Fréttir - Körfubolti

Og þá byrjar fjörið á nýju ári

Körfubolti | 16.01.2014

Á morgun föstudag kl.19.15 er loks komið að heimaleik hjá okkur og ekki eru andstæðingar af lakari gerðinni en það er piltarnir frá Keflavík sem sitja í öðru sæto deildarinnar og hafa einungis tapað einum leik. Þeir eru með frábært lið og verður gaman að takast á við þá hér á Jakanum. Okkar strákar eru klárir, einhver smá eymsli sem skipta engu máli þegar á völlin er komið.

 

Eins og allir vita fór Jason í sólina í Brazelíu og er að gera það gott þar og meðala annars kominn á topp fimm lista í tilþrifum. En í hans stað er kominn eðaldrengurinn Josh Brown sem spilaði með KR og er hörkuleikmaður. Hann er þegar búinn að spila tvo leiki með KFÍ og var með 25 stig gegn Njarðvík og 36 gegn Þór.

 

Það er um að gera að koma snemma og fá sér borgara "A la Muurikka" sem kokkarliðið framreiðir á yndislegan hátt og verður pannan klár með matinn kl.18.30.

 

Fyrir leikinn verður mínútu þögn til heiðurs og minningar um Jonna formann KFÍ sem kvaddi okkur rétt fyrir jól.

 

Við viljum fá fólkið okkar á Jakann. Komið og hafið gaman að þessu með okkur.

 

Og að sjálfsögðu á KFÍ-TV og hefst útsending kl.18.50

 

Áfram KFÍ

Nánar

Linda Marín Kristjánsdóttir efnilegust hjá KFÍ 2013

Körfubolti | 14.01.2014
Linda Marín Kristjánsdóttir. Mynd H.Sveinbjörnsson
Linda Marín Kristjánsdóttir. Mynd H.Sveinbjörnsson
1 af 3

Stjórn KFÍ hefur ákveðið að tilnefna Lindu Marín Kristjánsdóttur sem efnilegasta íþróttamann ársins 2013 hjá félaginu.

 

Linda Marín Kristjánsdóttir er fædd árið 1999. Hún hefur um nokkurra ára skeið æft körfubolta hjá KFÍ og stundað íþróttina af samviskusemi, kappsemi og metnaði. Linda þykir efnileg körfuboltakona og hefur undanfarin tvö ár hefur verið valin í æfingahópa yngri landsliða KKÍ.

 

Stjórn KFÍ óskar Lindu til hamingju með titilinn og hvetur hana til að stunda körfuboltann áfram af sama metnaði og vera fyrirmynd annarra ungra iðkenda félagsins í leik og starfi.

Nánar

Tveir tapleikir fyrir sunnan

Körfubolti | 13.01.2014

Strákarnir í KFÍ komu saman í fyrsta sinn allir síðan fyrir jól en veður og færð hafa sett strik í reikning okkar hér eins og víða um land. Eins og allir vita fór Jason frá okkur til Braselíu og í hans stað kom Josh Brown sem spilaði einmitt fyrsta leik sinn gegn Njarðvík þá nýlentur og ósofinn. Frá upphafi leiks var strax farið að sjást hverjir hafa verið í toppæfingu og hverjir ekki og vorum við í eltingaleik. En Biggi þjálfari notaði þennan leik til að leyfa öllum að spila og voru þeir allir með fimmtán mínútur eða meira. Við töpuðum leiknum örugglega en hann fer í bankann fræga sem inniheldur reynslu. Lokatölur 113-64. Josh komst vel frá sínu sem og Valur, en aðrir höfðu hægt um sig. Josh var með 25 stig og Valur lét finna fyrir sér og endaði með 12 stig.

