Nú er unnið að því að setja saman þjálfarateymi fyrir körfuboltabúðirnar sem haldnar verða 31. maí til 5. júní nk. Yfirþjálfari verður Finnur Freyr Stefánsson, aðalþjálfari mfl. karla hjá KR, Íslandsmeistara síðustu tveggja ára. Hann er auk þess þjálfari U-20 ára karlalandsliðs Íslands og aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla. Finnur hefur mikla reynslu af þjálfun barna og unglinga en hann var áður yfirþjálfara yngri flokka KR og gerði nokkra þeirra að Íslandsmeisturum. Finnur er vel þekktur í Körfuboltabúðum KFÍ þar sem hann hefur áður verið yfirþjálfari og erum við afskaplega ánægð með að hann skuli vera mættur aftur til að miðla ungu körfuboltafólki af reynslu sinni og þekkingu.
Aðrir þjálfarar sem hafa tilkynnt komu sína eru Arturo Alvarez, Natasja Andjelic og Borce Ilievski, allt úrvals þjálfarar sem áður hafa verið í búðunum og er frábært að fá þau aftur. Fleiri þjálfarar eru áhugasamir um að koma og færum við fréttir af því um leið og þátttaka þeirra verður staðfest
NánarKFÍ vann mikilvægan sigur á Ármanni í kvöld á Jakanum, 85-77, og lyfti sér þar með naumlega upp úr fallsætinu.
KFÍ byrjaði leikinn af krafti og komst í 8-0 strax á annarri mínútu og hélt forystunni nokkuð örugglega framan af fjórðungnum en undir lok hans náðu gestirnir að minnka muninn í fjögur stig. Snemma í öðrum leikhluta jöfnuðu gestirnir svo 28-28 og komust á tímabili yfir. KFÍ náði þó aftur forystu en aldrei afgerandi og því munaði aðeins einu stigi á liðinum í hálfleik 44-43, KFÍ í vil.
Kjartan Helgi var allt í öllu í sóknarleiknum í fyrri hálfleik og skoraði megnið af sínum 19 stigum þá.
Í síðari hálfleik byrjuðu KFÍ strákar aftur af miklum krafti og náðu 16 stiga forystu, 59-43 en það tók Ármenninga rúmar fjórar mínútur að skora fyrstu stig sín í síðari hálfleik. Upp úr þessu varð leikurinn jafnari en þó hleyptu heimamenn gestunum aldrei mjög nálgæt sér. Nebojsa var lang besti maður vallarins í síðari hálfleik en einnig kom Birgir Björn sterkur inn í sóknarleikinn í hálfleiknum.
Verðskuldaður og langþráður sigur staðreynd, KFÍ 85, Ármann 77.
Nebojsa var besti maður vallarins og stigahæstur heimamann með 32 sti, 5 stoðsendingar, 5 stolna bolta og 4 fráköst. Næstur kom Kjartan Helgi með 19 stig og 7 fráköst. Pance skoraði 14 stig og tók 3 fráköst. Birgir Björn skoraði 9 stig og tók 11 fráköst en aðrir voru með minna.
Hjá gestunum var Elvar Steinn Traustason stighæstur með 21 stig en næstur kom Guðni Sumarliðason með 18 stig.
Ítarlega tölfræði úr leiknum má nálgast hér.
NánarKFÍ tekur á móti Ármanni föstudaginn 8. janúar kl. 19:15 á Torfnesi í fyrsta heimaleik ársins í 1. deild karla. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur enda eru KFÍ strákar með bakið upp við vegg og verða að vinna til að lyfta sér upp úr fallsæti. Ármenningar voru á góðu skriði fyrir jólafrí og unnu tvo síðustu leiki sína gegn Reyni og ÍA og eru einu sæti ofan við KFÍ fyrir leikinn.
Eins og fram hefur komið hér á síðunni fékk KFÍ góðan liðstyrk fyrir leikinn en miðherjinn Birgir Björn Pétursson mun klæðast KFÍ treyjunni í leiknum á ný.
Miðaverð á leikinn er aðeins 1.000 krónur og boðið verður upp á hina rómuðu hamborgara skömmu fyrir leik.
Líkt og fyrr verður leikurinn í beinni útsendingu á Jakinn-TV.
Hvetjum alla til að mæta á Jakann og styðja við strákana.
NánarBirgir Björn Pétursson verður í leikmannahópi KFÍ sem mætir Ármanni á föstudaginn kemur, 8. janúar kl. 19:15, í fyrsta heimaleik liðsins á árinu.
