fer fram á vegum ÍR í Seljaskóla. Strákarnir hófu keppni í D-riðli í haust en hafa þegar unnið sig upp í B-riðil og eru ósigraðir í mótinu. Það verður spennandi að fylgjast með framvindu þeirra í lok mánaðarins.

Nánar

Stofnfundur Vestra

Körfubolti | 14.01.2016
Við hæfi að henda inn gamalli mynd úr starfinu á svona tímamótum
Við hæfi að henda inn gamalli mynd úr starfinu á svona tímamótum

Komið er að lokakafla í vinnunni við sameiningu íþróttafélaga á norðanverðum Vestfjörðum.

 

Komið er að stofnfundi íþróttafélagsins Vestra.

 

Fundurinn mun fara fram laugardaginn 16. janúar 2016 kl. 16.00 á fjórðu hæð Stjórnsýsluhúss Ísafjarðarbæjar.

 

Að baki stofnunar Vestra eru fimm íþróttafélög sem stefna að sameiningu undir merkjum hins nýja félags.  Félögin eru Boltafélag Ísafjarðar (BÍ88), Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar (KFÍ), Blakfélagið Skellur, Sundfélagið Vestri og knattspyrnudeild UMFB í Bolungarvík.

 

Að lokinni hefðbundinni dagskrá verður boðið upp á kaffi og léttar veitingar.  

 

Félagsmenn er hvattir til að mæta.

 
 
Nánar

Daníel Freyr til liðs við KFÍ

Körfubolti | 14.01.2016

Nýr leikmaður, Daníel Freyr Friðriksson, er gengin til liðs við KFÍ í gegnum venslasamning við ÍR. Daníel Freyr er ungur og efnilegur bakvörður sem hefur leikið með ÍR undanfarin ár en er uppalinn í Fjölni. 

Nánar

Fyrirlestrar fyrir ungt íþróttafólk á laugardag

Körfubolti | 13.01.2016
Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur, hefur liðsinnt íslensku afreksíþróttafólki um árabil.
Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur, hefur liðsinnt íslensku afreksíþróttafólki um árabil.

Laugardaginn 16. janúar mun HSV í samstarfi við KFÍ bjóða upp á fyrirlestra með sálfræðingnum Hafrúnu Kristjánsdóttur. Fyrirlestrarnir verða tveir, annarsvegar klukkan 13.30 fyrir íþróttakrakka  í 6. – 9. bekk grunnskóla og hinn verður kl. 15 fyrir iðkendur í 10. bekk og eldri. Fyrirlestrarnir verða haldnir í fyrirlestrastofunni á neðri hæð Menntaskólans á Ísafirði.  Þjálfarar eru hvattir til að mæta og foreldrar eru velkomnir með sínum börnum.

Hafrún er með doktorspróf í sálfræði og hefur haldið fjölmarga fyrirlestra fyrir íþróttafólk þar sem hún fjallar m.a. um hugarþjálfun, einbeitingu, ofþjálfun, liðsheild, sjálfstraust, markmiðsetningu, hugarfar og streitu. Hún hefur einnig unnið mikið fyrir ÍSÍ og var meðal annars sálfræðingur íslenskra keppenda á ólympíuleikunum í London og einnig séð um sálræna fræðslu fyrir unga og framúrskarandi efnilega íþróttamenn sem eru á styrk hjá ÍSÍ. Ekki leikur vafi á að þekking Hafrúnar og fræðsla getur nýst okkar ungu og efnilegu íþróttamönnum. 

Nánar