 

Tölfræðin

 

Seinni leikur okkar var gegn Þór sem sitja í þriðja sæti og var strax allt annað að sjá til drengjanna og úr varð leikur. Allt var í járnum í fyrri hálfleik og þegar gengið var til hlés var staðan 47-47 og allt opið. En þriðji leikhluti var okkar banabiti en þá náðu Þórsarar að stinga af með 30-14 áhlaupi og þar fór leikurinn.Fjórði leikhlutinn var jafn, en mikið var að minnka muninn og svo fór þessi. Lokatölur 108-90. Josh var góður í leiknum og verður okkur góð viðbót, en núna koma strákarnir til með að æfa stíft og koma drengnum vel inn í öll kerfi. Það er ekki auðvelt að vera saman með strákunum í tvo daga og ætla að læra allt. Josh var með 36 stig, Mirko 13 og 12 fráköst og Gústi með 12 og 12 fráköst. Valur, Gummi og Jón áttu fína spretti. 

Það sem stóð upp úr er að Þór fór á línuna helmingi oftar en við (39 víti en við 21) og létu drengirnir það fara í taugarnar á sér. Það hefur ekkert upp á sig að hugsa um dómarna. Við þurfum að hætta að láta þá hafa áhrif á okkur og koma í hvern leik með því hugarfari að það er ekkert hægt að breyta þessu. Svona er þetta og verður allt tímabilið. Nú er bara að fókusa fram á veginn en næstu tveir leikir eru hér heima sá fyrri gegn Keflavík á föstudag 17. janúar og hefst kl.19.15.

 

Tölfræðin

 

Áfram KFÍ

Nánar

Íþróttamaður ársins 2013 hjá KFÍ - Jón Hrafn Baldvinsson

Körfubolti | 06.01.2014

Það er stjórn KFÍ mikil ánægja og heiður að útnefna Jón Hrafn Baldvinsson íþróttamann ársins 2013 hjá KFÍ og tilnefna hann jafnframt til vals á íþróttamanni Ísafjarðarbæjar 2013.

 

Eftir frækinn 1. deildarmeistaratitil og þau tvö tímabil sem KFÍ hefur spilað í efstu deild körfuboltans hefur Jón Hrafn Baldvinsson sýnt og sannað að þar fer afreksíþróttamaður og einstakur liðsfélagi.  Enda er hann fyrirliði meistaraflokks og einn þeirra sem draga vagninn fyrir félagið. Helstu einkenni Jóns Hrafns eru sigurvilji og baráttugleði sem hrífa liðsfélaga og alla þá sem hafa fylgst með honum. Hann er máttarstólpi í liði KFÍ og góð fyrirmynd sem fær þá yngri til að leggja harðar að sér á æfingum og í kappleikjum.

 

Jón Hrafn byrjaði að æfa körfubolta 12 ára gamall í KR, varð 2. deildarmeistari með Laugdælum og 1. deildarmeistari með KFÍ auk spilar meðal þeirra bestu í efstu deild í dag. Jón Hrafn er ávallt tilbúinn að legga sitt af mörkum til félagsstarfs KFÍ og sinna þeim verkefnum sem honum eru falin. Hann vinnur á Endurhæfingardeild heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem er þakklátt og gefandi starf.  Loks má geta þess að Jón Hrafn á ættir að rekja til Hornvíkur þar sem Frímann Haraldsson og Hallfríður Finnbogadóttir, langafi og langamma hans, bjuggu.

 

 

Nánar

Jón Kristmannsson

Körfubolti | 04.01.2014
Jón Kristmannsson ásamt Lúðvík Jóelssyni
Jón Kristmannsson ásamt Lúðvík Jóelssyni
1 af 4

Í dag er til moldar borinn mætur Ísfirðingur sem var einn af máttarstólpum ísfirsks körfuknattleiks um árabil. Jón Kristmannsson tók við formennsku í stjórn Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar árið 1994 og sinnti því starfi með miklum sóma í áratug, lengst allra formanna félagsins. Undir hans stjórn náði félagið að vinna sig upp í efstu deild og skipaði sér þannig á bekk með bestu liðum landsins. Með Jonna í brúnni komst KFÍ alla leið í úrslit bikarkeppni KKÍ árið 1998 og náði þriðja sætinu í úrvalsdeildinni það árið.