NánarKörfuknattleiksfélag Ísafjarðar hefur tilnefnt þá Nebojsa Knezevic og Rúnar Inga Guðmundsson sem íþróttamenn Ísafjarðarbæjar. Nebojsa er tilnefndur í flokknum Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar en Rúnar Ingi í flokknum efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar.
NánarHin árlega jólakarfa KFÍ á aðfangadag verður á sínum stað að venju en löng hefð er fyrir því að körfuboltakappar mæti á aðfangadagsmorgun á Torfnes og hiti þannig upp fyrir jólahátíðina. Yngri iðkendur (9 ára og eldri) mæta kl. 9 og skemmta sér til 10.30 en þá mæta rosknari og reynslumeiri leikmenn sem sprikla til kl. 12. Góða skemmtun!
NánarÁ morgun, föstudaginn18. desember, mætir KFÍ Valsmönnum í lokaumferð 1. deildar karla fyrir jólafrí. Leikurinn fer fram á heimavelli Valsmanna að Hlíðarenda og hefst kl. 19:30. Okkar menn þurfa nauðsynlega á sigri að halda til að fjarlægast fallsætin illræmdu.
NánarKFÍ tekur á móti Fjölni föstudaginn 11. desember kl. 19:15 á Torfnesi í síðasta heimaleik ársins.
Miðaverð á leikinn er aðeins 1.000 krónur og boðið verður upp á hina rómuðu hamborgara skömmu fyrir leik. Einnig verða árskortin til sölu í sjoppunni.
Líkt og fyrr verður leikurinn í beinni útsendingu á Jakinn-TV.
Hvetjum alla til að mæta á Jakann og styðja við strákana.
NánarÞað var svo sannarlega nóg að gera hjá krökkunum í 8. flokkum KFÍ um helgina þegar önnur umferð Íslandsmótsins fór fram. Stelpurnar mættu í Hafnarfjörð en leið strákanna lá í Njarðvík. Skemmst er frá því að segja að strákarnir unnu alla sína leiki og eru þar með komnir í B-riðil. Stelpurnar unnu tvo af þremur leikjum sínum í C-riðli sem er frábær árangur í ljósi þess að meirihluti liðsins samanstendur af nýliðum sem byrjuðu fyrst að æfa körfu nú í haust.
Stelpurnar eiga mikið inni
Víkjum fyrst sögunni að stelpunum en mótið í C-riðlinum var haldið á heimavelli Hauka á Ásvöllum. Allir þrír leikir mótsins fóru fram á laugardeginum og hóf KFÍ leik gegn Valsstúlkum og það í hörkuleik. Eftir þrjá leikhluta var staðan hnífjöfn 17-17 en þá settu KFÍ stúlkur í næsta gír og sigldu flottum sigri heim 23-19 eftir mikla baráttu á báðum endum vallarins.
Í öðrum leiknum gegn Haukum var sama harka og áður og mikil barátta hjá báðum liðum. Fyrir fjórða og síðasta leikhlutann munaði aðeins tveimur stigum á liðunum 15-17 Haukastúlkum í vil. Á þessum tímapunkti voru KFÍ stúlkur orðnar átta talsins eftir meiðsli sem komu upp í leiknum og voru auk þess komnar í villuvandræði. Haukar notuðu breiddina sína vel og tóku öll völd í fjórða leikhluta og unnu 10 stiga sigur á KFÍ stúlkum 19-29. Stelpurnar okkar eiga þó greinilega mikið inni ef marka má frammistöðuna í fyrstu þremur leikhlutunum.
Í þriðja og síðasta leik mættu KFÍ stúlkur B liði Vals og voru KFÍ stúlkur staðráðnar í því að gera betur en á móti Haukastúlkunum. Í þessum leik sýndi KFÍ hörku og dugnað og gáfu Valsstúlkum ekkert eftir. KFÍ stúlkur voru mun ákveðnari og voru 6 til 8 stigum yfir allan leikinn og tóku frekar þægilegan sigur á Val B 22-17.
Þjálfari KFÍ stúlknanna er Nökkvi Harðarson og er hann að ná einstaklega góðum árangri með bæði 7. flokk og 8. flokk kvenna en yngri stelpurnar komust einmitt upp í A-riðil í síðustu umferð Íslandsmótsins sem fram fór á Ísafirði fyrir skömmu. Þess má reyndar geta að Hákon Ari Halldórsson, þjálfari 8. flokks drengja, aðstoðar Nökkva á fjölmennum stúlknaæfingunum og eru þeir félagar mjög samstíga í þjálfun þessa aldurshóps, sem telur um 30 einstaklinga.