Jonni fylgdi liðinu sínu vel eftir og ávann sér virðingu í heimi körfunnar langt út fyrir raðir KFÍ. Hann stóð með félaginu í gegnum súrt og sætt gegnheill og traustur. Menn minnast stjórnarfundanna heima í stofu hjá Jonna og Huldu á Seljalandsvegi 36 þar sem alltaf var nýbakað með kaffinu. Hann lá ekki á skoðunum sínum ef hann taldi að hægt væri að gera betur enda mikill keppnismaður í íþróttum frá gamalli tíð og líkaði illa að tapa. Handtakið var þétt og sterkt og þegar ákvörðun lá fyrir var henni ekki hnikað. Jonni var sem klettur í starfi félagsins, hann hugsaði vel um sína og væru leikmenn eða stjórnarmenn í vanda var leitað til Jonna sem oftar en ekki leysti úr málum.

Þótt Jonni léti af störfum formanns árið 2004 var hann aldrei langt undan í starfinu enda studdi hann félagið í hvívetna fram á síðasta dag. Hann átti sinn fasta stað á Jakanum, heimavelli KFÍ, og lét sig helst ekki vanta á leiki. Hann vatt sér gjarnan að undirrituðum í hálfleik, fékk fréttir af starfinu og því sem var í vændum og lét ævinlega fylgja með hvatningu og heilræði. Hann brýndi okkur til góðra verka á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og fyrir það verðum við ávallt þakklát. Jón Kristmannsson var sæmdur bæði silfur- og gullmerki Héraðssambands Vestfirðinga fyrir framlag hans til íþróttalífs á Ísafirði, einkum dugmikið starf í þágu körfunnar.

Jonna Kristmanns verður sárt saknað af vinum og samferðafólki á Ísafirði en mestur er missirinn fyrir fjölskyldu hans og ástvini. Hugur okkar er hjá þeim á þessum þungbæru tímamótum en fjölskyldan hans Jonna er stór þáttur í starfi félagsins. Áhuginn á körfunni smitaðist til barna og barnabarna og dæturnar og tengdasynirnir hafa verið stoð og stytta í starfi félagsins til margra ára. Við vottum Huldu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð um leið og við þökkum samfylgdina við einstakan mann. Minningin um Jonna verður okkur hvatning í starfi um ókomin ár.

Með hinstu kveðju fyrir hönd okkar allra í Körfuknattleiksfélagi Ísafjarðar,

Sævar Óskarsson
formaður stjórnar KFÍ

Nánar

Æfingar yngri flokka byrja mánudaginn 6. janúar

Körfubolti | 03.01.2014
Flottir KFÍ-krakkar.
Flottir KFÍ-krakkar.

Nú er nýtt ár gengið í garð og jólafríið á enda hjá KFÍ-krökkum. Við ætlum að hefja æfingar mánudaginn 6. janúar samkvæmt æfingatöflu. Við hlökkum til að sjá krakkana okkar hressa og káta og tilbúna að takast á við skemmtileg verkefni á nýju ári.

Nánar

OV styrkir barna- og unglingastarf KFÍ

Körfubolti | 30.12.2013
Kristján Haraldsson, framkvæmdastjóri Orkubús Vestfjarða og Guðfinna Hreiðarsdóttir, gjaldkeri stjórnar barna- og unglingaráðs KFÍ.
Kristján Haraldsson, framkvæmdastjóri Orkubús Vestfjarða og Guðfinna Hreiðarsdóttir, gjaldkeri stjórnar barna- og unglingaráðs KFÍ.

Í dag afhenti Orkubú Vestfjarða 29 styrki að upphæð 4,2 m.kr. til ýmissa samfélagslegra verkefna á starfssvæði fyrirtækisins. Barna- og unglingaráð KFÍ var meðal þeirra aðila sem hlaut styrk, alls 250 þús. kr. til að vinna að aukinni þátttöku stúlkna í körfubolta og efla almennan áhuga þeirra á íþróttum. Stjórn barna- og unglingaráðs KFÍ þakkar af heilum hug þennan rausnarlega styrk og stuðning við mikilvægt verkefni.

Um leið og við óskum öllum farsældar á nýju ári, þökkum við sérstaklega þeim sem stutt hafa dyggilega við barnastarfið hjá félaginu með ýmsum hætti og þökkum góðan hug og velvild á árinu sem nú er senn á enda. Gleðilegt nýtt ár!

Nánar

Joshua Brown til KFÍ

Körfubolti | 29.12.2013
Josh Brown. Mynd: Karfan.is
Josh Brown. Mynd: Karfan.is

Joshua Keith Brown er leikstjórnandi upp á 183 sentimetra sem kemur til okkar frá efstu deildinni í Kosovo þar sem hann var með 19 stig í leik 4 fráköst og 4 stoðsendingar, en þar á undan var kappinn með KR hér heima og spilaði vikrilega vel með því fína félagi. Eftirfarandi fengum við frá KR síðunni og var sett inn þegar hann kom þangað í janúar í fyrra;

 

,,Ferill hans er ansi áhugaverður að því leyti að um langt skeið leit alls ekki út fyrir að hann myndi enda í atvinnumennsku. Eftir tvö ár í Mount Olive háskólanum í annarri deildinni í Bandaríkjunum þar sem Josh skilaði ágætis verki tók hann upp á sitt einsdæmi þá ákvörðun að ganga í Towson State háskóla í heimafylki sínu upp á von og óvon í þeim tilgangi að koma sér í körfuboltalið skólans, nokkuð sem er algerlega fáheyrt í fyrstu deildar háskóla í eins sterkri deild og CAA deildin er.  Í stuttu máli gekk það eftir í kjölfar þrotlausrar vinnu og mikillar frekju hjá okkar manni og á endanum var Josh orðinn byrjunarliðsmaður á sínu síðasta ári.  Eftir mikið erfiði í sumar, þar sem okkar maður ferðaðist milli sumardeilda til að sanna sig móti hverjum atvinnumanninum á fætur öðrum, kom kallið frá Dinamo Bucharest og síðan hefur boltinn farið almennilega að rúlla.  Josh kemur til okkar eftir að hafa skilað 21.5 stigum, 5.6 fráköstum og 4.9 stoðsendingum að meðaltali í leik í sterkri deild í Rúmeníu".

 

Við bjóðum Josh velkominn í KFÍ og okkur hlakkar til að sjá kappann á Jakanum

 

Hér eru klippur frá Josh frá Towson State

 

 

 

Nánar

Vel mætt í jólaboltann

Körfubolti | 28.12.2013
Hópurinn í ár var ekki af verri endanum.
Hópurinn í ár var ekki af verri endanum.
1 af 2

Vel var mætt í jólaboltann á aðfangadaginn en hann var haldinn í 34. skiptið samkvæmt kunnugum. Mátti þar sjá margar gamlar stjörnur sem keppt hafa fyrir félagið í gegnum tíðina og sýndu þeir margir að þeir hafa litlu gleymt þrátt fyrir stækkandi vömb og hækkandi aldur.

 

Það fór svo að lokum að lið skipað Björgvin Sigurðssyni, Birgi Péturssyni, Daníel Þorsteinssyni, Unnþóri Jónssyni og Viðari Júlíussyni stóðu uppi sem siguvegarar.

 

Myndasafn frá boltanum

Nánar

Gleðileg jól

Körfubolti | 24.12.2013
GLEÐILEG JÓL. Mynd Guðfinna Hreiðarsdóttir
GLEÐILEG JÓL. Mynd Guðfinna Hreiðarsdóttir

Þrátt fyrir smá óveður létu krakkarnir það ekki aftra sér frá að mæta í hinn árlega jólabolta KFÍ og skemmtu sér vel. Í lokinn fóru allir heim með smá nammi og gleðin skein úr hverju andliti. Þegar krakkarnir kláruðu komu stóru krakkarnir og hefur sú hefð verið allt frá árinu 1979 og við höldum að Gaui Þ. hafi verið viðstaddur öll skiptin.  

 

Við hjá KFÍ óskum öllum gleðilegra jóla og vonum að allir fái ást og umhyggju.

 

GLEÐILEG JÓL

 

Nánar