Nökkvi er að vonum ánægður með nýafstaðna helgi og sigrana tvo hjá stelpunum en margar þeirra byrjuðu fyrst að æfa körfubolta nú í haust: „Þetta er frábært afrek þar sem flestar stelpurnar í þessum flokki eru að stíga sín fyrstu skref í körfubolta og körfuboltamótum. Framtíðin er svo sannarlega björt í verstfirskum kvennakörfubolta ef fram fer sem horfir.“
Strákarnir ósigraðir en það var tæpt á tímabili
Og þá að frammistöðu strákanna í 8. flokki sem Hákon Ari stýrir af miklum myndarbrag en strákarnir eru ósigraðir eftir fyrstu tvær umferðirnar á Íslandsmótinu. Hópurinn samanstendur af fjórum strákum fæddir 2002 og fimm fæddir 2003, þar af eru tveir Strandastrákar sem eðli máls samkvæmt æfa ekki að staðaldri með félögum sínum.
Tveir leikir fóru fram á laugardeginu og var fyrri leikurinn á móti Snæfelli. Reyndist sá leikur auðveldari en við var búist og voru okkar menn fljótt komnir með talsvert forskot og sigruðu örugglega.
Snæfell 16 – KFÍ 56
Hilmir 31
Hugi 12
Blessed 8
Egill 4
Daði 3
Friðrik 2
Seinni leikur laugardagsins var á móti Þór Akureyri og urðu miklar sviptingar í þeim leik. Okkar menn byrjuðu illa á móti ákveðnum Þórsurum og vissu ekki hvernig þeir áttu að bregðast við varnarleik andstæðingsins og voru sjálfir ekki nógu vakandi í vörninni. Strákarnir að norðan voru brátt komnir með gott forskot og létu okkar menn mótlætið fara í taugarnar á sér, sem ekki varð til að bæta stöðuna. Hákon þjálfari las mönnum pistilinn í leikhléi og mættu strákarnir betur stemmdir og ákveðnir í Í þriðja leikhluta. Sýndu þeir mikinn karakter þegar þeir smám saman söxuðu á forskot Þórsaranna og í fjórða leikhluta var þetta bara orðin spurning um hversu stór sigurinn yrði.
Þór Ak. 29 – KFÍ 52
Hilmir 25
Hugi 14
Egill 11
Blessed 4
Sunnudagurinn hófst á leik á móti Njarðvík sem hafði unnið alla sína leiki fram að þessu. Það er skemmst frá því að segja að strákarnir okkar byrjuðu afspyrnu illa og virtust hreinlega ekki vera vaknaðir. Njarðvíkingarnir spiluðu vel og náðu nokkru forskoti þótt okkar menn væru aldrei langt á eftir en fyrri hálfleikur leit alls ekki vel út hjá þeim. Virtist jafnvel sem fyrsti ósigurinn lægi í loftinu hjá KFÍ-strákunum en þeir voru ekki tilbúnir til að játa sig sigraða og mættu af fullum krafti í seinni hálfleik og sneru leiknum sér í hag. Voru þeir komnir með örugga forystu undir lok fjórða leikhluta og dugðu tvær þriggja stiga körfur Njarðvíkinga á lokamínútunni ekki til að vinna upp það forskot.
Njarðvík 40 – KFÍ 46
Hilmir 26
Hugi 16
Blessed 2
Egill 2
Fjórði og síðasti leikurinn var á móti Grindavík. KFÍ-strákarnir mættu vel stemmdir í þennan leik og spiluðu flottan körfubolta. Voru þeir yfir megnið af leiknum og náði Grindavík aðeins að halda í við þá í fyrsta leikhluta en eftir það juku strákarnir smám saman forskotið og unnu leikinn örugglega. Spennandi verður að sjá hvernig strákarnir standa sig í B-riðlinum eftir áramót en nokkuð víst má telja að þar mæti þeir mun sterkari andstæðingum en raunin hefur verið til þessa í vetur.
Grindavík 43 – KFÍ 61
Hilmir 33
Egill 8
Blessed 7
Hugi 7
Friðrik 4
James 3
NánarVestfirska mulningsvélin, betur þekkt sem KFÍ-b, hélt áfram sigurgöngu sinni í 3. deild karla í gær þegar liðið bar sigurorð af Gnúpverjum 88-79.
Nánar